09.05.1988
Efri deild: 95. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7781 í B-deild Alþingistíðinda. (5909)

126. mál, mat á sláturafurðum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég ítreka að fyrirvari minn við undirskrift nál. byggðist á því sem hæstv. landbrh. var að segja í lok ræðu sinnar, þ.e. að hann stefnir að því að láta semja skýrslu um sláturhús á Íslandi og nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta og annað þar að lútandi. En aðallega kom ég í ræðustól til að benda á að ég mun hafa sagt að brbl. sem frv. fæðist út af hafi verið gefin út af núverandi ríkisstjórn. Það mun hafa verið rangt. Þessi brbl. voru, eins og ég nefndi, gefin út 16. júní 1987, þ.e. af ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, og allar dagsetningar sem hér hafa verið nefndar, m.a. útgáfudagsetning brbl., framlagning málsins í haust, 17. nóv., og föstudagurinn hjá hv. formanni landbn., benda til ráðleysis Sjálfstfl. og Framsfl. í sambandi við málefni landbúnaðarins. Það er mikilsvert mál fyrir landbúnaðinn að mál eins og þetta sé ekki á einhverjum ruglingi og sé afgreitt með fullri reisn og festu. Að frv. skuli búið að vera að flækjast hér í þinginu, ef það má orða það svo, ekki stærra mál en þetta, frá því 17. nóv. í haust og hv. formaður landbn. hafi talið skipta einhverju máli hvort málið var til umræðu á föstudag í síðustu viku eða í dag, sýnir okkur hvað þessi mál eru illa haldin, það má segja það þannig, undir forustu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Þetta gengur nærri því eins og formaður landbn. var að lýsa áðan. Það kemur upp alls konar umræða um þessi mál, kannski stundum ekki réttlát, stundum er gerður úlfaldi úr mýflugu, en hverjir hafa skapað gróðurinn fyrir slíkar uppákomur? (EgJ: Vertu nú ekki að nöldra út af smámunum.) Vitaskuld engir aðrir en þeir höfðingjar sem fara með landbúnaðarmálin á Íslandi.