09.05.1988
Neðri deild: 98. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7833 í B-deild Alþingistíðinda. (5966)

360. mál, umferðarlög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram og staðfesta sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan að í bréfi sem hann sendi formönnum þingflokka fyrir svona hálfum mánuði síðan þá tók hann það fram að hann teldi þessi umferðarlög forgangsmál, þ.e. þetta var það mál sem hann óskaði helst eftir að afgreitt yrði frá sínu ráðuneyti af þeim málum sem voru óafgreidd af málefnum dómsmrh. Forsrh. hafði þann hyggilega hátt á - og það eru nýmæli sem ég vil leyfa mér að hrósa honum fyrir- að hann krafði ráðherra sína um það að þeir röðuðu sínum málum í forgangsröð. Þessi forgangsröð er auðvitað einungis ósk hvers ráðherra, hvað hann leggur mesta áherslu á af sínum málum, en segir ekkert um það eða bindur þingheim að öðru leyti eða samstarfsflokka. Það er bara að ráðherrann leggur áherslu á að þetta mál fái afgreiðslu og meiri áherslu á að þetta tiltekna mál fái afgreiðslu en önnur mál frá hans ráðuneyti. Síðan á hann það auðvitað undir þingheimi og samstarfsmönnum sínum hvort málið hlýtur byr og nær fram að ganga og verður að lögum. Það eru náttúrlega eins og hver önnur kontóristarök hjá hæstv. dómsmrh. að ímynda sér að þó að hann skrifi á blað að hann vilji helst fá þetta mál afgreitt að samstarfsflokkar hljóti að lúta því að það megi ekki reyna að koma vitinu fyrir hann. En satt að segja þykir mér hann sækja þetta mál af meira kappi en forsjá og það þykir mér leiðinlegt því ég met hæstv. dómsmrh. mjög mikils og hef gert um áratugi.

Mér finnst hryggilegt að kanna þetta mál því eftir því sem það er skoðað betur, eftir því sem það er rætt lengur, eftir því fullvissast maður um að því verra er það sem maður kynnist því meir. Það eru alltaf að ljúkast upp nýjar og nýjar hliðar á málinu, hver annarri verri, því það hefur tekist alveg ótrúlega slysalega til við þessa samningu.

Ég beindi fyrst gagnrýni minni að einum þætti málsins, þ.e. fastnúmerakerfinu og leyfði mér að flytja um það brtt. sem kemur hér til atkvæða í hv. deild þegar þetta frv. verður tekið til atkvæða sem ég geri ráð fyrir að verði á morgun þegar deildin er fullskipuð. En það er margt fleira sem er gagnrýnivert í þessu frv. Satt að segja finnst mér að það séu önnur atriði enn verri en þau sem ég gagnrýndi einkum í upphafi við 1. umr. málsins. Þráhyggjumenn reyna að keyra þetta mál fram með ómarktækum útreikningum, beita fyrir sig blekkingum og talnaleik sem enga stoð á í veruleikanum. Það er óprýði á starfsferli ráðherrans að hann skuli gera þessi ósköp að sínum.

Ég ætla að tala aðeins meira um númeraplöturnar. Það er kunnara heldur en frá þurfi að segja og það held ég að sé ekkert nefnt hér í þessu frv. um að nýjar númeraplötur kosta peninga. Í staðinn fyrir að geta notað númeraplöturnar á bíl eftir bíl þá þarf að kaupa nýjar númeraplötur á alla nýja bíla. Ég veit að vísu um aðila sem hafa hugsað sér að verða ríkir á að framleiða þessar plötur, en sem eftir þeim sýnishornum sem borin hafa verið á borð fyrir okkur eru náttúrlega ótækar því þær eru með of litlum stöfum og eru of ógreinilegar og of flóknar til þess að vera viðunandi. Það er kostnaður sem ekki er hér inni í þessum „kalkúlasjónum“ sem birtar eru með frv.

Ég spyr af hverju langflestir þeirra sem skipta á bílum innan sama umdæmis flytja númeraplötur. Það er af því að annar hvor eða báðir vilja halda í sitt gamla númer. Og það er alveg sama hvort þetta númer er fallegt í augum heimsins. Menn taka tryggð við númerin sín og menn hafa misjafna trú á þeim. Sumir eru með heilagar tölur, sumir eru með happatölur og þetta getur allt saman skipt einhverju máli og skiptir einhverju máli fyrir fjöldann allan af bíleigendum.

Ég þekki það sem hestamaður að mér þykir miklu meira gaman að ríða hesti sem lítur sæmilega út og hefur ekki áberandi galla, hesti sem mér þykir fallegur. Ég tala nú ekki um að ég vil hafa hann góðan líka. Einn þátturinn í útliti bílsins er númerið og ef maður hefur smekk fyrir það þá er ekkert á móti því að sá sem smekkinn hefur greiði eitthvað fyrir það. Þar fyrir utan hefur þetta náttúrlega verið tekjulind fyrir ríkið. Það hefur verið tekjulind fyrir ríkið á undanförnum árum, eins og margsannað er í þessum umræðum, að stunda þessi viðskipti og þarna er skattur sem fólk hefur greitt með glöðu geði.

Það er nú með skattheimtuna að bestir eru þeir skattar sem fólk greiðir með glöðu geði. Það eru þær tekjur sem fjmrh. má vera sælastur yfir, þær sem borgarinn greiðir glaður eins og t.d. tekjurnar sem hann hefur af Áfengisversluninni og af bílnúmerunum. Ég sé enga ástæðu til þess að vera að svipta ríkissjóð þessum tekjustofni.

Dómsmrh. sagði okkur hér bráðskemmtilega sögu sem hann hafði búið til, bráðskemmtilega skáldsögu sem hann hafði búið til um manninn á R-80000. Maðurinn á R-80000 hefði náttúrlega aldrei verið svo vitlaus að halda ekki upp á það númer og þarf nú enginn að segja mér það að hann hefði ekki viljað halda því eftir. Að öðru leyti var sagan skemmtileg og ég tel að dómsmrh. ætti í auknum mæli og kannski alfarið að snúa sér að ritstörfum og væri þar líklega á réttri hillu.

Þá kem ég að höfuðgallanum á þessu frv. Það er nefnilega það að í þessu frv. er byggðafjandsamleg stefna. Það getur vel verið að það sé óstjórn í Bifreiðaeftirlitinu í Reykjavík og þar þurfi að skipta um yfirmenn. Ég vil ekkert fullyrða nema svo sé, en þá á dómsmrh. að hafa manndáð í sér til þess að gera það, ekki að fara að umbylta lögum og afskræma þau, fólkinu í landinu til óþurftar. Það er ekki óstjórn, það eru ekki vandræði í Bifreiðaeftirlitinu úti á landi þar er ég þekki til heldur er þar allt í besta lagi eins og ég rækilega tók fram við 1. umr. málsins. Þess vegna þarf ekkert að vera að anka í okkur.

Ég tel að það megi ekki fórna hagsmunum landsbyggðarinnar til þess að gera þægilegri mannaskipti hér í Bifreiðaeftirlitinu í Reykjavík. Það kostar nokkuð að keyra frá Þórshöfn til Blönduóss fram og til baka. Ég náttúrlega geng út frá því að ef setja á eina skoðunarstöð á Norðurlandi þá geti hún hvergi annars staðar orðið en á Blönduósi vegna þess að þar hefur Bifreiðaeftirlitið mjög góða aðstöðu og þar er þegar fyrir hendi skoðunarstöð sem væntanlega yrði látin duga fyrir Norðurland allt og kannski Vestfirðina líka. Það er ekkert mjög langt frá Patró til Blönduóss, a.m.k. ef það er ekki mikill snjór á leiðinni. En þetta kostar þó töluvert. Hins vegar verð ég að játa því að það væri gott fyrir kjósendur okkar hv. 2. þm. Norðurl. v., bifvélavirkjana á Blönduósi, við erum kannski að hafa af þeim töluverðan „bisniss“ því að í fyrsta lagi þá reikna ég með að ef einhverju væri áfátt á þessum bílum sem þeir koma með frá Þórshöfn eða Patró þá mundu þeir varla fara til baka til þess að láta bifvélavirkjana heima hjá sér lagfæra, heldur mundu þeir leita til kjósenda okkar hv. þm. Pálma Jónssonar sem eru prýðilega færir bifvélavirkjar og duglegir og láta þá dytta að. Svo er nú ekkert smáverkefni að laga það sem aflaga hefur farið á allri keyrslunni frá Patreksfirði til Blönduóss. Þetta eru einu kostirnir sem ég sé á þessu frv. Gjörsamlega þeir einu. En þeir eru ekki nægilega þungir í mínum huga til þess að ég fáist til þess að styðja þetta mál.

Ég held að það sé einn þáttur í röksemdum ráðherrans sem er haldbær. Ég hygg að það sé heppilegt að bremsuprófa stóra bíla, þá er ég að tala um stærstu gerð af bílum sem eru með „treilera“, það sé heppilegt að fylgjast betur með bremsum á þeim heldur en nú er gert. En það er afar auðvelt að koma því fyrir með öðrum hætti en þeim að eyðileggja Bifreiðaeftirlitið og minnka öryggi borgaranna með svona skipulagsbreytingum eins og hér er verið að leggja til. Mér er sem ég sjái það að þeir séu að rífa sig upp úr slættinum á Melrakkasléttunni til þess að asnast til Blönduóss til þess að fá nýjan hvítan miða á bílinn sinn. Ætli þeir reyndu ekki að láta þann gamla duga þangað til eitthvað kæmi fyrir. Og það yrði meiri keyrslan á löggunni að klippa númerin eftir þetta allt saman.

Mér finnst sem sagt að hér sé ótrúlega slysalega að verki staðið. Við búum við ágæt umferðarlög og nýlega sett. Þannig ákvað síðasta þing að umferðarlögin skyldu vera eftir vandlega íhugun. Þessi umferðarlög voru til meðferðar hér í allan fyrravetur og lögðu þar margir hönd að verki. Þessi varð útkoman og það er gjörsamlega þarflaust að fara að breyta þessum nýsettu lögum. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra hefði verið heppnari í þessum málatilbúnaði sínum eða a.m.k. minna slysinn en hér hefur reynslan á orðið. Hann sækir þetta mál af meira kappi en forsjá. Ég skil það vel að hann var búinn að vera húsbóndi lengi á kontórnum sínum í Þjóðhagsstofnun og þar gat hann látið menn sitja og standa eins og hann vildi, reikna það sem fyrir þá var sett og fá afköst eins og honum þóknaðist. En þetta gengur bara ekki hérna hjá okkur í þinginu með þessum hætti. Við endum með því að læra að taka ákveðið tillit hver til annars og virða sjónarmið hvers annars og reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu eða víðtækri niðurstöðu, látum ekki skerast í odda fyrr en í allra síðustu lög. Líklega vantar einn hlekk í þroskaferil ráðherrans þó að hann sé náttúrlega framúrskarandi vel af guði gerður og hafi aflað sér víðtækrar reynslu í embættisstörfum, og líklega má finna fleiri dæmi þess að það er frekar óheppilegt að menn komi beint í ráðherrastóla. Þeir hafa gott af því að starfa hér um stund á þinginu og læra þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð.