09.05.1988
Neðri deild: 98. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7841 í B-deild Alþingistíðinda. (5969)

360. mál, umferðarlög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hér er sem betur fer ekki um að tefla pólitískt mál þannig að hvorki líf hæstv. ríkisstjórnar né hæstv. ráðherra veltur á því. Enda þótt hv. 5. þm. Reykv. langaði til þess að leggja ráðherranum lið, af því að stjórnarsinnar leggjast gegn honum, þá tókst það ekki heldur af því, sem hann upplýsti mjög greinilega, að hann er í meginatriðum mjög andvígur aðalinnihaldi frv.

Mér sýnist þetta mál komið í ónýtt efni og verð að segja að ég held að hæstv. ráðherra ætti að sjá sitt óvænna og verða við þeim tilmælum, sem fram hafa verið flutt, að taka þetta mál til frekari athugunar og rannsóknar. Ekki til skoðunar eins og menn hafa hér á orði um öll mál. Það á að skoða öll mál eins og menn skoða málverk eða landslag. Það má ekkert mál athuga orðið. Þetta er ein lenskan í hinu háa Alþingi og þyrfti að breytast eins og fleira.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um númeraskráningu. Þó er það einkar athyglisvert fyrir hið háa Alþingi að upplýst er hér að tekin er upp fastskráningaraðferð árið eftir að hið háa Alþingi fellir að svo skuli gert. Ég man það rétt að það var fellt á hinu háa Alþingi 1973 að taka þessa aðferð upp og árið 1974 er þetta svo framkvæmt. Við þm. erum ekki alls óvanir að horfa á framkvæmdarvaldið fara ýmsu því fram sem hið háa Alþingi hefur ekki veitt leyfi sitt til. Út af fyrir sig má segja að hér sé um enga dauðasök að ræða ef menn eru að nota þetta í bókhaldsskyni, látum svo vera, en það er afar öndvert af framkvæmdarvaldinu að bregða á slíkt ráð eftir að hafa sótt um leyfi til þess af hinu háa Alþingi og fengið neitun. Slíkt hlýtur að orka mjög tvímælis að ekki sé meira sagt.

Ég ætla fáum orðum að eyða í númeraskráninguna, það er smámál enda þótt ég geti vel skilið að hv. 1. þm. Norðurl. v. vilji gjarnan vera vel ríðandi þegar hann fer að heimsækja kjósendurna og jafnvel að hafa silfurskeifur undir hrossinu. En það kann að vera að þetta sé mönnum fast í hendi og svo er annað í sambandi við bæði aðalatriði þessa máls. Það er allt á floti um fjárhagsáætlanir þessu að lútandi. Þeim verður alls ekki treyst eftir orðanna hljóðan í sjálfu frv. hvað þá heldur, sem ég geri nú miklu minna með, ýmsar lausafréttir sem á floti hafa verið í fjölmiðlum um kostnað þessu viðvíkjandi. Það hafa ekki verið færð fram fullgild rök fyrir því að hér verði um nokkurn sparnað að tefla. Maður kann því afskaplega illa að haldið var fram skýrum stöfum að Bifreiðaeftirlit ríkisins hefði verið rekið með fjárhagslegu tapi um margra ára skeið. Starfsmenn sendu hingað bréf, eins og vitnað hefur verið til, þar sem hið gagnstæða var sannað og fram á það sýnt tölulega. Og ég verð að segja það að það hafði töluverð áhrif á mig og ég hóf að lesa mér til um málið þegar mér hafði borist þetta bréf í hendur og ég hafði kynnt mér innihald þess. Þá fóru efasemdirnar fyrst að gera vart við sig hjá mér. En eins og ég segi: Númeramálið er kannski lítið mál en þó næsta óþarft í mínum augum ef það er svo að ekki er um verulegan sparnað að tefla. Ég tel auðvitað að ef svo er eigi menn að bregða á þetta ráð. Við höfum ekkert efni á að eyða einhverjum hundrað milljónum aukalega þess vegna. En á þetta hafa alls ekki verið færðar sönnur, nema síður sé. Menn gagnkunnugir telja að ekki sé um neitt slíkt að tefla.

Þó er hitt atriðið miklu alvarlegra og raunar alveg óskiljanlegt hvernig það flökrar að mönnum að ætla að breyta Bifreiðaeftirliti ríkisins í hlutafélag þar sem hagsmunaaðilar eigi aðild að, að ég tali nú ekki um hin margfrægu tryggingafélög eins og frammistaða þeirra í tryggingamálunum hefur verið girnileg, eða hitt þó heldur. Bifreiðaeftirlitið er lögreglueftirlit. Það hlýtur að vera lögreglueftirlit hins opinbera. Ég var mikill fylgismaður og raunar framkvæmdamaður um að selja ríkisfyrirtæki en svo hugkvæmur hefði ég aldrei verið að láta mér detta í hug að slíkt lögreglueftirlit ætti að verða að hlutafélagi, að ég ekki segi einstaklinga heldur beinlínis hagsmunaaðila. Ég er sannfærður um að hér misstíga menn sig áreiðanlega afar illilega, og fyrir því er það sérstaklega að ég hef verið í mestu góðsemd, því ég hefði ýmislegt viljað á mig leggja til að geta stutt ráðherra hæstv. í áhugamálum hans, leggja áherslu á að okkur verði nú gefið tóm til að ígrunda þetta betur, athuga málið betur en þæfa það ekki miklu lengur á löngum næturfundum. Raunar er ég dálítið undrandi á að þetta mál skuli hafa flotið svo athugunarlítið, verð ég að álíta, í gegnum hv. Ed. Nú þykjast vera þar mannvitsbrekkur ólitlar og hefði þetta ekki átt að velta niður þær svona fyrirhafnarlaust. En það er þó þessi kostur við tveggja deilda fyrirkomulagið, sem ég hef verið afar fastheldinn á, að sjá betur augu en auga og margsinnis höfum við rekið okkur á að síðari deild hefur forðað slysum og ég ætla rétt að vænta þess að svo verði einnig uppi á teningnum nú vegna þess að við megum ekki hrapa með þessum hætti að þessu máli.

Og svo í þriðja lagi, sem ég hef lesið í þessu fræga frv. og ég trúi að ég muni það rétt, að það eigi að stofna einhverja stór-skoðunarstöð árið 1990 hér í Reykjavík, tvær stöðvar úti á landi árið 1991 fyrir rúmar 30 millj. og 1992 þá þriðju. Áður en lítandi er á slíkar ráðagerðir verðum við að fá miklu nánari útlistun á hvað menn hyggjast fyrir með þessa þjónustu. Hvar eigum við að staðsetja þessar þrjár höfuðmiðstöðvar svo vel fari? Ekki treysti ég mér til þess. Ætti Austurlandskjördæmi af náð að verða aðnjótandi einnar stöðvar á Egilsstöðum og eiga þá Austur-Skaftfellingar vestan úr Skaftafelli a.m.k. 400 km leið, fljótt reiknað, að sækja um þann veg til skoðunar bifreiða sinna? Öryrkjar líka, örvasa menn sem aka bílum og rassbotnakerlingar, svo að maður vari sig nú á öllu orðalagi í því sambandi.

Ég tek annað dæmi úr heimahögum okkar hæstv. ráðherra þar sem maður gæti ímyndað sér að eðlilegur samkomustaður til þess að skoða bifreið að vestan væri Ísafjörður. Ég ætla að halda því fram að það sé óframkvæmanlegt fyrir alla Patreksfirðinga að sækja um fimm háheiðar til Ísafjarðar, fyrir alla Patreksfirðinga á ég við. Og ég geri ráð fyrir að Hólmvíkingar og menn þar fyrir sunnan myndu fara á Blönduós, þann mikla allsherjar samkomustað Langnesinga og Árneshreppsbúa af Ströndum. Nei, það er ekki heil brú í þessu og mig undrar mest að formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, að því ég best veit, er formaður þeirrar nefndar sem sýður þessi ósköp saman. Hún hlýtur að hafa verið kostuð sem skemmtinefnd, þessi nefnd, og látin búa til eitthvað fyrir okkur til þess að skemmta okkur við á löngum næturfundum og þá er það mönnum ekkert of gott. (Gripið fram í.) Já og á ekki langt að sækja það, Vestfirðingur, eins og við fleiri menn, eðalborinn.

Mér er nú ekkert gaman í hug þegar ég leggst á þessi tog að ná frv. til baka. Ég vil ekki að frv. af þessari gerð verði fellt hér, a.m.k. kysi ég heldur hina aðferðina ef nokkur kostur er, en engin ráð eru þó önnur ef menn eru ekki viðmælandi í þessu falli. Ég verð nú að segja að stór skaði er ekki skeður þótt menn taki sér eitt sumar í viðbót til þess að athuga þessi mál miklu grandgæfilegar. Afar þungvæg rök eru fyrir að taka ekki upp þá nýbreytni sem lögð er til í frv., og þau hafa ekki verið hrakin. Auðvitað eru einnig rök fyrir því að menn hljóta að stinga við fótum. Fyrir aðeins einu ári lukum við gagngerri endurskoðun bifreiðalaganna og þar var a.m.k. hluta af þeim hugmyndum, sem hér eru uppi, hafnað. Ég held að embættismenn hafi lítt sést fyrir um að ná fram áhugamálum sínum að þessu leyti og reyni nú um of á þolinmæði okkar þm. Það verð ég rétt að segja.

Eins og ég segi er númeraskráningin smáatriði, en ef ekki er hægt að sýna fram á sparnað er hún auðvitað óþörf og vissulega eru það rök að þurrka ekki út héraðaeinkenni o.s.frv., það er kannski það sem hefur nú einna mest áhrif á mig. Í öðru lagi er sú einkennilega hugmynd, svo að ég kveði ekki fastar að orði, að ætla að breyta eftirliti hins opinbera á bifreiðum í hlutafélag; hagsmunaaðila. Að lokum þjónustan sem, enn sem komið er, er algerlega vanhugsuð. Ég held að það hafi verið hv. 1. þm. Norðurl. v. sem var að fitja upp á því, til þess að segja eitthvað bitastætt í því efni, hvort ekki væri hægt að hafa þetta á hjólum - eða var hugsað að flogið yrði með það á milli? (Gripið fram í: Einhverjar færikvíar.) Einhverjar færikvíar, já. Nei, allt er málið ónýtt og við skulum nú hvíla okkur á þessu um hríð og taka fyrir næsta mál á dagskrá, herra forseti.