09.05.1988
Neðri deild: 97. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7810 í B-deild Alþingistíðinda. (5950)

436. mál, bifreiðagjald

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Hér er á ferðinni eitt af næstum því óteljandi skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar, sérstakt gjald á ökutæki landsmanna, bifreiðagjald, frv. til l. þar um. Áður þaulskattlagðar bifreiðar landsmanna urðu hæstv. ríkisstjórn tilefni til enn frekari skattlagningar í bráðabirgðaráðstöfunum í fjármálum sem gerðar voru á sl. sumri og er frv. til staðfestingar á þeim. Minni hl. er andvígur þessu gjaldi á bifreiðar, ekki endilega vegna þess, eins og segir nál., að það þurfi að vera vitlausara en hvað annað að skattleggja bifreiðar heldur teljum við að ráðstafa eigi þá þeim skatttekjum innan málaflokksins, ef svo má að orði komast. Það hefur verið stefna okkar að sem mestu af þeim tekjum sem ríkissjóður hefur af skattlagningu umferðarinnar eigi að verja til uppbyggingar í samgöngumálum. Hér liggur hins vegar fyrir að ekki ein einasta króna af þessu nýja gjaldi muni renna til vegaframkvæmda og reyndar var hæstv. ríkisstjórn að fá samþykkta hér í dag vegáætlun, þar sem gert er ráð fyrir því í þriðja sinn í röð að ekki fari ein einasta króna úr ríkissjóði til framkvæmda. Það er auðvitað í hróplegri mótsögn við það að ríkissjóður skuli á sama tíma vera að auka skattheimtu á umferðinni, á bifreiðum í þessu tilviki. Þess vegna leggst minni hl. algerlega gegn þessum skattstofni með sérstakri tilvísan til þess hvernig á að ráðstafa eða reyndar hvernig á ekki að ráðstafa fénu, þ.e. ekki til vegamálanna eða uppbyggingar í samgöngumálum.

Ég hef áður rætt, herra forseti, það heimildarákvæði sem hæstv. fjmrh. hefur skv. frv, til að endurgreiða eða lækka eða fella niður bifreiðagjald af bifreiðum í eigu hjálpar- og björgunarsveita. Það liggur fyrir að hæstv. ráðherra hefur notað og hyggst nota sér þær heimildir til þess að létta af þessu gjaldi í þeim tilvikum, sem er vissulega af hinu góða. En það breytir ekki því að meginafstaða okkar er að þessi skattheimta sé ekki réttlætanleg. Aukin skattheimta á umferðina sem ekki á að skila einni einustu krónu til vegamála eða framkvæmda í samgöngumálum er ekki réttlætanleg við þessar aðstæður. Minni hl. fjh.- og viðskn. mælir því gegn frv. og mun greiða atkv. gegn því.