12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessar umræður eru um margt athygli verðar. Þær lúta annars vegar að mikilvægum ákvörðunum sem teknar voru á sínum tíma og ollu miklum deilum, á hinn bóginn að formlegri meðferð skjala á vegum stjórnsýslunnar. Það er rétt að mínu mati að það er skortur á reglum um þau efni og það er nauðsynlegt fyrir stjórnsýsluna að starfa við þau skilyrði að fastmótaðar reglur gildi um meðferð skjala og meðferð trúnaðarmála. Ég get greint frá því hér að ég hef fyrir skömmu falið hópi manna að gera tillögur um hvernig fara skuli með trúnaðarskjöl sem eru til meðferðar á vegum stjórnvalda, en auðvitað þarf að huga að miklu víðtækari reglum um upplýsingaskyldu og birtingu trúnaðarskjala á síðari stigum máls. En umræðunni hefur verið varpað hér fram og hún hefur af hálfu málshefjenda verið felld í gamalkunnan farveg.

Frá því að ákvarðanir voru teknar um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi við Bandaríkin hefur markvisst verið unnið að því af hálfu andstæðinga þessara samninga og aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu að varpa rýrð á forustumenn Íslendinga, gera þá tortryggilega, jafnvel gefa til kynna að þeir hafi verið óþjóðhollir í störfum sínum, látið undan þrýstingi erlendra stórvelda. Í upphafi máls síns las málshefjandi úr frægu skáldverki sem einmitt var skrifað í þeim tilgangi að varpa slíkri rýrð á stjórnendur landsins, á forustumenn þjóðarinnar, og segir svo í lokin: Til þess að losa menn undan þessum áburði þarf að birta skjöl.

Hér er hinn gamli hugsunarháttur: varpa fram ásökunum um sekt og svo eiga aðrir að sjá um að afsanna sektina. Þetta er hið alvarlega í þessari umræðu, hinn alvarlegi undirtónn í ræðu hv. málshefjanda og í ýmiss konar umfjöllun um þetta mál að undanförnu, og reyndar er málflutningur af þessu tagi ekki nýr af nálinni. Sannleikurinn er sá að þegar mál þessi voru til meðferðar á hinu háa Alþingi á sínum tíma voru lögð fram þau rök fyrir þessum ákvörðunum sem þáverandi stjórnendur landsins studdust við. Þær umræður fóru fram í þingsölum og hafa reyndar farið fram í áratugi.

Reynslan hefur svo sýnt umfram allt annað að þeir sem voru í forustu á þessum tíma og höfðu forgöngu um mótun utanríkisstefnunnar með þessum hætti hafa varðað veginn vel fyrir sjálfstæði og öryggi Íslands. Það er umfram allt sú staðreynd sem skiptir auðvitað höfuðmáli. Og þegar rætt er um minningu þessara manna, sem hér hefur verið fjallað um, er það þetta sem skiptir höfuðmáli. Við sem lifum í dag njótum þess að þessir menn höfðu víðsýni til þess að móta utanríkisstefnuna með þessum hætti og tryggja öryggi og frelsi landsins með þeim ráðstöfunum sem þeir beittu sér fyrir á sínum tíma. Þetta er höfuðatriðið. Reynslan hefur sýnt að á þennan veg höfum við best tryggt öryggi landsins. Reynslan hefur sýnt að aðildin að Atlantshafsbandalaginu, samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins hefur þar að auki betur tryggt frið í okkar heimshluta en nokkur önnur skipan mála. Og áður en menn varpa hér fram grunsemdum, sem þeir ætlast til að verði afsannaðar, er ástæða til að hafa þessa meginstaðreynd í huga af því að umræða um það hvaða form á að hafa á birtingu skjala hefur leitt til endurtekinna ásakana af því tagi sem hér hafa komið fram.