09.05.1988
Neðri deild: 98. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7836 í B-deild Alþingistíðinda. (5967)

360. mál, umferðarlög

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka það í annað sinn hér úr þessum ræðustól að ég held að Alþingi hafi fengið mjög góðan mann þegar hæstv. viðskrh. kom til setu og starfa hér á hv. Alþingi og ég harma það hvernig hv. 1. þm. Norðurl. v. tók hér til orða. Það sem ég er nú að hugsa á þessu augnabliki er að það getur líka komið í ljós að eftir því sem menn tala lengur á Alþingi þá auglýsi þeir - ja, hvað mikið vantar upp á þann þroska sem þeir eru sjálfir að gera skóna að vanti hjá öðrum. Það vanti þá meira í þá sjálfa.

Ég er ekki hingað kominn til þess að ræða lokaorð virðulegs þingflokksformanns Framsfl., en ég verð að biðja ríkisstjórnarmenn og stuðningsmenn og hæstv. ráðherra að hafa mig afsakaðan að ég skuli blanda mér í þessar umræður, í þetta prívatrifrildi þeirra, því að ég held að fáir stjórnarandstæðingar hafi blandað sér í umræður um þetta stjórnarfrv. Ég hef áður bent á það að það er undantekning ef það kemur á dagskrá hér stjórnarfrv. sem stuðningsmenn stjórnarinnar ekki leggja eitthvað af mörkum til að tala á móti, gera athugasemdir við þó þeir greiði svo endanlega atkvæði með.

Nú stendur þannig á að það er í báðum deildum sem stjórnarþm. deila á ríkisstjórnina. Í Ed. deilir stjórnarþm. harkalega á ríkisstjórnina fyrir afstöðu hennar í Suður-Afríku og hér deila stjórnarmenn hvað mest á ríkisstjórnina fyrir það stjórnarfrv. sem hér er á dagskrá. Svo það er svona með blöndnu geði sem maður tefur fyrir ádeilum stjórnarliða í þessum umræðum. En svona er það.

Ég var nokkuð sammála ráðherra á margan hátt. Ráðherra kynnti hér lista yfir mál, lista yfir lög sem hann vildi leggja niður, taldi það vera hreinsun. Og ég er honum sammála. Hreinsun á lagasafninu það er hreinsun á þjóðfélaginu ef hæstv. ráðherra fengi stuðning til þess að vinna það verk. Ég taldi afskaplega erfitt að vera á móti slíkum vinnubrögðum og ég fagnaði því að mér fannst ráðherra með þeim vinnubrögðum staðfesta það sem ég hafði vonað og margir aðrir að koma hans og vera á Alþingi mundi breyta einhverju verulega.

Ég get ekki neitað því að ég var ekki svo mjög ósammála hæstv. ráðherra í þessu máli. Þegar bæði ég og aðrir stjórnarandstæðingar höfum staðið hér í ræðustól og gert kröfu til þess að bæði hæstv. dómsmrh. og aðrir hæstv. ráðherrar sýndu meiri gætni í gerð fjárlaga, og þegar svo ráðherra kemur með sparnaðartillögu, þá er erfitt að vera á móti henni eftir þann málflutning sem maður sjálfur hefur haft í frammi. En svo koma umræðurnar hér á Alþingi. Þá blandast saman tvö stór mál og verða í umræðunum að einu sem gerir málið flókið. Það skiptir engu máli þó að þetta sama mál hafi komið í sama búningi allt frá 1974 eða jafnvel fyrr og fram til þessa dags og alltaf verið fellt ef menn sem eru í embætti treysta sér til eða telja ráðlegt að koma með það aftur og aftur af því að þeir trúa að málið sé gott, þá skiptir það ekki máli. Alþingi verður þá bara að halda áfram að fella það eða samþykkja.

Eins og ég segi, þá blandast hér saman númerabreytingin, þetta fastnúmerakerfi, og breyting á starfsháttum Bifreiðaeftirlitsins eða jafnvel niðurfelling á Bifreiðaeftirlitinu í þeirri mynd sem það er og stofnun á nýju hlutafélagi sem heitir þá Bifreiðaeftirlit Íslands hf. Ég hélt að það væri bannað til nokkurra ára að nota nafn landsins í fyrirtækjaheiti, en aftur á móti gömul fyrirtæki sem höfðu nafn landsins í sínu heiti áður en þau lög komu til framkvæmda mættu halda þeim hætti, en það þarf að athuga betur.

Ég er alveg viss um það að einhvern tímann kemur að því að fastnúmerakerfið verður tekið upp þó að ég hafi litla trú á því að það verði gert núna á þessu þingi. Þegar ég segi einhvern tímann þá lít ég svo á að það verði nokkuð mörg ár þangað til. En það að Bifreiðaeftirlitið verði gert að hlutafélagi álít ég að sé rangt.

Ég lét að gefnu tilefni skoða starfsemi Bifreiðaeftirlits ríkisins þegar ég var fjmrh. vegna þess að þá var mér talin trú um að Bifreiðaeftirlitið væri illa rekið og kostaði meira en það þyrfti að kosta. Og sem rök fyrir þeim fullyrðingum var talað um að þá - það er kannski enn þá eða kannski enn þá meira gert af því að ráða í stöðu án stöðuheimilda - væru komin þar 20 stöðugildi sem búið væri að ráða í umfram heimildir. Þetta var tilefni til þess að ég lét skoða rekstur á Bifreiðaeftirlitinu og komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar sem ég hafði fengið voru rangar og að starfsmenn Bifreiðaeftirlitsins voru samviskusamir og afkastamiklir starfsmenn og gerði enga breytingu.

Að breyta Bifreiðaeftirlitinu í hlutafélag. Ég get ekki komist hjá því að segja að ég held að það sé ekki hægt. Ég held að það sé rangt. Bifreiðaeftirlitið er þess eðlis og ef það er ætlunin að hluthafarnir verði Bílgreinasambandið og tryggingafélögin með ríkinu, þá er það enn þá verra en ég gerði ráð fyrir. (Dómsmrh.: Og Félag ísl. bifreiðaeigenda.) Félag ísl. bifreiðaeigenda. Ég held að það sé alrangt að láta eingöngu hagsmunaaðila í bifreiðaeign eða bifreiðainnflutningi, verkstæðin og tryggingar vera alls ráðandi á móti ríkinu. Ég held að það sé rangt.

Ég gerði tillögu um það í ríkisstjórninni að selja ríkisfyrirtæki. Ég trúði á þá stefnu og þess vegna gerði ég tillöguna. Og eins og það hafði verið lengi á stefnuskrá Sjálfstfl., sem ég tilheyrði þá, þá er ég eins mikið á móti því að gera Bifreiðaeftirlitið að hlutafélagi. Það er trú mín að það sé rangt. Það er trú ráðherra að það sé rétt. Þannig stendur málið.

Ég vil ekki ætla jafnreyndum og glöggum manni og hæstv. ráðherra að sækja málið af meira kappi en forsjá, ég held að það sé rangt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., ég held að hann sé búinn að athuga þetta mál nokkuð vel. En eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. gat um hér í sinni ágætu ræðu þá held ég að upplýsingarnar sem eru í fskj. með frv. séu rangar. Eftir þeim umræðum sem ég hef hlustað á hér stangast þær á. Annars vegar að það sé sparnaður upp á 98 millj., hins vegar upp á 23 eða hvað það nú var. Og það sem ég trúði var a.m.k. 100 millj. kr. sparnaður. Það hafði ég, held ég að ég megi segja, úr blöðunum, fréttamiðlunum. Þess vegna held ég að það sé ekki slæm tillaga, hvorki fyrir ráðherrann né fyrir okkur hina, sem erum að gera upp okkar hug, að fresta þessu máli, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. fór fram á, til þess að fá réttar upplýsingar þannig að þm. geti byggt niðurstöður sínar og afstöðu á þeim upplýsingum sem þá koma.

Ég vil t.d. fá að vita hvor hefur rétt fyrir sér, hv. 2. þm. Norðurl. v. þegar hann segir: Það er tvöföld skráning á farartækjum í dag. Eða ráðherrann þegar hann segir á móti: Það er rangt. Þessi tvöfalda skráning er ekki tvöföld skráning heldur er það bókhaldslykill sem gildir fyrir hvert farartæki. Það er svona eins og að tölusetja nótur. Ja, það er mikill munur hér á hvort við erum með fullkomna skráningu, tvöfalda skráningu eða hvort númerin á skírteinunum eru bara eins og að skrásetja nótur. Það er mikill munur þar á. Annars vegar er verið að brjóta niðurstöður Alþingis, fara ekki eftir þeim niðurstöðum sem Alþingi hefur hvað eftir annað frá 1974, kannski lengra aftur í tímann, hafnað. Það er stóralvarlegt mál þannig að ég tek undir þá ósk hv. 2. þm. Norðurl. v. að við bíðum með afgreiðslu á þessu frv. og fáum sannar og réttar upplýsingar.

Hvað hér hefur komið fram um framkvæmdir á skoðun hjá væntanlegu hlutafélagi o.s.frv. sé ég ekki ástæðu til þess að ræða. Það segir sig sjálft að þörfum og kröfum verður ekki fullnægt með einni góðri stöð í Reykjavík og þremur úti á landi. Það er alveg útilokað. Það verður miklu meira bákn en það. Það getur vel verið, eins og einhver sagði hér í ræðustól, að það verði hægt að leysa það með hreyfanlegum skoðanastöðvum um landið. Það er mjög líklegt að það sé hægt að gera það. Þrjár hreyfanlegar stöðvar. Mér finnst það nú hálfhlægilegt um leið og ég tala um það en það er kannski hægt að bæta einhverju við, að hafa fastar stöðvar þar sem mesta bílaeignin er og svo hreyfanlegar stöðvar til viðbótar. En það verður ekki til að spara í skoðun á farartækjum. Það verður til að gera útgerðina enn þá dýrari. Og þegar enn þá meira bákn er komið í hendur einstaklinga eins og hagsmunaaðilanna sjálfra, þá er ég ansi hræddur um að það verði ekki sparnaður af þeirri breytingu. Ég er hræddari við breytinguna á Bifreiðaeftirlitinu sjálfu en breytinguna á númerakerfinu. Því að þó að menn hafi tekið ástfóstri við einhverja tölu og lág númer, þá gerir það svo lítið annað en kannski skapa smáillsku svona manna á meðal út í þá sem standa að breytingunni ef þeir á annað borð eru ástfangnir af einhverju númeri, við að missa það og það fer nú af mönnum á nokkrum vikum og jafnvel nokkrum dögum. En hitt er miklu, miklu stærra atriði. Ég held að það sé rétt sem fram kom hér áðan að við eigum að styrkja bifreiðaeftirlitið og við getum það með því að fara meira eftir reynslu þeirra manna sem hafa unnið vel sitt starf. Við getum gert bifreiðaeftirlitið nýtískulegra, búið það fullkomnari tækjum, bætt aðbúnað á allan hátt og gert það afkastameira eins og til stóð. Það er m.a. mér að kenna að ekki var farið út í margar af þeim aðgerðum sem þeir lögðu til vegna þess að við höfðum ekki peninga þá. Það getur verið að sömu rökin gildi enn þann dag í dag; viljinn sé fyrir hendi hjá ríkisstjórninni en peningarnir ekki. Ég held að þetta væri miklu ódýrara og heppilegra fyrir þjóðfélagið í heild heldur en að stofna til hlutafélags. Ég vara sem sagt við því.

En þó að ég tali á móti frv. hér vil ég taka það fram að ég er alveg sammála ráðherra í mörgum þeim breytingum, sem hann hefur lagt til í sambandi við lagahreinsun, sem spara þjóðfélaginu eflaust mjög stórar upphæðir þegar til alls kemur. Það er verk sem þarft er að vinna og hefði átt að vera lokið fyrir lifandi löngu. Ég býð ráðherra fullkomlega mína vinnu og aðstoð við það verk, en ég get ekki verið honum sammála um bifreiðaeftirlitið.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, virðulegur forseti, og vil ljúka máli mínu á sama hátt og ég hóf það, að það er eiginlega kjánaskapur af mér sem stjórnarandstæðingi að vera að taka til máls. Ég hefði átt að lofa stjórnarliðum að sækja hverjum á annan og sækja á ráðherrann í þessu máli, það er ekkert slæm músík í eyrum stjórnarandstæðinga. En ég held að það séu of stór orð sem hafa fallið hérna frá mörgum stjórnarliðum í garð ráðherra í sambandi við þetta mál.