09.05.1988
Efri deild: 95. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7772 í B-deild Alþingistíðinda. (5891)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Júlíus Sólnes:

Virðulegi forseti. Mér finnst vera kominn svolítill óróleiki hér í hv. þingdeild, þannig að það er rétt að tala smávegis um kaupleiguíbúðir svo að menn nái svona andanum á meðan.

Ég skal ekki flytja langt mál, en ég varð því miður að víkja frá við 2. umr. um málið og náði þess vegna ekki að koma á framfæri nokkrum skoðunum sem við þm. Borgarafl. höfum á frv.

Við höfum tekið þá afstöðu að við viljum ekki leggjast gegn frv. til laga um kaupleiguíbúðir. Við fögnum í raun hvers kyns hugmyndum sem miða að því að auka á fjölbreytni í húsnæðismálum og bæta við valkostum til handa þeim sem eru að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Hins vegar viljum við benda á, ásamt mörgum öðrum hv. þm. sem hafa tekið til máls um frv., að heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni er fram undan og því hljóta allir að sjá að þetta frv. er tímaskekkja. Það stendur til nú í sumar að vinna í milliþinganefnd að heildarendurskoðun húsnæðislánakerfisins og taka fyrir á næsta þingi tillögur sem þar koma fram og koma í gegn nýjum húsnæðislánalögum.

Þá langar okkur til þess að vekja athygli á þeirri staðreynd, sem við höfum reyndar fjallað heilmikið um hér í vetur, að brýnasta þörfin núna í húsnæðismálum eru leiguíbúðir. Það sárvantar leiguhúsnæði sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar til að minna á tillögur Borgarafl. í því efni, sem við lögðum fram í þáltill. hér á dögunum, um að byggðar yrðu rúmlega 1000 leiguíbúðir. Það yrði lagt af stað með 250 leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu og það yrði tryggt að leigukostnaður þessara íbúða færi ekki yfir 25% af lágmarkstekjum eins og þær eru hverju sinni.

Ýmsum stjórnarliðum þótti fjármögnunartillaga okkar, sem fylgdi þáltill., vera með endemum, en við fólum ríkisstjórninni að koma með tillögur um fjármögnun. Hér er á misskilningi byggt, að sjálfsögðu, vegna þess að fyrr í vetur, á þessu þingi, lögðum við þm. Borgarafl. fram heilsteyptar tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi þar sem þessi fjármögnun yrði ekkert vandamál. Við bjóðum ríkisstjórninni að nýta sér einhverjar þær tillögur. Þessi fjármögnun er þá enginn vandi, ef svo má að orði komast.

Svo aftur sé haldið inn í kaupleiguíbúðirnar langar mig til að vekja athygli á einu atriði sem kann að valda erfiðleikum í sambandi við rekstur á kaupleiguíbúðum. Öllum er ljóst að í fjölbýlishúsum, þar sem búa saman aðilar sem ýmist eiga sínar íbúðir eða leigja þær, eru árekstrar óumflýjanlegir þegar kemur að viðhaldi sameignar. Það má ætla það að í stigagangi í fjölbýlishúsi, þar sem meiri hluti íbúa leigir íbúðina af einhverjum tilteknum aðila, sveitarstjórn eða opinberum aðila, hafi þeir næsta lítinn áhuga á því að halda sameigninni við. Þeir fáu aðilar í sameigninni sem eiga sínar íbúðir hljóta hins vegar að hafa mikinn áhuga á því að annast viðhald sameignar. Þarna er því mikil hætta á verulegum árekstrum og er alveg ljóst að það er afar óheppilegt að blanda saman eignaríbúðum og leiguíbúðum með þessum hætti eins og hlýtur að verða í kaupleigukerfinu. Þá held ég að ég verði að benda á að kostnaðaráætlun sem fylgir grg. með frv. er mjög vanreiknuð. Það segir einfaldlega að leigukostnaður í kaupleiguíbúðunum verði verulega hærri en þar kemur fram. Það vantar t.d. algjörlega að taka inn hönnunarkostnað og undirbúningskostnað í dæmið, kostnað við að skapa aðstöðu og margt fleira, þannig að það má búast við því að kostnaður við að byggja þessar kaupleiguíbúðir verði verulega hærri en kemur fram í þessari grg.

Þá er eitt atriði enn sem mig langar til að fjalla um, en það eru þessi tvö mismunandi form, þ.e. félagslegar kaupleiguíbúðir og svo almennar kaupleiguíbúðir. Félagslegar kaupleiguíbúðir verða fjármagnaðar úr Byggingarsjóði verkamanna á mun hagstæðari kjörum en almennar kaupleiguíbúðir. Þess vegna er hætta á því að í t.d. litlum bæjarfélögum úti á landi, þar sem verða byggðar bæði félagslegar kaupleiguíbúðir og almennar kaupleiguíbúðir, sitji fólk í almennum kaupleiguíbúðum með allt að því 50% hærri húsaleigu en fólk við hliðina á því sem situr í félagslegum kaupleiguíbúðum. Þetta hlýtur að valda úlfúð og ýmsum erfiðleikum.

Þá þarf að skilgreina betur ýmis verklagsatriði í lögunum, m.a. hvað á að gera ef framkvæmdaaðili fer á hausinn í miðju kafi? Það er ekkert fjallað um það í frv. hvað þá gerist. Það þarf að skilgreina, eins og ég gat um áðan, byggingarkostnað miklu betur og taka þar inn í alla þætti byggingarkostnaðar.

Þá er eitt atriði enn sem er afar einkennilegt. Reyndar er þetta gamalt atriði úr lögum um verkamannabústaði en það er refsing vegna framleigu kaupleiguíbúðar. Segjum að aðili sem hefur umráð yfir kaupleiguíbúð framleigi íbúð sína um einhvern tíma vegna þess að hann þarf ekki sjálfur á henni að halda, er kannski fjarverandi og framleigir íbúðina öðrum aðila. Þá ber að refsa honum á þann hátt að ef hann notfærir sér þá heimild sem er í lögunum að hann geti selt íbúðina eða eignarhlut sinn í íbúðinni, þ.e. að sveitarfélag eða sá aðili sem hefur byggt kaupleiguíbúðina er skyldugur til þess að leysa til sín eignarhluta viðkomandi, má draga frá verðbætur fyrir það tímabil sem íbúðin var í framleigu. Á það að vera nokkurs konar refsing fyrir viðkomandi fyrir það að hafa framleigt íbúðina en ekki notað hana sjálfur. Það er hins vegar ansi hjákátlegt, að ef verðbólga er engin verður refsingin engin. Ég held því að eitthvað ætti að endurskoða þetta ákvæði.

Þá væri rétt að velta því aðeins fyrir sér að það hefur verið kvartað yfir því, einkum af dreifbýlismönnum, að íbúðarbyggingar úti á landsbyggðinni eru í algjöru lágmarki. Víða úti á landi hafa engar nýjar íbúðir verið byggðar um langan tíma aðrar en félagslegar íbúðir. Og hverju skyldi þetta nú vera að kenna? Það er ofur einfalt. Á smærri stöðum þar sem mikið er byggt af félagslegum íbúðum er tilgangslaust fyrir aðra aðila að byggja t.d. söluíbúðir. Það þýðir ekkert fyrir byggingarmeistara eða verktaka að ætla að fara út í það að byggja íbúðir til sölu í samkeppni við félagslegar íbúðir sem verða miklu ódýrari vegna þess að kjörin á þeim eru allt önnur og miklu hagstæðari. Það skyldi því engan undra þó að lítið sé byggt af íbúðum úti á landi þar sem þar hefur fyrst og fremst verið um félagslegar íbúðarbyggingar að ræða.

Síðan er kannski síðasta atriðið sem væri vert að nefna og það er spurningin um hvort þurfi í raun og veru að byggja kaupleiguíbúðir sérstaklega úti á landi. Víða á landsbyggðinni er mikið af húsnæði sem aðilar eru að reyna að selja en hafa ekki getað selt vegna þess að þeir fá ekki það verð fyrir þessar húseignir sem þeir þurfa á að halda. Það eru dæmi um það að einbýlishús, t.d. í fámennum byggðarlögum á Vestfjörðum, hafi verið seld á 1 millj. kr., sömu einbýlishús og hér á Reykjavíkursvæðinu mundu seljast á kannski 10 millj. kr. Því þá ekki að leggja þá fjármuni sem eru ætlaðir í kaupleiguíbúðir í uppkaupasjóð húsnæðis, og ríkisvaldið hreinlega kaupi upp það húsnæði sem er falt úti á landsbyggðinni og endurselji það eða leigi í formi kaupleiguíbúða? Það þarf ekki að byggja neinar íbúðir. Þarna kann að vera skýringin á því að það eru fyrst og fremst fámenn sveitarfélög úti á landi sem hafa sýnt kaupleiguíbúðunum áhuga. Vaknar sá grunur að það sé fyrst og fremst verið að leita að því að fá einhverja vinnu við að byggja þessar íbúðir. Í raun er þetta algjörlega óþarft því það er meira en nóg húsnæði falt úti á landsbyggðinni, húsnæði sem mætti kaupa fyrir þá fjármuni sem eru ætlaðir til kaupleiguíbúðanna og síðan er auðvelt að endurleigja eða endurselja þessar íbúðir.

Svo langar mig til að víkja hér að lokum að einu tæknilegu atriði, en mikil umræða hefur farið fram á þinginu í vetur um lánskjaravísitöluna og höfum við þm. Borgarafl. ekki látið okkar eftir liggja í þeim umræðum. Við höfum margoft vakið athygli á ranglæti lánskjaravísitölunnar og lagt til að hún verði lögð niður og öðruvísi og hagstæðari verðtrygging verði tekin upp sem komi betur við lántakendur. Þess vegna virkar það afar ankannalega að í öllum þeim nýju lögum um húsnæðismál sem við höfum verið að samþykkja hér á þinginu í vetur — eða öllu heldur hefur verið troðið í gegnum þingið hér í vetur, mundi ég nú vilja orða það — er lánskjaravísitalan alls staðar eins og draugur. Það er í raun og veru ekki hægt orðið að leggja lánskjaravísitöluna niður því það þyrfti að fara fram svo umfangsmikil lagahreinsun við að losa lánskjaravísitöluna út úr öllum þeim lögum, þangað sem henni hefur verið troðið, að það tæki mörg ár. Ég vara við því, að það eru ekki sett ný lög hér svo að lánskjaravísitalan komi ekki fyrir í einum tveim, þrem, fjórum lagagreinum. Ég hef lokið máli mínu, virðulegur forseti.