10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7861 í B-deild Alþingistíðinda. (6011)

434. mál, ríkisábyrgðir

Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þrátt fyrir að ég styðji þetta frv. eins og það liggur fyrir kemst ég ekki hjá því að láta í ljós og vekja athygli á að þetta er slæm tekjuöflun og ég held að við ættum, stjórnarliðar, að breyta þessu formi og finna aðra tekjuöflunarleið, annaðhvort lántökugjald, skatt á lántökur til ríkisins fremur en það lántökugjald sem hér er sett fram.

Ég er stjórnarmaður í Landsvirkjun og Landsvirkjun er einn sá gjaldandi sem varð fyrir því að þurfa að greiða þetta ábyrgðargjald. Strax þegar þessi bráðabirgðalög höfðu verið sett gerðu Reykjavíkurborg og Akureyrarbær kröfu til þess að fá jafnhátt gjald af Landsvirkjun og það sem rann til ríkisins. Ef það væri hætta fyrir ríkið að ábyrgjast lán Landsvirkjunar að helmingi töldu Reykjavíkurborg og Akureyrarbær að það sama gilti um áhættuna af þeim hluta lánanna sem eignaraðild viðkomandi sveifarfélaga stæði að til ábyrgðar. Þessu var ekki hægt að komast undan.

Mér finnst þetta sem sagt óheppilegt form og beini því til ríkisstjórnar, fjmrh., að hugsa nú upp eitthvert annað form í framtíðinni á þessari gjaldheimtu.