12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það fer að verða gaman að þessu þegar menn standa upp og verja annars vegar — að mér finnst liggja í orðunum — Rússa og hins vegar Bandaríkjamenn. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að það væri fróðlegt að fá upplýsingar um samskipti Íslendinga við Rússa á því tímabili sem um er rætt, ekki síður en Bandaríkjamenn. En ég fagna því að hæstv. utanrrh. hefur lofað því úr þessum ræðustól í sameinuðu Alþingi að gögn íslenska utanríkisráðuneytisins verði dregin til birtingar fyrir almenning, en þó með vissum fyrirvara sem ríkisstjórnin á að setja. Ég mótmæli því. Það er Alþingi sem á að taka þessa ákvörðun. Það er Alþingi sem tekur ákvörðun um það ekki einstakir þm. þó þeir tímabundið gegni embætti ráðherra. Sendiráðið verði sett í málið. Ég óska eftir því að sendiráðið verði sett í málið strax. Það verði ekki látið sofna í höndum utanrrn., ríkisstjórnar eða sendiráðsins.

Umræður um þessi mál eru viðkvæmar. Þær eiga ekki að fara fram fyrir opnum tjöldum. Umræður eiga að fara fram í sameinuðu Alþingi á lokuðum fundi. Þetta er ekki mál sem hægt er að fleygja fram á dagskrá Alþingis eða í fjölmiðla fyrirvaralaust. Við verðum að átta okkur á því hvað við erum að gera. Og ég held að ríkisstjórnin eigi ekki að setja reglur. Það er Alþingi sem á að gera það.

Það er fróðlegt að fá upplýsingar um samskipti Bandaríkjanna og Íslands sem hafa leitt til þess öryggis sem við höfum búið við. Það er talað um þetta mál eins og það sé búist við einhverju óheiðarlegu frá forverum okkar sem nutu sama trausts þjóðarinnar og við njótum með setu okkar hér. Ég tala ekki um þetta sem væntanlegt vantraust. Það er hægt að gera allar aðgerðir tortryggilegar ef þær eru skoðaðar úr samhengi við tímana sem mennirnir lifðu. Ég treysti betur skjölum sem finnast og hafa ekki verið vefengd en minni jafnvel ágætismanna eins og Eysteins Jónssonar. En það er ekki þar með sagt að það eigi að nota slík skjöl til að taka hlutina úr samhengi og gera þá tortryggilega.

Ég taldi mig þekkja nokkuð vel, þó ekki persónulega, þann stjórnmálamann sem nú hefur verið dreginn fram og nafngreindur í þessu máli. Það hefði aldrei hvarflað að mér eða nokkrum öðrum samtíðarmanni þessa stjórnmálamanns að hann gæti hafa aðhafst eitthvað sem við hefðum í dag getað stimplað hann fyrir fjarverandi og fallinn frá sem óheiðarlegan. Óheiðarleikinn felst í okkar dómi sem mér finnst vera að falla með ummælum.

Ég segi alveg eins og er að það var hér á landi ótti við nasista í stríðsbyrjun. Það var hér ótti við kommúnisma á þeim tíma sem við erum að ræða um. Og þessi ótti við kommúnismann er enn þá. Þess vegna er hér vestrænn her. Þess vegna er skipulögð fylking vestrænna manna á móti því sem hugsanlega getur komið fram. Og það er kommúnisminn sem við viljum ekki að flæði yfir vestræn lönd og vestræna menningu.

Ég legg mikla áherslu á það, hæstv. forseti, að utanrrh. gangi rösklega til verka og að sameinað Alþingi fyrir lokuðum dyrum ræði þessi mál áður en nokkuð fer út til fjölmiðla frá Alþingi um málið.