09.05.1988
Neðri deild: 98. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7828 í B-deild Alþingistíðinda. (5964)

360. mál, umferðarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. þessarar deildar greiði nú atkvæði, vonandi eftir sannfæringu sinni en ekki eftir því hvernig þm. í hv. Ed. hafa greitt atkvæði.

Ég verð að spyrja sjálfan mig og hv. þm. að því: Hvar erum við eiginlega stödd? Er það tilfellið að við séum bara fangar embættismannakerfisins? Hér kemur hvert málið á fætur öðru sem er sýnilegt að er komið og barið fram af embættismönnum kerfisins. Mér dettur í hug hvort ekki sé bara rétt að vísa þessu máli, þ.e. skoðun á bifreiðum, til Ríkisendurskoðunar.

Ég ætla ekki að ræða um þá hlið málsins sem hv. 1. og 2. þm. Vesturl., ásamt 2. þm. Norðurl. v., hafa rætt. Það vill hins vegar svo til að ég hef þekkt til í Bifreiðaeftirlitinu í rúm 40 ár, 43 ár. Það eru að minnsta kosti 12 ár síðan forstöðumaður Bifreiðaeftirlitsins, Guðni Karlsson, vildi taka upp það kerfi að hægt væri að skoða bílana sómasamlega og inni í húsi, hér í Reykjavík. Það var tekið á leigu húsnæði til þeirra hluta, ég man ekki fyrir hvað mörgum árum en líklega a.m.k. 10–12 árum. Og ég veit ekki betur en að ríkið hafi borgað leigu fyrir það húsnæði öll þessi ár. Síðan var annað húsnæði tekið á leigu, skemma þar stutt frá, og var borguð leiga fyrir það í nokkur ár. En hvað gerðist á þessum árum? Það voru ekki hæstv, dómsmrh., hver fram af öðrum, sem stóðu þar í vegi, heldur var það fjárveitingavaldið og fyrst og fremst embættismennirnir í dómsmrn. Ég þekki þessa sögu, hæstv. dómsmrh. Það vill svo til. Ég er gamall ökukennari. Ég tók upp fyrst þann öryggisbúnað sem nú er á bifreiðum og hef þess vegna að ýmsu leyti fylgst með þessu alla tíð. Þeir forstöðumenn Bifreiðaeftirlitsins sem hafa verið fram að þessu hafa rætt um þessi vandamál við mig á liðnum árum. Það lítur út fyrir það að við séum bara fangar embættismannakerfisins. Það er ætlast til að við bara afgreiðum málin hvert af öðru og jafnvel virðist vera að ráðherrarnir hæstv., sem ættu að setja sig betur inn í þessi mál en þeir gera, geti rætt málin þannig að svart sýnist hvítt.

Hér hafa verið haldnar frábærar ræður um þetta mál. Ég ætla ekki að fara að gefa mönnum einkunnir fyrir þær ræður og ég ætla heldur ekki að endurtaka það sem þeir sögðu. En hér er eitt af þessum málum sem talið er að verið sé að spara hlutina með, það sé verið að auka öryggið, blátt áfram öllu snúið við.

Það væri gaman að rifja það upp frá ári til árs hvað t.d. Guðni Karlsson hefur reynt að fá fjárveitingavaldið og ráðuneytið til að gera í þessum málum, hvað þeir hafa samþykkt og hvernig framkvæmdin hefur verið. Við sem höfum reynt að athuga þetta erlendis, hvernig staðið er að þessum málum þar. Ég ætla að sleppa alveg skráningarmálinu. Mér finnst það vera meinsemi samt sem áður, ef menn vilja borga fyrir það á annað borð, að þeir geti ekki haldið sínu númeri, en það er aukaatriði í þessu máli. Öryggismálið og sparnaður, ef það færi saman. En ég vil halda því fram og ég vil fullyrða að það er hvorki öryggi sem mundi leiða af samþykkt frv. og því síður sparnaður fyrir þá sem eiga bifreiðar.

Ég ætla ekki að bæta neinu við þetta en ég geri ráð fyrir og a.m.k. vona að menn athugi þetta mál betur. Ég get tekið undir flestallt sem þessir hv. þm., sem hafa rætt þessi mál, hafa rætt um.