10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7861 í B-deild Alþingistíðinda. (6013)

468. mál, leigubifreiðar

Frsm. samgn. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Samgn. Nd. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 36 9. maí 1970, um leigubifreiðar, og gefið út svofellt nál.:

„Nefndin hefur rætt málið og mælir með því að frv. verði samþykkt með svofelldri breytingu:

4. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. okt. 1988.

Geir Gunnarsson sat fund nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu.“

Undir þetta nál. skrifa Ólafur Þ. Þórðarson, Eggert Haukdal, Málmfríður Sigurðardóttir, Ingi Björn Albertsson, Valdimar Indriðason, Guðni Ágústsson og Árni Gunnarsson.

Það var mat nefndarinnar að skynsamlegt væri til þess að binda endi á þær deilur sem verið hafa að framkvæmdarvaldið setti á fót sáttanefnd og hefði einhvern umþóttunartíma. Þess vegna er lagt til að gildisákvæði laganna færist frá því að þau taki nú strax gildi og til 1. okt.

Það er starfandi nefnd á vegum samgrn. sem er að athuga eitt og annað varðandi leigubílaaksturinn og hefur á prjónunum ýmsar hugmyndir sem ég ætla að verði breytingar til batnaðar og e.t.v. gætu orðið til að breyta á einhvern hátt þeim farvegi sem verið hefur um hverjir eigi þar starfsréttindi í framtíðinni, ekki til að breyta því gagnvart þeim sem nú þegar hafa þar starfsréttindi. Miðað við hvað mál þetta hefur verið heitt og mikið átakamál þótti nefndinni skynsamlegt að leggja til þá breytingu sem hér kemur fram.