09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7765 í B-deild Alþingistíðinda. (5870)

394. mál, lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum

Alexander Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er langt því frá að ég sé að beita mér gegn þessari þáltill. nema síður sé, en mér finnst hér vera farið inn á nýja braut. Ef Alþingi er tilbúið að samþykkja ráðstafanir til að lækka raforkuverð á vissum tegundum atvinnurekstrar í landinu, því þá ekki að fara þessa leið til að leita lækkunar fyrir aðra sem vissulega eru ekki í betri aðstöðu en þeir aðilar sem hér um fjallar, garðyrkjubændur, sem ég veit að kvarta og þurfa að fá leiðréttingu á þessu gjaldi í sínum atvinnurekstri? Hvað þá um frystihúsin, hvað þá um allan iðnaðinn úti um landið, smáiðnaðinn og ýmsan almennan rekstur sem stynur undan allt of háu orkuverði, svo ég tali nú ekki um upphitun íbúðarhúsa?

Mér fannst það vera að vissu marki merkilegt að heyra hæstv. iðnrh. taka jákvætt undir þessa till. Ég tek það svo að hann sé jákvæður um að reyna að ná fram lækkun á orkuverði hjá hinum ýmsu atvinnugreinum í landinu og þá ekki síst úti um landið sem stynja undan hinu háa orkuverði og hafa margoft beðið um leiðréttingar.