09.05.1988
Efri deild: 95. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7781 í B-deild Alþingistíðinda. (5908)

126. mál, mat á sláturafurðum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. síðasta ræðumanns að ég ætla ekki að lengja þessar umræður, en vil aðeins af tilefni þess sem hér hefur verið sagt geta örfárra atriða.

Í fyrsta lagi að frv. var flutt í nóvembermánuði sl. og hefur verið í meðferð Alþingis síðan. Alþingi hefur því haft langan tíma til að fjalla um málið. Í öðru lagi er ekki rétt að það sé geðþóttaákvörðun landbrh. eins sem ræður þessum undanþágum. Ég hygg einmitt að það frv. sem hv. 8. þm. Reykv. gat um áðan að flutt var í haust hafi sýnt að þar er fleira sem þarf að taka til greina. A.m.k. hef ég lagt áherslu á það sem landbrh. að fara þar eftir hinu faglega mati um að tryggt sé að það sé aðeins úrvalsvara sem út úr þessum húsum kemur.

En hér hefur ekki verið minnst á eitt sjónarmið sem kemur fram í erindi sem landbrn. sendi hv. landbn. Nd. og það er þörfin á að skipuleggja þessa starfsemi sem allra best til þess að hún sé sem hagkvæmust og tryggja neytandanum eins ódýra vöru og nokkur kostur er. Það er verkefni sem nauðsynlegt er að vinna að og í nál. hv. landbn. Nd. kemur fram að nefndin leggur áherslu á að að því máli sé unnið jafnframt því sem aðeins er gefinn tveggja ára frestur til þess að húsin öll uppfylli hinar ströngustu kröfur sem lögin gera ráð fyrir. Að því mun ég vinna þegar frv. hefur verið afgreitt.