09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7767 í B-deild Alþingistíðinda. (5872)

394. mál, lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í minni fyrri ræðu: Ég tel að framkvæmd þessarar till., ef af ályktun verður, hljóti að verða sú að koma á samvinnu garðyrkjubænda og Rafmagnsveitna ríkisins um tilraunir við lýsingu í gróðurhúsum og leita með þeim hætti leiða til að lækka orkukostnað. Þetta vil ég taka skýrt fram við afgreiðslu þessa máls, m.a. af þeim rökum, sem komið hafa fram í umræðunum, að ef einungis verður lækkaður taxti til þessarar atvinnugreinar hlýtur það að koma fram í hækkun annars staðar eða að kalla á sams konar viðbrögð frá öðrum atvinnurekstri, þar á meðal atvinnurekstri sem notar mjög mikið rafmagn, svo sem eins og frystiiðnaðurinn í landinu.

Ég vil enn fremur minna á vegna orða hv. 2. þm. Austurl. að þrátt fyrir að hægt sé að fallast á að orkuverð sé hátt hér á landi hefur það þó farið lækkandi og a.m.k. farið lækkandi allan þennan áratug. Á árunum 1982–1984 reis orkuverðið hæst. Síðan hefur það farið lækkandi miðað við annað verðlag í landinu og stefnir í enn frekari lækkun. Það er stefna ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar að halda áfram að vinna að lækkun raforkuverðs í landinu og vonast ég til þess að þingheimur sé sammála þeirri stefnu.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., að sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar vegna fiskeldis og vonandi eru fleiri aðgerðir þar í undirbúningi. En það er ólíku saman að jafna. Orkukaup við fiskeldi eru jöfn allt árið. Um er að ræða fyrst og fremst dælingu og orkukaupin eru hundrað- til þúsundföld miðað við það sem gerist hjá venjulegum garðyrkjubónda. Þetta gerir talsverðan mun og hefur þýðingu þegar rætt er um orkuverð.

Eftir sem áður, það er rétt sem hér hefur komið fram, sé ég ástæðu til að mæla með samþykkt till., hef hér lýst því yfir hvernig ég muni framkvæma hana ef samþykkt verður og ef hv. frsm. hefur ekkert við það að athuga tel ég mjög eðlilegt að Alþingi samþykki till. eins og hún er án þess að flutt sé sérstaklega brtt. við hana.