10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7866 í B-deild Alþingistíðinda. (6024)

431. mál, virðisaukaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ræðumaður ætlar ekki að halda langa ræðu fyrr en hv. fjmrh. er kominn í salinn. Herra forseti. Ég fer fram á að forseti setji auglýsingu í útvarpið og lýsi eftir ríkisstjórninni því hún er greinilega einhvers staðar annars staðar en á Alþingi eins og sjá má hér á stólunum. (Forseti: Ráðstafanir verða gerðar til þess að fá fjmrh. a.m.k. í þingsal.)

Herra forseti. Ég vil ekki að það misskiljist neitt að ég sé í heimsmetshugleiðingum og ætla þess vegna ekki að þegja mjög lengi í einu í ræðustólnum, en hef hugsað mér að mæla fyrir nál. minni hl. þegar hæstv. fjmrh. er viðlátinn. Hann mun hafa verið að brosa framan í sjónvarpsvélar hér niðri í Kringlu fyrr í dag, telur það sennilega mikilvægara en að hlusta á málflutning þeirra sem eru ekki ánægðir með stefnu hans í skattamálum.

Nú, oft kemur góður þá getið er. Þar skeiðaði hæstv. fjmrh. í salinn og er okkur þá ekkert að vanbúnaði. Svo er meira að segja hæstv. viðskrh. kominn líka þannig að það fer að verða óvenjuvel mætt hjá hæstv. ríkisstjórn þegar 2/11 hlutar eru komnir á fundinn. (Dómsmrh.: Er það ekki bara venjuleg mæting?) Jú, það er rúmlega meðalmæting hér á þingi.

Minni hl. skilar séráliti, herra forseti, og leggur þar til að þetta frv. verði fellt og færir fyrir því allítarleg rök, ég vil segja talsvert miklu veigameiri rök en snubbótt nái. meiri hl. fjh.- og viðskn., reyndar bæði í Ed. og Nd., hafa fram að færa. Þar er mestan part talið upp hverjir hafi mætt til viðtals við nefndina og síðan sagt að meiri hl. leggi til að það skuli samþykkt.

Fyrstu og veigamestu röksemdir að mínu mati gegn frv. eru þær að með því yrði festur í sessi hinn illræmdi matarskattur, þ.e. að með frv. yrði lagður skattur á matvæli og aðrar brýnustu nauðsynjar fólks, en slíkar vörur eru víðast hvar annars staðar annaðhvort með öllu undanþegnar slíkum skatti eða mjög lágt skattlagðar. Það er rétt að hafa í huga, herra forseti, í þessu sambandi að óvíða í heiminum eru matvæli dýrari en á Íslandi. Þau eru að vísu sem betur fer góð og holl, en þau eru mjög dýr og það er erfitt að hafa ofan í sig á Íslandi nema að borga fyrir það allmikla peninga því hér eru yfirleitt ekki fáanlegar matvörur nema dýru verði keyptar.

Það er líka rétt að hafa í huga að kaupmáttur tímakaups er mun lægri á Íslandi en í flestum nálægum löndum og þeim löndum sem sambærilegar þjóðartekjur hafa. Það er ein af verstu skekkjunum í okkar þjóðarbúskap hversu óeðlilega lágt tímakaupið er hér. Þess vegna er að mínu mati matarskattur við íslenskar aðstæður miklu alvarlegri og verri ráðstöfun en hann er víðast hvar annars staðar.

Af þessari ástæðu einni og þó ekkert annað hefði komið til hefði það aldrei komið til greina af hálfu Alþb. að standa að þessari skattheimtu.

Í öðru lagi er í nál. minni hl. vikið að því að með þeirri ákvörðun að leggja virðisaukaskattinn, sem þar gengur undir nafninu VASKurinn, á í einu þrepi er sá möguleiki útilokaður að flokka vörur og þjónustu upp með tilliti til mikilvægis fyrir almenning, en það er víða þannig, eins og ég áður nefndi, að matvæli, barnavörur og því um líkt ásamt vissum greinum þjónustu eru skattlögð vægara eða með lægra þrepi en annað. Þetta er reyndar sú stefna sem tekin hefur verið upp innan Evrópubandalagsins, að samræma virðisaukaskatt í þeim löndum í tvö þrep. Þrátt fyrir tilraunir embættismanna og hæstv. ráðherra til að blekkja þingheim og þjóðina um annað er það endanlega sannað að þetta er sú stefna sem hefur verið tekin, að skattleggja ýmsar lífsnauðsynjar, þar með talin matvæli, með lægra þrepi en aðrar vörur. Það er skoðun minni hl. að þennan kost hefði átt að athuga mjög vandlega og það séu mikil mistök og í raun og veru forkastanleg vinnubrögð að hafna þessum kosti, sem aðrar þjóðir hafa valið, að því er virðist umhugsunarlaust með þeim einu röksemdum, þeim köldu röksemdum að eitt þrep sé einfaldara en tvö þrep þegar jafnaugljós réttlætis- og sanngirnissjónarmið mæla með því að nota frekar tvö eða jafnvel fleiri þrep. En þetta hefur orðið niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar og menn hafa látið berja sig undir þessa ákvörðun og því viljum við mótmæla sérstaklega.

Í þriðja lagi er enginn vafi á því, herra forseti, að upptaka virðisaukaskatts hefur í för með sér geysilega aukið skrifræði og veldur auknum tilkostnaði og fyrirhöfn bæði fyrir hið opinbera og er þó ekki á bætandi, en ekki síður fyrir atvinnulífið. Mikil fjölgun verður í hópi þeirra sem eiga að gera skil til yfirvalda. Það kemur fram í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. að þeir skipta þúsundum og aftur þúsundum sem nú bætast í hóp þeirra sem eiga að gera skil til ríkissjóðs á þessum skatti með öllum þeim skriftum um innskatt og útskatt og öllum þeim frádráttar- og samlagningarkúnstum sem því eru samfara. Þar eru ekki síst á ferðinni aðilar eins og bændur og ýmsir einyrkjar í atvinnulífi svo og smáfyrirtæki og það er ansi hætt við því að ýmsum í þessum hópi, sem eðlilega hafa ekki mikla reynslu af bókhaldsæfingum af þessu tagi, muni veitast erfitt að bæta þessu „vaskaríi“ ofan á annað og veruleg hætta á því að þessir aðilar neyðist þá til að leita út fyrir sín fyrirtæki eða út fyrir sitt starf, sitt bú og kaupa dýru verði þessa þjónustu. Ef það er einhver stétt í landinu öðrum fremur sem kannski hefur hagsmuna að gæta í sambandi við þetta frv. eru það þeir sem hafa atvinnu af því að veita slíka þjónustu nema ef vera skyldi þá líka prentiðnaðurinn sem væntanlega fær stóraukin verkefni þegar allt pappírsflóðið heldur innreið sína.

Í fjórða lagi segir í nál. minni hl. að algjörlega ófullnægjandi rök hafi að mati minni hl. verið færð fyrir því að virðisaukaskatturinn sé það lausnarorð í sambandi við skattsvik sem ýmsir vilja vera láta. Það má benda á margt í því sambandi. Það má benda á að í hinni svonefndu skattsvikaskýrslu, sem lögð var fram á Alþingi fyrir einum tveimur árum, kemur fram samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum að umfang dulinnar atvinnustarfsemi sé síst meira hér á landi en í nágrannalöndunum, en þar er vel að merkja virðisaukaskattur og hefur yfirleitt verið um áratuga skeið þannig að það er ekki að sjá að upptaka og notkun virðisaukaskatts á hinum Norðurlöndunum og í Evrópulöndum og víðar hafi hjálpað mönnum neitt til að ná utan um neðanjarðarhagkerfið og koma í veg fyrir umsvif sem ekki eru gefin upp til skatts.

Í sömu heimild, skattsvikaskýrslunni frægu, er líka samantekt og tafla sem sýnir alveg óumdeilanlega, að ég tel, að nótulaus viðskipti hér á Íslandi eru minni. Þrátt fyrir okkar söluskattskerfi og virðisaukaskattskerfi hinna Norðurlandanna eru nótulaus viðskipti minni hér en þar. Það bendir ekki til þess að virðisaukaskatturinn hafi orðið þetta mikla lausnarorð annars staðar til að ná utan um þessa hluti.

Ég vil í þriðja lagi benda á, herra forseti, að það er veruleg hætta á því að virðisaukaskatturinn, tilkoma hans í vissum greinum svo sem eins og í byggingariðnaði, geti kallað á aukin skattsvik, ekki minnkun, geti kallað á vaxandi tilhneigingu til að fara algjörlega fram hjá bókhaldi í þeirri starfsemi. Talsmenn byggingariðnaðarins komu á fund fjh.- og viðskn. og gerðu grein fyrir þessu og röktu dæmi um hvernig tilkoma virðisaukaskattsins gæti beinlínis orðið til þess í þeirri grein að fæla menn frá því að gefa sín umsvif upp til skatts. Fyrir nú utan hvað byggingariðnaðinn varðar og áhrif þessa skatts á húsbyggingar er þar kannski eitthvert stærsta gatið í öllu frv. þar sem algjörlega er um óútfylltan víxil að ræða og engar reglur af neinu tagi liggja fyrir um hvernig eigi með einhvers konar endurgreiðslukerfi að koma í veg fyrir að byggingarkostnaður stórhækki af völdum skattsins. Hæstv. fjmrh. og aðrir spekingar ríkisstjórnarinnar, svo ekki sé nú minnst á stjórnarmeirihlutann í fjh.- og viðskn., skila gersamlega auðu í þessu efni. Eins og frv. liggur fyrir má með fullum rétti segja að það muni leiða til 6–8% hækkunar á byggingarkostnaði í landinu fyrir húsbyggjendur og aðra slíka aðila þangað til, vel að merkja, þangað til hæstv. fjmrh. skýrir það þá út fyrir okkur hvernig hann ættar að koma því til leiðar með einhvers konar endurgreiðslukerfi eða öðrum hætti að þessi hækkun verði ekki.

Í fimmta lagi, herra forseti, er í nál. minni hl. fjallað um áhrif þessa frv. á ýmsa menningarstarfsenti og þar er komið að þeim þætti þessa máls sem er kannski einna snautlegastur fyrir hæstv. ríkisstjórn og er þá mikið sagt. - Það væri gaman, herra forseti, ef það væri hægt að setja viðbótarauglýsingu í útvarpið og auglýsa eftir hæstv. menntmrh. Það væri ekki dónalegt að fá hæstv. menntmrh. hérna einu sinni á fund fyrir sumarið og mega eiga við hann orðastað um menninguna og virðisaukaskattinn. Ef hæstv. forseti vildi vera svo góður að kanna þetta mál lítillega.

Ég var satt best að segja búinn að búa mig undir miklar æfingar í umræðum um menninguna og virðisaukaskattinn. (Forseti: Það verður haft samband við menntmrh. og hann beðinn að koma til fundarins að beiðni ræðumanns, en leitað að vísu annarra leiða en útvarpsins.) Ég fellst á það að forseti hafi frjálsar hendur um hvaða aðferðum hann beitir við að reyna að ná sambandi við hæstv. menntmrh. Aðalatriðið er að hann finnist og komi til að sinna sínum þingskyldum ef hann getur því við komið.

Herra forseti. Ég hafði satt best að segja átt von á því að hér mundi í upphafi umræðna af hálfu frsm. meiri hl. eða e.t.v. hæstv. ráðherra, og það kemur e.t.v. þó síðar verði, reynt að sanna að það væri alveg sérstakt framlag til menningarstarfseminnar að leggja á hana virðisaukaskatt. Við höfum fengið að heyra pínulítið af því undanfarna sólarhringa, bæði nefndarmenn í fjh.- og viðskn. og e.t.v. einhverjir fleiri, hvernig sé hægt að reikna út að það sé alveg sérstakur stuðningur við menninguna í landinu að leggja á hana virðisaukaskatt. Ég bjó mig undir að það kæmi til einhverra talnaæfinga hér. Nú er verst að hafa ekki myndvarpa, herra forseti, í þingsalnum til að hægt sé að bregða glærum og sýna skuggamyndir með töflum og tölum því við höfum fengið að sjá ýmislegt skrautlegt af slíku tagi undanfarna sólarhringa.

En það er sem sagt meiningin með þessu frv., og á því hefur í raun engin breyting orðið, að leggja 22% skatt á ýmsa menningarstarfsemi sem áður var undanþegin söluskatti þannig að til að mynda aðgangseyrir að leiksýningum, tónleikum og því um líku verði skattlagður nú, en sú starfsemi hefur verið undanþegin söluskatti um alllangt árabil. Í nál. minni hl. segir að með þessu sýni ríkisstjórnarflokkarnir menningarfjandskap sinn og ég held að það sé þá rétt og menn eigi það inni að við reynum að rökstyðja þá fullyrðingu að með þessu sýni hæstv. ríkisstjórn menningarfjandskap sinn og ég skal reyna að gera það.

Það er þannig að ef hæstv. ríkisstjórn hefði viljað styðja við bakið á menningu í landinu um leið og hún gerði þessar breytingar í sínu skattkerfi átti hún einfalda leið til þess. Sú leið var að undanskilja þessa starfsemi með öllu virðisaukaskatti og gera það þannig hliðstætt og er með dagblöðin í landinu að ekki einungis sala þeirra er undanþegin virðisaukaskatti heldur og allur tilkostnaður sem til fellur við framleiðslu þeirra. Sömu reglu varð auðvitað ósköp einfalt að beita við menningarstarfsemi. En hins vegar er nú sagt að vegna þess að ýmis menningarstarfsemi hefur greitt söluskatt af sínum aðföngum og muni samkvæmt þessu kerfi greiða virðisaukaskatt af sínum aðföngum sé alveg nauðsynlegt og mikið bjargræði við menninguna að leggja einmitt á hana virðisaukaskatt, þ.e. alla leið, og á sölu t.d. aðgöngumiða að leikhúsum eða tónleikum líka. Það gerir þetta með innskattinn og útskattinn. Þá fái menn nefnilega að draga frá innskattinn. Það sé alveg nauðsynlegt fyrir menn að borga 22% af öllum aðgöngumiðum, öllum aðgangseyri slíkrar starfsemi til að fá að draga frá innskattinn.

Svo er farið niður í Þjóðleikhús og sóttar þangað tölur til að reyna að reikna út fyrir menn að það borgi sig að leggja á Þjóðleikhúsið virðisaukaskatt. Það er að vísu gert með þeim sérkennilega hætti að allur rekstrarkostnaður Þjóðleikhússins og allar tekjur, þar með talið af veitingasölu af rekstri Þjóðleikhússkjallarans og annarra slíkra hluta, er settur inn í veltuna. Til hvers? Til þess að minnka hlutfall teknanna. Til þess að aðgangseyririnn sé minni hluti af tekjunum. Það er aðgangseyririnn sem þarna á að vera söluskattsskyldur og þar með sé þetta orðið þannig að Þjóðleikhúsið jafnvel bara græði á því að á það sé lagður virðisaukaskattur.

Svo ekki sé nú minnst á Sinfóníuna. Hún á að stórgræða á virðisaukaskattinum. Og hvers vegna er það nú? Hvers vegna er hægt að sýna dæmi um að starfsemi eins og Sinfóníuhljómsveitin geti jafnvel komið jákvætt út? Það er vegna þess að það finnst varla afbrigðilegri starfsemi, ef ég má leyfa mér að nota það orð, herra forseti, að vísu með fullri virðingu fyrir Sinfóníuhljómsveitinni, en rekstur sinfóníuhljómsveita í heiminum nema ef vera skyldi e.t.v. rekstur Royal Shakespeare leikhússins og einhverrar slíkrar starfsemi. Vegna hvers er það? Það er vegna þess að tekjur þessarar starfsemi standa ekki undir nema mjög litlu broti af útgjöldunum. Afgangurinn kemur með einhverju öðru móti í formi styrkja og framlaga, safnana og svo kannski í formi taps. Þannig eru útgjöldin borin uppi og það er auðvitað enginn virðisaukaskattur lagður á tap. Það er heldur ekki lagður virðisaukaskattur á framlög frá ríkinu eða framlög frá sveitarfélögunum og þannig er hægt að tína út örfá dæmi úr menningargeiranum eins og t.d. Sinfóníuhljómsveitina og Þjóðleikhúsið með vissum fölsunum. Og ef við værum með Shakespeare-leikhús, sem fengi svona 15% tekna sinna af sölu aðgöngumiða og allt hitt með öðrum hætti, gætu þeir í fjmrn. aldeilis slegið sér á brjóst og sagt: Sjáið, það er bara stórgróði fyrir leikhúsið að lagður sé á það virðisaukaskattur. Kannski verður einhvern tímann sett á stofn Laxnessleikhús á Íslandi sem hefði svipuð tekjuhlutfjöll og Royal Shakespeare-leikhúsið og þá yrði þetta svona þar.

Það hafa verið gerðar tilraunir til að nota slik dæmi til þess að segja við menn: Þetta er bara allt í lagi með menninguna. Gott ef það að leggja á hana virðisaukaskatt er ekki eitthvert mesta innlegg í menningarstefnuna sem lengi hefur átt sér stað. Ég veit ekki hvort einhverjir stjórnarliðar, kannski á þingflokksfundum, hafa fengið að heyra þetta. Það geta þá einhverjir upplýst það. Nei.

Enda skulum við þá fara aðeins yfir þennan málflutning og sjá hvernig þetta kemur út annars staðar. Við skulum taka dæmi af hinum endanum. Þar sem menn í frjálsri menningarstarfsemi eru að reyna að halda úti algerlega án opinbers stuðnings, reka sína starfsemi að fullu fyrir eigin tekjur. Hvernig lítur dæmið þá út? Við skulum taka Alþýðuleikhúsið, og ég vona að þeir góðu menn leyfi mér að fara ofurlítið ofan í bókhald þeirrar stofnunar til að sækja mér dæmi um rekstur starfseminnar. Dæmið lítur þannig út að tekjur Alþýðuleikhússins af tilteknum verkum á ákveðnu tímabili voru um 1 087 þús. kr. og virðisaukaskatturinn af þessari starfsemi eru rétt tæpar 240 þús. kr. Ef virðisaukaskattur hefði verið lagður á rekstur Alþýðuleikhússins þetta tiltekna tímabil, sem ég er hér að vitna í, hefði Alþýðuleikhúsið þurft að skila í ríkissjóð 240 þús. kr. vegna þeirra aðgöngumiða og bæklinga sem það seldi að frádregnum innskattinum fræga. Og hver er hann hjá Alþýðuleikhúsinu? Jú, hann kæmi væntanlega til af auglýsingakostnaðinum og gæti hafa verið um 100 þús. kr. á þessu tímabili. Önnur starfsemi, sem hefði verið virðisaukaskattsskyld, gæti hafa verið u.þ.b. 300 þús. kr. sem þýðir að um 60 þús. kr. í viðbót hefðu bæst við þann lið sem draga mátti frá útskattinum. Það eru 160 þús. frá 240 þús. kr., eða 80 þús. kr.

Nú kann einhverjum að finnast að þetta sé bara býsna góð útkoma hjá Alþýðuleikhúsinu. Alþýðuleikhúsið hefði ekki þurft að skila hæstv. fjmrh. nema 80 þús. kr., nettó, á þessu tímabili. Er þetta þá ekki býsna gott? En það er bara einn galli á. Útgjöld Alþýðuleikhússins á þessu tímabili voru ekki 1 087 þús. kr. heldur 2 380 þús. kr. Það vantar sem sagt rúmar 1 200 þús. kr. upp á að Alþýðuleikhúsið hafi fengið tekjur til að standa undir sínum útgjöldum. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að ef Alþýðuleikhúsið hefði fengið tekjur á móti útgjöldum, ef það hefði selt miða sem hefðu dugað fyrir öllum rekstrarútgjöldunum, hefði útskatturinn ekki aldeilis orðið 240 þús. kr. heldur yfir 500 þús. kr. Og ef 160 þús. kr. eru dregnar frá 500 þús. kr. sjá allir að þetta dæmi er að verða býsna alvarlegt fyrir Alþýðuleikhúsið því Alþýðuleikhúsið á engar 340 þús. kr. til að borga í viðbótarvirðisaukaskatt til fjmrh. Þarna hefðu sem sagt bæst við 340 þús. kr. fyrir þetta litla áhugamannaleikhús, sem velti á síðasta ári ekki nema tæpum 2,4 millj., þ.e. útgjöldin voru tæpar 2,4 millj. en tekjurnar 1 080 þús. kr.

Þetta er dæmi sem er nálægt því að vera af hinum endanum, þar sem tekjurnar eru eða ættu að vera, ef þær væru fyrir hendi, allar í formi aðgöngumiðasölu. Þar er þetta næstum því hreinn viðbótarskattur á starfsemina. Það er alveg ljóst að þessi skattur ríður allri slíkri starfsemi að fullu þannig að hún leggst niður í landinu. Ýmiss konar áhugamannastarfsemi og áhugaleikhópar, sem fróðir menn tjá mér að sé helsti vaxarbroddurinn og ég ætti kannski ekki að hafa hátt um það hér í þessum félagsskap, munu engan veginn kljúfa dæmið þegar virðisaukaskatturinn er kominn til. Og alveg sama hvað hæstv. fjmrh. segir um Sinfóníuna og Þjóðleikhúsið og með hvaða reikningskúnstum hann sannar að þetta muni ekki breyta stórlega rekstri þeirra stofnana vegna þess hversu sérstaks eðlis útgjöldin eru á þeim bæjum, enda gerir maður ekki ráð fyrir að jafnvel hæstv. ríkisstjórn, vitlaus sem hún er, hefði treyst sér til að leggja niður Sinfóníuna og Þjóðleikhúsið, er hún greinilega að hefja slíka atlögu að allri frjálsri menningarstarfsemi, af því tagi sem ég hef hér verið að ræða um, að annað eins er ábyggilega fáheyrt ef ekki óheyrt.

Herra forseti. Ég gæti út af fyrir sig rakið þetta miklu, miklu betur og tekið fleiri svona dæmi en ég vona að hv. þm. hafi skilið hvað ég er að fara og átti sig á því að menn eiga ekki að trúa skröksögunni um það að það sé bara allt í lagi með menninguna. Virðisaukaskatturinn sé jafnvel hið besta mál fyrir menninguna. Það er ekki svo. Virðisaukaskatturinn mun ganga af mjög miklum hluta þeirrar menningarstarfsemi, sem ekki er að stórum hluta eða verulegum hluta til ríkisstyrkt eða styrkt með einhverjum öðrum hætti, dauðri. Svo einfalt er það mál. Þetta verður reiðarslag fyrir alla þá menningarstarfsemi sem reynt hefur að hjara í landinu á sjálfstæðum forsendum undanfarin ár. Ef hæstv. ríkisstjórn hefði í tengslum við þessar skattkerfisbreytingar viljað styðja við bakið á menningunni átti hún mjög einfalda leið sem var að undanskilja þessa grein þjóðlífsins virðisaukaskatti með öllu, þannig að ekki aðeins salan heldur líka tilkostnaðurinn væri laus við þennan fjanda.

Herra forseti. Ég vil áður en ég skil alveg við menninguna víkja aðeins að einum anganum enn sem eru áform ríkisstjórnarinnar um að skattleggja bókaútgáfu. Hafi ég sagt áðan, hæstv. menntmrh., að þessi þáttur allur, þ.e. virðisaukaskatturinn á menninguna væri nú einna snautlegastur af öllu fyrir hæstv. ríkisstjórn, þá held ég að ég sé kominn að rúsínunni í pylsuendanum þegar ég minnist á þá útfærslu frv. sem snýr að bókaútgáfu og útgáfu prentaðs máls í landinu. Ein höfuðröksemdin fyrir frv. er að það sé svo einfalt. Þetta sé svo gott af því að þetta sé svo einfalt. Hvernig lítur þetta út í útgáfustarfseminni hv. þm. Kjartan Jóhannsson? Jú, það er þannig að allar þrjár hugsanlegar útgáfurnar eru settar á svið. Blöðin eru undanþegin með öllu, ekki bara sala þeirra heldur og kostnaðurinn sem til fellur við útgáfuna. Allt virðisaukaskattslaust. Gott og vel. Svo koma Samúel og Tígulgosinn og sá geiri með öllu sem honum fylgir. Þar er þetta að hluta undanskilið og siglt bil beggja, þ.e. sala tímaritanna er ekki skattskyld en tilkostnaðurinn er hins vegar virðisaukaskattsskyldur. Svo komum við að bókinni, hv. 4. þm. Austurl., útgáfu hennar á Íslandi á árinu 1988. Hvernig er með það? Þar er allt skattlagt að fullu, jafnvel salan.

Þetta er, herra forseti, svo hroðaleg útkoma fyrir hæstv. ríkisstjórn, svo ofboðslegur svipur á þeirri menningarstefnu sem þarna birtist að ég held að leitun sé að öðru eins. Hef ég þá ekki nefnt að Stjarnan og Stöð 2 og allt það, hvort sem þar heyrist eitt íslenskt orð á sólarhring eða ekki, er auðvitað allt undanskilið. Ekki nokkur virðisaukaskattur á enskar bíómyndir á Stöð 2. En á íslensku bókinni, Laxness og Sturlungu, er virðisaukaskatturinn á fullu alla leið. Þetta er nú menningarstefnan hjá hæstv. ríkisstjórn. (Gripið fram í: Líka á Gullnu fluguna.) Líka á Gullnu fluguna, rétt. Svona ætlar hæstv. ríkisstjórn að efna loforðin um að standa á bak við íslenska tungu. Hver var það sem hélt málþing í Þjóðleikhúsinu og ætlaði að efla íslenska tungu, blés í herlúðra, fékk til liðs við sig listamenn og rithöfunda og hélt glæsilega samkomu í Þjóðleikhúsinu til að efla íslenska tungu? Standa við bakið á íslensku bókinni. Hvað er nú að ske? Það á að afgreiða þetta frv. og gera það að lögum þannig að virðisaukaskatturinn gangi að fullu út yfir útgáfu íslenskra bóka:

Þetta er svoleiðis niðurstaða, herra forseti, að ég á varla til orð, ég verð að segja það alveg eins og er. Kann ég þó nokkuð af íslenskum orðum. Ég trúi því varla að ég standi í þessum ræðustól á þessu ári og horfi framan í þessa niðurstöðu, þessa hroðalegu niðurstöðu hjá hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. Það er von að hæstv. menntmrh. sé heldur dauflegur á svip.

Það er eitt enn í þessu máli, herra forseti. Það er búið að fara þannig með bókaútgefendur og þá sem þeirri starfsemi tengjast undanfarin ár að það tekur varla nokkru tali. Þetta eru hreinustu og örgustu svik sem maður hefur lengi séð framan í vegna þess að þegar baráttumenn fyrir þessari tegund menningar hafa á undanförnum árum verið að sækja á um að fá söluskattinn felldan niður hefur verið sagt við þá: Þetta er hvort sem er bara tímabundið vandamál því að eftir eitt ár eða tvö ár eða þrjú ár kemur virðisaukaskatturinn og þá verður allt skattskylt og engar undanþágur. Þá verða dagblöð, tímarit, sjónvörp, útvörp og allt annað við sama borð. Þá verða allir jafnir og þess vegna skiptir þetta í sjálfu sér ekki máli. Nú sitja menn hins vegar uppi með þessa kostulegu „sorteringu“ hæstv. ríkisstjórnar á hinu talaða og prentaða orði. Þetta er niðurstaðan fyrir íslensku tunguna og íslenska bókaútgáfu. Megi skömm ríkisstjórnarinnar lengi uppi vera ef hún ætlar að láta þetta ganga í gegn.

Í sjötta lagi, herra forseti, er með þessum virðisaukaskatti ætlunin að festa endanlega í sessi fulla skattheimtu af íslenskum matvælum, þar með talið íslenskum landbúnaðarvörum. Þetta er gert eins þótt ljóst sé að niðurgreiðslur á vöruverði, sem þarna eiga að nafninu til í upphafi að koma í staðinn, séu mjög umdeild pólitísk ráðstöfun og það sé vitað að um þær stendur slagur á hverju einasta ári. Þess vegna er það nokkuð ljóst að þær munu fara lækkandi að raungildi og innan tíðar verður virðisaukaskatturinn, hvort sem hann verður 22% eða sjálfsagt kominn upp í 32% eftir fáein ár ef hæstv. ráðherra Jón Baldvin Hannibalsson fær að halda áfram, að fullu kominn fram í verði á íslenskum matvælum. Auðvitað. Enda hefur hæstv. ráðherra ekki farið dult með þá skoðun sína að hann vilji allar niðurgreiðslur feigar. Hér er auðvitað á ferðinni enn eitt stóráfallið fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu og einnig fyrir íslenska neytendur sem þurfa að kaupa þessa vöru dýrara verði.

Herra forseti. Ég gæti farið út í fjöldamargt fleira af einstökum efnum frv. en ég hef kosið að draga út stærstu atriðin til þess að gera mál mitt ekki álit of langt. Ég ætla þá að fjalla nokkrum orðum um málsmeðferðina og vinnubrögðin hjá hæstv. ríkisstjórn.

Það er þannig að stjórnarliðar hafa jafnvel hælt sér af því í fjölmiðlum og hér á þingi að starfa eigi sérstök nefnd í þessu í sumar. Þetta sé svo vandað og fínt hjá þeim að nú eigi bara að samþykkja lögin, svona „pro forma“ næstum að segja. Svo eigi bara alveg sérstök nefnd að vera í þessu í sumar. Þeir hafa kallað þessa nefnd milliþinganefnd, sem er auðvitað rangnefni því grúppa meiri hluta þingmanna og embættismanna þeirra úr ráðuneytunum er ekki milliþinganefnd. Milliþinganefnd heitir svo ef Alþingi setur niður nefnd þm. til að starfa milli þinga, en þetta er hins vegar einfaldlega vinnuhópur á vegum hæstv. ríkisstjórnar með spekingunum innanborðs.

Förum aðeins yfir þetta með nefndaskipanina og hvað það segir í raun og veru um þetta frv. og hvað það þýðir. Það segir ósköp einfaldlega að stjórnarliðar viðurkenna með þessari nefndaskipan, þegar fyrir gildistöku laganna, að þau séu illa unnin hrákasmíð. Þau séu svo illa unnin og það liggi svo ljóst fyrir að það er þegar búið að skipa nefnd til að laga þau til í sumar, svona slípunarnefnd. Ég hef leyft mér, herra forseti, að kalla þessa aðferð „ruslakistuafgreiðsluaðferðina“, ef fyrirgefst að nota svo langt orð, sem gerist nú líklega ekki. Þessi nafngift er komin til af því að hjá hv. stjórnarliðum er það þannig að þegar til funda við nefndir þingsins koma t.d. menn sem hafa ábendingar fram að færa um frv. og stinga upp á úrbótum, eða gagnrýna eitthvað sérstaklega sem þar er inni, segja þessir snillingar, Páll Pétursson og fleiri hv. þm.: Þetta er allt í lagi, við tökum þetta í nefndina. Svo telja menn upp: Þetta er nú vitlaust, já, já, við tökum þetta í nefndina. Svo koma þeir frá Landssambandi veiðifélaga og segja: Hvernig ætlið þið að skattleggja hlunnindin? Þá segja þeir: Við höfum ekki hugmynd um það en við ætlum að athuga það í nefndinni. Svo spyr ég þá: Hvað ætlið þið að gera með reka eða girðingarstaura? Þeir segja: Við höfum ekki hugmynd um það en ætlum að kíkja á það í nefndinni. Og svona gengur þetta. Ég held að listinn í fjh.- og viðskn. Ed. hafi verið orðinn, það er nú best að fletta upp á því, herra forseti, svo maður fari ekki með rangt mál, 11 tiltekin atriði sem átti að athuga í sumar. Á ég að lesa pínulítið fyrir ykkur, hv. þm.?

1. Mat á skattprósentu virðisaukaskattsins. Meira að segja sjálf skattprósentan er óákveðin. Það á að skoða það í sumar í nefndinni.

2. Reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við nýbyggingar eða endurbætur og meiri háttar viðhald á íbúðarhúsnæði og annað sem tengist byggingarstarfsemi. Allt annað í raun og veru sem tengist byggingarstarfsemi í landinu er óklárt og á að skoðast í nefnd í sumar.

3. Reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts af orkugjöfum til hitunar íbúðarhúsnæðis.

4. Um hráefni til fiskvinnslu.

5. Reglur um það hvernig virðisaukaskatti af menningar- og listastarfsemi skuli varið.

Reglur sem tryggja að jafnræði sé í samkeppni einkafyrirtækja og opinberra aðila er 6. atriðið og svo 7, 8, 9, 10 og 11.

Svo tók fjh.- og viðskn. Nd. til starfa. Og hvað gerðist þá? Jú, þetta sama. Það kom hver hópurinn á fætur öðrum til nefndarinnar, að hluta til þeir sömu og að hluta til nýir menn. Hvað gerðist þá? Þá lengdist listinn. Það bættust við ein 10 atriði í viðbót. Ég man þetta nú ekki alveg en hv. frsm. getur nú lesið það upp eða leiðrétt það hérna á eftir. En ætli það hafi ekki verið svona 10 atriði í viðbót sem komu? (PP: Mig minnir að þau séu sjö.) Sjö, já, það skiptir ekki öllu máli. Þá eru þetta orðnir 18 tölusettir liðir sem nefndin þarf að skoða sérstaklega. (SvH: Og endar á íþróttastarfsemi.) Og endar á íþróttastarfsemi, já. En það er eitt atriði sem var alveg á hreinu og menn voru sammála um, meira að segja minni hlutinn, að ekki þyrfti að skoða í nefndinni og það væri nafnið á frv. Það væri alveg brúklegt eins og það væri, þetta gæti heitið virðisaukaskattur. En það er líka eiginlega það eina sem eftir stendur.

Herra forseti. Svo mikið er nú að segja um blessaða málsmeðferðina, sem átti að vera svo óskaplega vönduð og hæstv. fjmrh. hafði sett á um það miklar tölur hvað þetta væri nú allt saman vandað og gott hjá sér. En til þess að olnboga þetta í gegnum þingið þurfti að sætta menn við allt það sem var vitlaust og ómögulegt og ekki var búið að ganga frá. Og það er gert með þessum hætti. Það er búin til ruslakista og sópað er ofan í hana öllum ágreiningsatriðum, öllu sem er óljóst, öllu sem þarf að vinna að betur og þetta er kölluð vönduð afgreiðsla. Þetta eru kölluð vönduð vinnubrögð í lagasetningu. Ja heyr á endemi. Halda menn að það sé bara eitthvert grín að setja lög á Alþingi, t.d. um 22% skatt á alla menningarstarfsemi, það sé bara brandari sem sé ekkert mál? Þetta er allt í lagi, elsku vinir, við ætlum að skoða þetta í sumar. Rétt eins og þessi frumvarpsbálkur á Alþingi væri sendibréf eða dagblaðsgrein. Ég verð að segja eins og er að þetta er hin argasta lítilsvirða við þingið. Þetta er auðvitað ekkert annað. Þetta er hreinasta lítilsvirða, herra forseti. Það er kannski erfitt að víta menn fyrir svona lagað af því að þeir segja ekkert Ijótt en þetta eru auðvitað vítaverð vinnubrögð. Það er algjör skömm hvernig að þessu er staðið. Svo fáum við þetta auðvitað inn hér í haust með næstum því jafnmörgum brtt. og frv. eða lögin eru löng. Það er alveg ljóst. Það verður gaman.

Herra forseti. Það er engin tilviljun hvernig línur skerast í þjóðfélaginu hvað varðar afstöðu til þessa frv. Það er ósköp einfalt. Allir fulltrúar samtaka launafólks sem mættu á fundi fjh.- og viðskn. lögðust gegn afgreiðslu þessa frv.; fulltrúar Alþýðusambands Íslands, fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, fulltrúar Bandalags háskólamenntaðra starfsmanna og aðalfundur Stéttarsambands bænda sl. haust. Öll þessi stóru heildarsamtök stétta í landinu hafa lagst gegn virðisaukaskatti í þessari mynd. Þar fyrir utan hafa fjölmargir aðilar sem tengjast menningar- og listastarfsemi og bókaútgáfu og fleiru hliðstæðu í þjóðfélaginu mótmælt þessum áætlunum sérstaklega. Stuðningurinn kemur hinum megin frá í þjóðfélaginu. Peningamennirnir og stóratvinnurekendurnir nudda saman höndunum af kátínu og bíða eftir að frv. verði samþykkt. En almenningur í landinu og fulltrúar almennings í landinu, fólksins í landinu, biðst undan þessu. Það biðst undan matarskatti og biðst undan skatti á menningu sem eðlilegt er vegna þess, eins og hagfræðingur Alþýðusambands Íslands sagði: Virðisaukaskatturinn hann snýr þyngri endanum niður eins og aðrir hlutir af þessu tagi. Flatur neysluskattur með einni prósentu út yfir allt snýr óumdeilanlega þyngri endanum niður og verður erfiðastur í skauti almennu launafólki, landbúnaðinum, listum og menningu. Það eru því miður naprar staðreyndir sem blasa við.

Að öllu þessu samanlögðu, herra forseti, eins og ég hef nú farið yfir, gat niðurstaða minni hl. varla orðið önnur en að leggjast eindregið gegn þessu frv. og það gerum við í okkar nál.

Það að núverandi söluskattskerfi sé um margt gallað og því sé áfátt í ýmsu réttlætir ekki að taka upp virðisaukaskatt og allra síst virðisaukaskatt með þessu sniði. Margar aðrar þjóðir hafa farið þá leið að laga til sitt söluskattskerfi, sníða af því gallana eða taka upp söluskatt með virðisaukasniði eða útfæra þetta með einhverjum öðrum hætti. Yfirleitt með því að taka upp virðisaukaskatt með fleiri en einu þrepi þannig að hægt sé að styðja við bakið á þeim greinum sem menn svo kjósa, með þeim sundurdrætti sem í því felst.

Þetta frv. er gallað og það er illa undirbúið. Það er til skammar fyrir Alþingi að afgreiða svona hrákasmíð sem fyrir liggur að er ónothæf og þegar á að hefjast handa við að laga frv. til er störfum lýkur á Alþingi.

Að lokum, herra forseti, þá eru með nál. minni hl. birt sýnishorn af þeim fjölmörgu bréfum sem borist hafa frá aðilum tengdum menningarstarfsemi, listum, bókaútgáfu og fleiru, þar sem virðisaukaskattinum er mótmælt. Þessir aðilar eru, svo ég nefni nokkra: Alþýðuleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur, Félag ísl. leikara, stjórn Félags ísl. bókaútgefenda, Rithöfundasamband Íslands, Bókasamband Íslands, þar er einnig ályktun aðalfundar Stéttarsambands bænda á Eiðum, greinargerð frá Bandalagi háskólamanna og svo má áfram telja. Allir þessir aðilar og reyndar fjölmargir fleiri, sem ekki vannst í rann og veru tími til að setja inn í nál., hafa ýmist komið til fjh.- og viðskn. eða sent þangað erindi sín í einu eða öðru formi og mótmælt þessum virðisaukaskatti. Það eru því mikil öfugmæli sem stundum hafa heyrst að um málið sé einhver pólitísk samstaða í landinu.

Að síðustu, herra forseti, mæli ég fyrir brtt. sem ég flyt við frv., ekki til þess að gera það alfullkomið heldur til þess að reyna, ef þess væri einhver kostur, að afstýra stærstu slysunum sem hér virðast hljóta að verða.

Það er í fyrsta lagi að undanskilja menningarstarfsemina, sem yrði nánar skilgreind í reglugerð, að höfðu samráði við menntmrn. og samtök listamanna.

Í öðru lagi að undanskilja sölu bóka. Bæta einum tölulið við 2. gr. frv. og undanskilja sölu bóka þannig að meðferð bóka í þessu sambandi yrði hin sama og meðferð tímarita. Minna má varla gagn gera.

Í þriðja lagi eru ákvæði er varða það að undanskilja þá sem bjóða upp listmuni.

Og í fjórða lagi að breyta 12. gr. þannig að sala á matvörum verði undanþegin virðisaukaskatti. Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu, a.m.k. að sinni.