09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7798 í B-deild Alþingistíðinda. (5925)

293. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég get eins og fleiri ræðumenn hafa gert í kvöld tekið undir rökstuðning bak við þessar brtt. En af hverju eru þessar brtt. fluttar? Af hverju eru menn núna að flytja brtt.? Það hafa að vísu allir verið að bíða eftir brtt. en ég held ekki þessum. Þessar tillögur báðar tvær eru bersýnilega fluttar til að slá málinu á dreif og koma því aftur til Nd. sem að öllum líkindum mun ljúka starfi sínu núna í nótt. Það er augljós tilgangur með þessum brtt. Ég vek athygli hv. deildarþingmanna hér á því hvað er búið að samþykkja við 2. umr. og minna þá hv. þm. sem tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu á hvað þeir voru að greiða atkvæði um þá og hvað kom frá Nd. Það er út af fyrir sig rétt, sem hv. þm. las áðan um heimildarákvæði í áfengislöggjöfinni, en hafið þið lesið um hvað ákvæði til bráðabirgða í því frv. sem við erum að fjalla um núna fjallar? Ég ætla að lesa það upp fyrir ykkur. Ég held að það sé góð áminning:

„Ráðherra skal skipa fimm manna nefnd til að gera tillögur sem stuðlað gætu að því að draga úr heildarneyslu áfengis. M.a. ber nefndinni að fjalla um verðlagningu áfengis“ - önnur brtt. fjallar um þetta atriði - „og leiðir til að vara við hættum sem fylgja neyslu þess, t.d. með áprentuðum upplýsingum um áfengishlutfall og ákvæði umferðarlaga. Einnig skal nefndin gera tillögu um sérstaka fræðsluherferð um áfengismál, einkum meðal skólafólks, er hefjist eigi síðar en mánuði áður en lög þessi koma til framkvæmda.“

Ég sé ekki betur en megininntak beggja brtt. sé í bráðabirgðaákvæðinu og það ekki sem heimildarákvæði heldur skal ráðherra gera það. Ég reikna ekki með að það þurfi að setja í lög að fjmrh. hafi samráð við heilbrmrh. Ég trúi ekki öðru en ráðherrarnir hittist svo oft að þeir geti rætt saman um þessi mál.

Ég get tekið undir rökstuðninginn bak við málflutninginn um fræðsluna og að verðlagning eigi að stýra að vissu leyti áfengisneyslu í þjóðfélaginu, en tilgangurinn með flutningi beggja brtt. er að slá málinu á dreif. Ég hélt satt best að segja að deildin væri tilbúin að taka afstöðu í málinu sem slík og láta þar við sitja þannig að við séum út af fyrir sig laus við þann mikla áhuga sem virðist vera einkum og ekki síst hjá fjölmiðlum fyrir þessu máli eins og berlega kom fram um daginn þegar við vorum að ræða um áfengismál, að heimila eina tegund af áfengi til viðbótar, veikustu tegundina. Þá var verið að ræða um virðisaukaskatt í herberginu við hliðina á okkur, sennilega eitthvert stærsta mál sem Alþingi hefur tekið til meðferðar í vetur. Það var ekki einn einasti áhorfandi þar, ekki einn einasti aðili frá fjölmiðlunum. Hér voru allir á pöllunum, fjölmiðlar sem einstaklingar, að fylgjast með því hvort ætti að heimila eina áfengistegund, þá veikustu, til viðbótar. Mig undrar þetta.