10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7864 í B-deild Alþingistíðinda. (6023)

431. mál, virðisaukaskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1128 frá meiri hl. fjh.- og viðskn.

„Nefndin kannaði málið ítarlega á fjórum löngum fundum. Á fundi nefndarinnar voru kvaddir Ólafur Davíðsson frá Félagi ísl. iðnrekenda, Þorleifur Jónsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Haraldur Sumarliðason, forseti Landssambands iðnaðarmanna, Gunnar S. Björnsson frá Meistarasambandi byggingamanna, Skúli Þorvaldsson, Erna Hauksdóttir og Einar Olgeirsson frá Sambandi veitinga- og gistihúsa, Hákon Sigurgrímsson, Þórólfur Sveinsson og Gunnlaugur Júlíusson frá Stéttarsambandi bænda, Kristján Ragnarsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson frá LÍÚ, Sigurður Björgvinsson frá SÍS, Ágúst Einarsson, Sturlaugur Sturlaugsson, Arnar Sigurmundsson, Brynjólfur Bjarnason og Ágúst Elíasson frá Sambandi fiskvinnslustöðva, Árni Reynisson og Steingrímur Ari Arason frá samstarfsráði verslunarinnar, Indriði H. Þorláksson og Lárus Ögmundsson frá fjármálaráðuneytinu, Böðvar Sigvaldason og Þorsteinn Þorsteinsson frá Landssambandi veiðifélaga, Kristján Thorlacius og Örlygur Geirsson frá BSRB, Birgir Björn Sigurjónsson og Áskell Jónsson frá BHMR, Ari Skúlason frá ASÍ, Ólafur Ragnarsson, Kristján Jóhannsson, Einar Kárason, Eyjólfur Sigurðsson, Þorgeir Baldursson og Jóhann Páll Valdimarsson frá Bókasambandi Íslands, Gísli Alfreðsson þjóðleikhússtjóri, Sigurður Grétar Guðmundsson frá Bandalagi ísl. leikfélaga, Erla B. Skúladóttir frá Alþýðuleikhúsinu, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir frá Félagi ísl. leikara, Sigurður Björnsson frá Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hallmar Sigurðsson frá Leikfélagi Reykjavíkur, Garðar Cortes frá Íslensku óperunni, Ágúst Hafberg og Gunnar Sveinsson frá Félagi sérleyfishafa, Helgi V. Jónsson frá Félagi endurskoðenda, Hákon Árnason, Gestur Jónsson og Hafþór Ingi Jónsson frá Lögmannafélagi Íslands.

Við athugun nefndarinnar á frv. komu fram ýmsar tillögur og hugmyndir um breytingar. Taldi nefndin einsýnt að mörg atriði þörfnuðust nánari athugunar. Meiri hl. nefndarinnar taldi ekki ráðrúm við núverandi aðstæður að flytja brtt. við frv., enda þegar ákveðið að nefnd verði skipuð til þess að taka frv. til sérstakrar athugunar og móta tillögur um lagabreytingar eftir því sem þurfa þykir. Koma slíkar breytingar til kasta Alþingis á hausti komanda.

Í umfjöllun nefndarinnar komu þau sjónarmið mjög fram að undanþágur frá skattskyldu ættu að vera sem allra fæstar og leita yrði annarra leiða til þess að jafna aðstöðumun við breytinguna yfir í virðisaukaskatt þar sem þess teldist þörf.

Leggur meiri hl. nefndarinnar áherslu á að sú nefnd, sem áður greinir, kanni sérstaklega möguleika á að fækka undanþágum frá skattskyldu þannig að aðhaldseiginleikar kerfisbreytingarinnar með skattskilum nýtist sem best, jafnframt því sem betra svigrúm fáist til þess að vera með sem lægst skatthlutfall, en þetta hvort tveggja telur meiri hl. nefndarinnar mjög mikilvæg markmið.

Meiri hl. nefndarinnar er samþykkur því að nauðsynlegt sé að athuga þau atriði sem upp eru talin í 11 liðum í nál. fjh.- og viðskn. Ed. á þskj. 1005.

Því til viðbótar telur meiri hl. nefndarinnar að rétt sé að athuga sérstaklega eftirtalin atriði:

1. Bóka-, blaða- og tímaritaútgáfa.

2. Banka- og lánastarfsemi.

3. Vátryggingarstarfsemi.

4. Hlunnindi og landnytjar.

5. Sala á þjónustu, m.a. með tilliti til eftirlits og skattskila.

6. Uppgjörstímabil í landbúnaði.

7. Íþróttastarfsemi.

Þá ræddi nefndin um niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum. Meiri hl. vísar til bókunar í ríkisstjórninni við framlagningu frv. um virðisaukaskatt, svohljóðandi:

„Við upptöku söluskatts á flestar vörur í ársbyrjun 1988 var ákveðið að greiða niður verð á hefðbundnum landbúnaðarafurðum þannig að verð þeirra breyttist lítið sem ekkert. Nú hafa komið fram óskir um að fyrir lægi bindandi ákvörðun um óbreytt niðurgreiðslustig við upptöku virðisaukaskatts.

Niðurgreiðslur eru sem kunnugt er ákveðnar með sérstakri fjárveitingu ár hvert. Samstaða er um það að við upptöku virðisaukaskatts verði niðurgreiðslum hagað þannig að breytt skattkerfi hafi ekki í för með sér breytingu á verði niðurgreiddra landbúnaðarvara.“

Þá ræddi nefndin vandlega um lista- og menningarstarfsemi, bæði atvinnumanna og áhugafólks. Meiri hl. vísar til ákvæðis í upptalningu í nál. á þskj. 1005 um listir og menningu og telur einboðið að haga kerfisbreytingunum á þann veg að fjárhagsgrundvöllur þeirrar starfsemi verði ekki rýrður.

Loks leggur nefndin áherslu á að kerfisbreytingin verði vel kynnt meðal almennings, fyrirtækja og stofnana með öflugu upplýsingaátaki.

Með vísan til framanritaðs leggur meiri hl. til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj.1038.“

Undir nál. rita Páll Pétursson, Geir H. Haarde,

Einar Kr. Guðfinnsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Kjartan Jóhannsson.