09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7790 í B-deild Alþingistíðinda. (5918)

293. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. allshn. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt., sem er á þskj. 1115, við frv. til l. um breytingu á áfengislögum nr. 87/1969, með síðari breytingum. Hún er flutt af þeirri sem hér talar og Svavari Gestssyni og hljóðar svo með leyfi forseta:

„Við 4. gr. Á eftir fyrri málsl. komi nýr málsl. sem orðist svo: Fjmrh. skal hafa samráð við heilbrmrh. um verðlagningu áfengis.“

Það er vitað að verðstýring getur haft áhrif á neyslu áfengis, bæði heildarneyslu og einnig neyslu einstakra tegunda. Með því frv. sem hér er lagt fram er verið að stíga einhliða skref og allt bendir til þess að það muni leiða til aukinnar heildarneyslu án þess þó að nokkrar ráðstafanir séu jafnframt gerðar til mótvægis. Þessi brtt. miðar að því að sjónarmið heilbrigðisyfirvalda megi hafa áhrif við verðlagningu áfengis. Þannig er tryggt í lögum að stýra megi verði þess til að draga úr neyslu fremur en draga fé í ríkissjóð. Það er brýnt að heilbrigðissjónarmið séu ekki fyrir borð borin þegar verðlagning áfengis er ákveðin eins og viðgengist hefur hingað til. Þess vegna er brtt. borin fram.