12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

72. mál, æfingaflugvöllur á Selfossi

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér er lögð fram þáltill. sem ekki lætur mikið yfir sér en er stærri í sniðum og raunhæfari ef grannt er skoðað. Málið lítur kannski í svipinn út sem kjördæmapot nokkurra hv. þm., en svo er ekki fáist menn á annað borð til að hugsa um hag þjóðarinnar, peningalegan sparnað, og hafa þá í huga fámenni þessarar litlu þjóðar. Enn fremur verða menn, og þá ekki síst hv. alþm., að hafa það í huga að í okkar þjóðfélagi gengur það ekki að setja mestalla þjónustu á eitt landshorn, Reykjavíkursvæðið. Við sem úti á landi búum sækjum afar margt á þetta svæði og raunar stefnir sú miðstýring í hættulega átt, en við kvörtum ekki þó um langvegu sé að fara. Þó spyrja eðlilega margir: Hvað gengur þetta lengi? Það þarf viðnám og skilningur verður að vakna á því að fólkið á landsbyggðinni þarf að fá til sín hluta af fjölbreyttri þjónustu nýverkefna.

Hverjir eru kostir þessarar tillögu og í hverju liggur sparnaðurinn sem ég var að minnast á?

Nú er það ætlan manna hér að ráðast á Kapelluhraunið, þar sem ekkert er fyrir í dag. Þetta mun vera við einhverja Óbrynnishóla. Það mun kosta hundruð milljóna að gera þar æfingavöll og þá aðstöðu sem fyrir hendi þarf að vera. Ef Selfoss yrði valinn fyrir þessa þjónustu þarf þar tiltölulega litlar úrbætur eins og fram hefur komið í máli 1. flm. Það þarf að gera sáraódýrar úrbætur miðað við Óbrynnishólana. Margt væri hægt að gera í þágu flugsins í landinu fyrir mismuninn sem sparaðist. Ég fullyrði að þeir peningar mundu nýtast til að gera stórt átak á mörgum verstu flugvöllum landsbyggðarinnar. Oft var þörf en nú er nauðsyn að slíkt eigi sér stað, segja allir þeir sem unna flugi og vilja auka öryggi flugsins í landinu.

Enn fremur vek ég athygli á því að nú þegar er iðkað æfinga- og kennsluflug í stórum stíl á Selfossflugvelli, ekki bara heimamanna heldur héðan af þessu svæði, þ.e. höfuðborgarsvæðinu. Þær munu í dag margar einkaflugvélarnar leita austur fyrir heiði í því bjarta og fagra veðri sem nú er úti. Selfoss er í jaðrinum á þessu svæði. Vegalengd ekki svo miklu lengri en suður í Hafnarfjarðarhraun á bifreið. Eins og ég sagði voru í dag margar smávélar á leiðinni austur. Það er aðeins 15 mínútna flug, sem nýtist lærlingum bæði í reynslu og tíma. Það hafa sagt mér ýmsir byrjendur í flugi að svæðið fyrir austan fjall henti vel. Þeir eru fjarri þeirri umferðarþvælu sem Reykjavík og Keflavík skapa á svæðinu hér í kring. Við hæstv. forsrh., sem eins og allir aðrir ráðherrar landsins reyndar er horfinn úr þessum sölum eins og oft áður, við erum þeirrar skoðunar að Suðurlandsundirlendið sé, eins og Friðrik orðaði forðum, heilt konungsríki. — „Þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð," sagði skáldið. — Þar er gott æfingasvæði fyrir byrjendur.

Það sem þyrfti að gera á Selfossi, yrði sú skynsamlega ákvörðun tekin af stjórnvöldum að suðvesturhorn landsins hefði þetta æfinga- og kennsluflug þar, væri nýr stjórnturn, yfirlag á völlinn og síðan blindflugstæki. Og enn fremur stöðugildi fyrir flugvörslu á svæðinu. Takið eftir. Þetta allt mun hvort sem er verða að koma á Selfossi innan tíðar — og mun koma þar innan tíðar. Ég tel flugvörslu þar mikilvæga nú þegar vegna þess mikla æfinga- og kennsluflugs sem þar fer fram.

Það er söguleg staðreynd að svæðið á bökkum Ölfusár væri trúlega miðstöð flugs á Íslandi hefði ekki hent lítið atvik sem breytti öllum áformum þar um. Þegar Bretarnir voru í Kaldaðarnesi höfðu þeir byggt þar og voru með miklu stærri áætlanir um flugaðstöðu þegar Ölfusá réðist að þeim og flæddi yfir svæðið, en þá varð breska herveldið hrætt og flúði staðinn. En ég vil taka það fram að það svæði sem nú er flugaðstaða á er miklu ofar með Ölfusá og þess vegna ekki í flóðahættu.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum beina orðum mínum til alþm. og ríkisstjórnarinnar, sem hefur á stefnuskrá sinni sparnað og vill stuðla að skipulagi og góðri meðferð á skattpeningum almennings. Þessi þáltill. er athyglisverð og ég efast ekki um að margir hv. alþm. taka undir þau sjónarmið sem fram koma í henni. Það mælir allt með því að þessi þáltill. sé raunhæfur kostur, raunhæf sparnaðarleið í litlu þjóðfélagi sem þarf á miklum peningum að halda til að byggja upp flugvelli og fjárfesta í öryggistækjum í þágu flugsins á næstunni, raunhæf leið vegna þess að mjög þarf að auka og efla aðstöðu til kennslu- og æfingaflugs, raunhæf leið vegna þess að í þessu efni er Selfoss nánast í hlaðvarpanum á þessu svæði. Eins og ég sagði áðan er vegalengdin í bifreið austur á Selfoss um 50 mínútna akstur, í flugvél aðeins 15 mínútna flug. Þetta er raunhæf leið vegna þess að allar aðstæður fyrir austan fjall eru þess eðlis að það er hættulítið bæði vegna landslags og fjarlægðar svæðisins frá umferðarþvælu suðvesturhornsins að stunda og staðsetja þar miðstöð æfinga- og kennsluflugs hér sunnan fjalla. Ég bið því hv. alþm. að skoða þessa till. sem raunhæfan og skynsamlegan kost.