09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7806 í B-deild Alþingistíðinda. (5940)

293. mál, áfengislög

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir stefnu alþjóðaheilbrigðisáætlunarinnar um að minnka áfengisneyslu um fjórðung til næstu aldamóta. Ég styð heils hugar þau markmið og stefnu sem fram er sett í íslenskri heilbrigðisáætlun, m.a. að minnka heildaráfengisneyslu og útrýma ofneyslu. Það ríkir mikill tvískinnungur í meðferð áfengs öls hér á landi þar sem sumir geta keypt og neytt þess en aðrir ekki. Á sama tíma eru engar hömlur á sölu sterkra, áfengra drykkja. Ég get ekki fallist á að verið sé að bæta við nýrri tegund áfengis með þessu frv. Ég tel að verið sé að færa eina tegundina, þá veikustu, inn í löglega áfengisverslun, létta af heimilunum birgðasöfnun á þessum forboðna ávexti sem aðeins forréttindahópar mega kaupa og flytja inn í landið. Ég vil stuðla að því að Áfengisverslunin sé birgðastöðin en ekki heimilin og því segi ég já.