09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7796 í B-deild Alþingistíðinda. (5922)

293. mál, áfengislög

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég tel mér skylt vegna þess að bréf frá biskupinum yfir Íslandi misfórst að koma því á framfæri hér. Það barst fyrir nokkru eða átti að hafa borist fyrir nokkru, en það gerðist ekki. Það er erindi sem er svohljóðandi:

„Kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju leyfir sér að biðja alþingismenn að íhuga vandlega viðvaranir varðandi leyfi til að framleiða og selja áfengt öl í landinu. Ábendingar um þetta, að þetta muni auka áfengisbölið hér á landi, hljóta að verðskulda vandað mat. Fræðsla ein sér getur ekki bætt skaðann eða fengið áheyrn ef alþingismenn taka ekki mark á áliti sérfróðra manna í þessum efnum.“

Ég beini því til hv. deildarþingmanna að hugsa til þess nú þegar greidd verða atkvæði um bjórinn að öll vorum við kosin hingað á þing með það í huga að breyta þjóðfélaginu, gera það betra, gera það réttlátara. Ég fullyrði að með samþykkt þessa frv. verði þjóðfélagið ekki gert réttlátara og alls ekki betra. Ég bið menn einnig að hugsa til þeirra fjölmörgu einstaklinga og heimila, til þeirra einstaklinga sem eiga við vandamál að stríða vegna áfengisneyslu, til þeirra fjölmörgu heimila sem eru niðurbrotin vegna áfengisneyslu og því sem henni fylgir. Allar þjóðir veraldar stuðla nú að því að minnka áfengisneyslu í sínum ríkjum.

Verði bjórfrv. samþykkt erum við Íslendingar að gera öðruvísi en allar aðrar þjóðir sem vilja færa sig nær betra mannlífi, betra umhverfi. Ég bið menn einnig að hugsa um þá fjölmörgu sem liggja á sjúkrahúsum vegna slysa og niðurbrots á öðrum sviðum vegna áfengisneyslu og hugsa til þess að verði þetta bjórfrv. samþykkt hefjast hér nýir tímar sem verða áreiðanlega til skaða fyrir þjóðina, fyrir heimilin, fyrir hvern einasta einstakling sem hér lifir.