09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7765 í B-deild Alþingistíðinda. (5869)

394. mál, lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Þar sem þetta mál hefur fengið afgreiðslu í hv. atvmn. tel ég ástæðu til að fara um till. nokkrum orðum.

Það er ljóst að langflestir notendur rafmagns til lýsingar í gróðurhúsum greiða samkvæmt svokölluðum marktaxta, en hann er notaður til búrekstrar, og greiða þá jafnframt rafmagn til annarra nota, svo sem heimilis, samkvæmt þessum taxta. Í dag er þessi taxti þannig að það er greitt orkugjald af allri notkun sem er 1,64 kr. á kwst., síðan er greitt aflgjald en lágmarksstilling eru 4 kw. á ári. Það eru 28 800 kr. sem greiðist fyrir slíkt aflgjald. Síðan er greitt aflgjald fyrir það sem er umfram þessi 4 kw. og að hámarki 20 kw. Það eru 4800 kr. pr. kw. á ári. Þá orkugjald af notkun umfram aflstillingu sem er 5,89 kr. Ef tekin eru 6 kw. og 12 000 kwst. á ári verður meðalverðið 4,84 kr. Nýtingartíminn er yfirleitt mjög stuttur. Það er talið að meðalnotkun heimilis á RARIK-svæðunum sé um 4000 kwst. á ári. Til samanburðar, þar sem mikið er rætt um orkuverð, er rétt að geta þess að meðalverð fyrir heimili í dag mun vera 6,60 kr. á kwst. Ég held að það sé full ástæða til þess að geta um það til samanburðar.

Við verðum að átta okkur á því að ef við lækkum orkukostnað til ákveðinna aðila hlýtur það að framkalla hækkun til annarra nema við lendum í því að reka þau fyrirtæki sem framleiða og dreifa rafmagni með umtalsverðu tapi. Þrátt fyrir þetta tel ég fulla ástæðu til þess að þessi till. verði samþykkt. Mér er kunnugt um að garðyrkjubændur hafa átt fyrir nokkrum árum, ég giska á fyrir þremur árum, viðræður við forráðamenn Rafmagnsveitna ríkisins og þá var boðið upp á samvinnu við garðyrkjubændur um að gera tilraun með lýsingu í gróðurhúsi og mæla það sérstaklega vegna hugsanlegra breytinga á orkutaxtanum. Hitt er svo annað mál að fulltrúar bænda hafa ekki haft aftur samband við Rafmagnsveitur ríkisins vegna þess máls.

Ég tel einnig, virðulegur forseti, ástæðu til að leggja áherslu á að Landsvirkjun getur að mínu áliti ekki verið aðili þessa máls. Það er ein af meginreglunum að Landsvirkjun afgreiðir rafmagn á föstu verði til þeirra sem síðan selja annaðhvort beint eða til þeirra sem dreifa raforkunni. Hins vegar finnst mér sjálfsagt að vinna að því að koma á samstarfi Rafmagnsveitna ríkisins og garðyrkjubænda fyrst, til þess að gera tilraunir eins og ég hef lýst áður, með það hvort breyta megi töxtum. Verði þessi till. samþykkt, sem ég vonast til að verði, tel ég að framkvæmd till. hljóti að liggja í því að koma slíkri samvinnu á milli garðyrkjubænda og Rafmagnsveitna ríkisins.