09.05.1988
Neðri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7851 í B-deild Alþingistíðinda. (5982)

454. mál, viðskiptabankar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst nú að mér eigi að leyfast að tala a.m.k. þrisvar í svona merkilegu máli. En hvað um það. Ég ætla að svara hv. 5. þm. Reykv. af því að hann beindi í raun til mín spurningu.

Það sem ég gerði var að taka dæmið frá Hafskips/ Útvegsbankamálinu af þeirri einföldu ástæðu að það er vel þekkt og flestum kunnugt. Það sem í því fólst og lærdómurinn sem menn eiga af því að draga er einfaldur. Hann er sá að það er hættulegt fyrir veikburða banka og í veikburða bankakerfi að hlutfall fyrirgreiðslu við einstaka viðskiptavini verði of hátt, of mikill eða stór hluti af veltu viðkomandi banka. Þetta þekkja auðvitað allir sem kynnst hafa bankarekstri eins og hv. 5. þm. Reykv. veit mætavel.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að eitt af því sem gerir hið íslenska bankakerfi almennt séð óburðugt og veikt er auðvitað það að það eru margar smáar einingar í sparisjóðum og í litlu bönkunum sem gera það að verkum að stærri viðskiptavinir í landinu, stærri fyrirtækin í landinu eru einfaldlega of stór biti í raun fyrir marga þessa viðskiptabanka. Og hættan er sú að þjónustan við þessa einstöku viðskiptavini verði óeðlilega hátt og hættulega hátt hlutfall af veltu, svo ekki sé nú talað um eiginfjárstöðu viðkomandi banka.

Önnur greinin kveður á um það að settar verði almennar reglur til að reyna að sporna gegn þessari hættu og koma í veg fyrir hana ef þess er kostur. Ég held að á því sé mjög, mjög mikil þörf. Ég tel ekki rétt að við förum að nefna hér önnur dæmi. Það var spurt um stöðu Landsbankans, en maður leyfir sér þá kannski að benda á það að jafnvel Landsbankinn, sem hefur upp undir helming af íslensku bankaviðskiptunum á sinni hendi, er með svo stóra viðskiptavini sem hann þjónustar að jafnvel þar geta hættumörkin verið nálægt því sem um er að tefla. Ég nefni Reykjavíkurborg og Samband ísl. samvinnufélaga, og þó við skulum vona að hvorugur þessara aðila sé valtur á fótunum, þá eru umsvif þeirra geysilega mikil og þjónusta Landsbankans við þessa tvo risa í íslenskum fjármálum er umtalsverður hluti af veltu jafnvel þessa langstærsta banka landsins.

Ég held að það sé ekki heppilegt eða ástæða til að tína upp einstök nöfn en auðvitað er þetta alþekkt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé ekki síður ástæða til að reyna að setja svona reglu og fá yfirvöld bankamála og bankaeftirlitið til þess að knýja hana fram vegna hinna smáu eininga sem þrífast í bankastarfseminni t.d. út um landið þar sem eru sparisjóðirnir og einnig á þetta auðvitað við um hina minni banka og jafnvel alla íslenska banka, þar með talinn Landsbankann.

Ég má víst ekki tala mikið lengur, herra forseti, þó mig langi auðvitað til þess. Ég held að ég hafi komið því á framfæri sem ég var að fara og ég vona að hv. þm. skilji að það var ekkert illa meint að nefna þetta þekkta dæmi sem sannanlega er af því tagi að viðskipti við einn aðila urðu bankanum óþarflega stór og auðvitað allt of dýr, en það náttúrlega kom til af fleiru en því einu að viðskiptin við þennan aðila yrðu of hátt hlutfall af veltu bankans. Þar komu inn í tryggingar og fleiri harmsefni sem við skulum ekki fara að ræða hér á þessum næturfundi.