09.05.1988
Neðri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7854 í B-deild Alþingistíðinda. (5984)

454. mál, viðskiptabankar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst svara hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann mjúklega segir að hann hafi minnst á Útvegsbanka/Hafskipsmál vegna þess að það sé þekkt dæmi. En er ekki nauðsynlegt að kanna dæmið sem er enn þá stærra ef það er rétt að ríkissjóður hafi þurft að yfirtaka 2000 millj. af Útvegsbankanum? Dæmi Hafskips er ekki þekkt enn þá, hvort það eru 300 millj. eða 400 millj. Það liggur ekkert fyrir. Það liggja fyrir ummæli bæði bankans og hæstv. fjmrh. um stærðargráðu þess sem ríkissjóður þarf að taka yfir vegna breytinga á starfsemi Útvegsbankans og það eru viðskiptin við aðra aðila, bæði í Útvegsbankanum og eins í öðrum bönkum sem ég tel að þurfi að skoða og skoða mjög vel vegna þess að hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon kom með það inn í þessar umræður á þann hátt sem ég hef getið um.

Í sambandi við frv. sjálft vil ég segja það að ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að bíða með fyrstu greinina. En í sambandi við 2. gr. tel ég það rangt, og byggi það á reynslu minni sem bankaráðsmanns, að leita umsagna bankastjóranna, leita sem sagt til bankastjóranna, bankastjórnar um hvernig fyrirkomulag þeir eigi að hafa á sinni vinnu, bæði hvað snertir útlán og ábyrgðir. Bankaráðið á sjálft að setja þeim þær reglur sem þeir starfa eftir. Þeir eiga ekki hafa áhrif þar á. Það er mín skoðun og byggi ég hana á þessari reynslu minni.

Við erum alveg sammála um 3. gr. en ég vil taka fram að 4. gr. er ég mjög ósammála. Ég hélt að ég væri að gera hæstv. ráðherra vissan greiða með því að benda á hættuna í henni. Þar er bara talað um endurskoðun ríkisbankanna þegar það er miklu meiri hætta fyrir viðskiptavini sem skipta við aðra en ríkisbanka að þeir geti tapað fé. Ríkið er tryggingin fyrir öllum viðskiptum við ríkisbankana en ríkisstjórnin er ekki trygging fyrir viðskipti annarra banka. Það er þess vegna sem endurskoðunin þarf að vera miklu strangari þar heldur en í venjulegu hlutafélagi, en það er það ekki eins og er. Ég er sjálfur hluthafi og upphafsmaður eða stofnandi að sparisjóði sem varð að banka og heitir Verslunarbankinn og þar er mikill munur á. Þar ber ég líka saman mína reynslu sem slíkur í þeim banka og sem bankaráðsmaður í ríkisbanka. Það er allt önnur endurskoðun.

Ég get líka farið enn þá lengra, og beini þá þeim orðum mínum til bæði hæstv. fjmrh. og viðskrh. eða bankamálaráðherra, að það er enn þá inni trygging í ábyrgðarmannakerfinu í sparisjóðunum. En sparisjóðirnir eru orðnir viðskiptabankar. Þeir eru farnir að gefa út ávísanir, kaupa og selja víxla, kaupa og selja skuldabréf. Þetta er orðin bankastarfsemi undir sparisjóðslögum þar sem ábyrgðarmenn eru kannski 100–200 með 1–2 þús. kr. ábyrgð á mann. Hvaða ábyrgð er þetta fyrir viðskiptavinina eða trygging? Þetta er akkúrat ekki nokkur trygging. Og svo kemur það í lög sem ná áreiðanlega yfir sparisjóðina líka, eins og segir í 5. gr., að bókfært virði fasteigna og búnaðar sem viðskiptabanki notar til starfsemi sinnar megi ekki vera hærra en 65% af eigin fé. Ég er alveg viss um að í sumum sparisjóðum er ekkert eftir af eigin fé, bara ekki neitt, þegar þeir eru búnir að byggja yfir sig, kaupa þann dýra búnað sem bankaútibú eða banki þarf að hafa, þó ekki séu nema eldtraustar hurðir, þá skiptir þetta stórum upphæðum, útbúnaður á veggjum og öryggisbúnaði, þetta verður allt að vera af ákveðinni styrktargráðu til þess að leyfi fáist fyrir starfsemi peningastofnana. Er mér nokkuð kunnugt um það vegna þess að í um 30 ár starfaði ég einmitt í öryggisbúnaði fyrir peningastofnanir. Það er þetta sem ég er að benda á. Ég er sammála öllu því sem er verið að gera. Þetta er allt gott og rétt og í rétta átt. Mér finnst það bara ekki ganga nógu langt og það er þess vegna sem ég eyði tíma þingsins nú til að benda á þessi atriði.