10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7879 í B-deild Alþingistíðinda. (6026)

431. mál, virðisaukaskattur

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Það gleður mig að vísu að hæstv. fjmrh. skuli vera staddur í þingsölum. Ég hefði ekki óskað eftir að hann yrði sóttur, þó svo væri ekki, því við höfum þegar átt orðastað um þetta, bæði innan þings og utan. Öllu athyglisverðara þykir mér að hæstv. menntmrh. er ekki staddur hérna og hefur, eftir því sem ég best veit, harla lítið verið viðstaddur umræðu um þetta mál. Ég mun ekki óska eftir því að hann verði sóttur þar sem ég álít að hann mundi vera hér af eigin hvötum, ef hann hefði á málinu áhuga.

Það er nú rúmur sólarhringur þangað til þingi lýkur og það er til marks um vinnubrögð að hér er í gangi 2. umr. um frv. um virðisaukaskatt á elleftu stundu. Er reyndar umhugsunarefni fyrir þing og þjóð, þ.e. fyrir alla aðra en þá sem í krafti valds geta fengið vilja sínum framgengt, hve litil virðing kjörnum fulltrúum þjóðarinnar og þar með þjóðinni allri er sýnd í meðferð þessa máls. Lögin eiga að taka gildi eftir rúmt ár, en samt liggur svona mikið á að láta Alþingi leggja blessun sína yfir þau núna. Það er að vísu til eftirbreytni að hafa góðan fyrirvara á málum og ætla sér tíma til að undirbúa kerfisbreytingar sem nauðsynlegar eru, t.d. í þessu tilfelli. Hér fylgir þó böggull skammrifi. Nánast allir þættir frv. eiga að vera til nánari athugunar í nefnd í sumar sem á að gera brtt. sem væntanlega verða lagðar fyrir þingið í haust. Því veit enginn í raun hvað verið er að samþykkja. Það er boðað að nefndina eigi að skipa embættismenn og stjórnarliðar. Þeir hafa þegar ákveðna sýn á frv. og er þessi aðferð við skoðun laganna og áhrif þeirra nánast yfirlýsing um að stjórnarandstöðu, eða öðrum þeim sem kunna að hafa skoðanir á frv. sem eru ekki þóknanlegar, komi málið ekki við.

Því er enn fremur haldið fram að það að leggja frv. fram núna og keyra það í gegn séu vönduð vinnubrögð til að ekki sé nú flanað að neinu. En þegar litið er yfir listann sem fylgir með um öll þau atriði sem nefndin á að endurskoða og taka til nánari athugunar er þar nánast öll atriði frv. að finna. Ég ætla ekki að þreyta þingheim með því að lesa upp þennan atriðalista. Ég gerði það raunar við 1. umr. og hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði það hér áðan svo á því mun ekki þörf.

Það var athyglisvert að fylgjast með þeim aðilum sem komu til viðtals við fjh.- og viðskn. Nd. en þar á ég nú sæti í stað Kristínar Halldórsdóttur fyrir hönd Kvennalistans. Þeir sem lýstu stuðningi við frv. voru allt fulltrúar atvinnu- og efnahagslífs. Gerðu þeir þó allir einhvern fyrirvara í máli sínu og í reynd má draga saman í eina setningu það sem þeir sögðu hver með sínum hætti: Við erum samþykkir frv. í heild en vildum gjarnan sjá þessa lagfæringu fyrir okkur. Síðan nefndi hver sína ástæðu fyrir þeirri beiðni. Þetta voru m.a. fulltrúar iðnrekenda, útgerðarmanna, iðnaðarmanna og bænda. Þeir sem voru andvígir frv. voru aftur á móti launþegasamtökin í landinu sem héldu því fram sem einn að virðisaukaskattur kæmi almennu launafólki illa og væri ekki til hagsbóta fyrir það. Nefndu þeir aðallega að með þessu væri matarskatturinn festur í sessi og hann bitnaði harðast á þeim efnaminni. En það eru engar fréttir fyrir okkar kvennalistakonur sem höfum ásamt öðrum stjórnarandstæðingum haldið uppi harðri baráttu gegn matarskatti með sömu rökum.

Óbeinir skattar sem leggjast jafnt á alla án tillits til efnahags eru óvenjustór hluti af tekjuöflunarkerfi íslenska ríkisins miðað við önnur lönd og var síst þörf á að auka þann hluta tekjuöflunarkerfisins meðan öllum leiðum til að jafna tekjur með skattheimtu er staðfastlega hafnað. Augljósara getur það ekki verið hverra hag hæstv. ríkisstjórn ber fyrir brjósti. Þeir efnameiri mega halda sínum hlut sem mestum, en í pyngju þeirra efnaminni skal seilst. Á sama tíma er því sama fólki neitað um lágmarkslaun fyrir 40 stunda vinnudag og skömmtuð smánarlaun langt fyrir neðan það mark sem vegur er að nægi til framfærslu.

En þá er líka komið að fagnaðarerindi hæstv. fjmrh. Allt þetta skaltu fá - undanskilið, ef þú fellur fram og tilbiður mig - í bótum. Hvers lags eiginlega forræðishyggja er þetta? Mér er ljóst að hæstv. fjmrh. kallar þetta velferðarríki. Er það hans hugmynd um velferðarríki að þeir þegnar landsins sem með undarlegum hætti eru dæmdir niður fyrir framfærslumörk sæki sína framfærslu til ríkisins? Hvað verður um sjálfsvirðingu þess manns sem meinað er að sjá fyrir sér með afrakstri vinnu sinnar og er gert að fara í hlutverk þiggjanda sí og æ og sækja sér bætur? Og hversu vel þjónar sá hinn sami þessu þjóðfélagi ef sjálfsvirðing hans bíður hnekki? Er hann að fullu ábyrgur þjóðfélagsþegn? Getum við vænst þess besta af honum og vinnu hans? Er það kannski framtíðarsýn hæstv. fjmrh. um velferðarþjóðfélagið að hér alist upp fólk með svo skerta sjálfsvirðingu að enginn vandi verði að stjórna því, stinga upp í það dúsum, hálfvegis að gefa til kynna að vinnuaflið sé ekki meira virði en svo að það taki því ekki að borga því, en svo verði líklega að styrkja greyið? Þessi aðferð hefur reynst talsvert áhrifarík við konur, að vanmeta störf þeirra innan heimilis og utan, hamra nógu lengi á því að vinnuframlag þeirra sé lítils virði, með þeim afleiðingum að þær treysta sér ekki til þess að sækja rétt sinn. En hafi það farið fram hjá hæstv. ríkisstjórn er ástæða til þess að benda henni á að konur eru nú óðum að varpa af sér oki vanmats og vanvirðingar og sækja nú alls staðar fram, reiðubúnar að varpa fyrir róða fyrra mati, fyrri gildum, neita að hlusta og hlýða og ætla sér að breyta þessu þjóðfélagi, endurmeta og endurbæta með eigin hag og annarra, sem minna mega sín, í huga. Svo mun einnig verða með það bónbjargarfólk velferðarríkisins sem hæstv. fjmrh. sér í sinni framtíðarsýn, en því hærri sem varnargarðar ríkjandi kerfis eru, því meira vatn safnast bak við þá og þeim mun sterkari verður flóðbylgjan þegar hún brýst fram. Öllu sem hefði mildað aðgerðir, svo sem fleiri þrep í virðisaukaskatti, lægri eða engin álagning á nauðþurftir og fleira í þeim dúr, er hafnað. Því versta og mesta sem hægt er að finna í reynslu annarra þjóða er safnað saman og dengt yfir íslensku þjóðina, hæstu prósentunni, einu skattstigi, engar undanþágur á nauðþurftir fólks og svo fylgir menningin með í ofanálag. Lítið leggst nú fyrir kappana. Saman safnaðir útlendir ósiðir skulu það vera. Við höfum misstigið okkur áður í slóðum sem útlendingar hafa troðið fyrir okkur.

Því nefni ég þetta hér að ég hef orð ábyrgra manna fyrir því að íslenska frv. um virðisaukaskatt sé sniðið eftir dönskum lögum. Þar er að finna eina fordæmið á Norðurlöndum fyrir því að skattleggja menningu á þann máta sem er lagt til í því frv. sem er til umræðu. Er það þjóðin sem við ætlum að sækja til ráð í menningarmálum? Sú var tíðin að við börðumst gegn ofríki Dana hér á landi og losuðum okkur undan því oki með menninguna að vopni. Það var menningarvakning íslensku þjóðarinnar sem varð best veganesti í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Sú vakning varð helst fyrir tilstilli skálda og annarra andans manna, hverra nöfnum er enn haldið á lofti þegar góðra manna er getið.

Enn mun svo að innlend sköpun og menning er notadrýgst í því að varðveita sjálfsvirðingu íslenskrar þjóðar og sjálfstæði. Og þó nú sé sótt að sjálfstæði okkar úr öðrum áttum en úr Danaveldi ætti viðureignin við þá að vera okkur lýsandi fordæmi. Manni virðist að svo gjörsamlega séu menn nú slegnir frjálshyggjublindu þar sem engin rök eru gild nema fjárhagsleg og gildir þó einu þó þau séu fjandsamleg Íslandi og íslenskri menningu og mennt að fátt sé til varnar nema efling íslenskrar menningar og menntunar. Sú staðreynd er hins vegar óðum að gleymast hjá ráðamönnum. Svo rækilega hafa þeir gleymt menningunni að engum þeirra datt í hug að kalla listamenn til viðtals varðandi frv. Það má vissulega bera listamönnum sjálfum á brýn andvaraleysi en þeir eiga sér þó málsbætur.

Um langt skeið börðust listamenn fyrir því að fá felldan niður söluskatt af aðgangseyri að listastarfsemi. Það tókst eftir langa baráttu að fá undanþágu og um sl. áramót var sú undanþága fest í lögum, lögum sem afléttu söluskatti af menningunni. Listamenn höfðu orð málsmetandi manna fyrir því að ekki yrði lagður aftur skattur á menningu í formi virðisaukaskatts. Það gerði fulltrúi hæstv. menntmrh. á fundi sem leiklistarfólk hélt hér í nóvember. Hæstv. menntmrh. sjálfur gat ekki verið viðstaddur. Það gátu aðrir ráðherrar ekki þó að til fundarins væri boðað með það fyrir augum að ná eyrum þeirra manna. En þessi maður sem sagðist tala í umboði menntmrh. lofaði því að sá skattur yrði ekki lagður á. Hæstv. fjmrh. segir í dag að hann geti ekki verið ábyrgur fyrir orðum manna úr menntmrn. og sannast nú enn sem fyrr að það virðist vera lengri leið úr fjmrn. yfir í menntmrn. en milli Grímsness og Súdan.

Að þessum orðum viðhöfðum trúðu listamenn þessu og uggðu ekki að sér, náðu því aldrei tali af þm. áður en málið fór í gegnum Ed. en náðu í endann á fjh.- og viðskn. Nd. Þá er sagt að það sé orðið of seint, breytingar ekki samþykktar nú, en málið verði tekið til athugunar í sumar.

Fara nú hjólin að snúast hratt, en áður en ég sný mér að atburðarás síðustu daga legg ég áherslu á að eftir stendur að mönnum datt í hug að leggja skatt á listastarfsemi og þeim datt það ekki bara í hug, þeir framkvæmdu það. Það er í sjálfu sér áfellisdómur yfir þeim mönnum sem að frv. standa. Verðmætamat þeirra birtist í frv. og það birtist mjög skýrt í þeim lista frv. sem er yfir undanþágur. Og til samanburðar við þá menningarstarfsemi sem nú sækir hart að reyna að fá sömu undanþágur verður manni auðvitað litið á undanþágur til íþrótta, þ.e. íþróttaleikja og íþróttasýninga, og undanþágur til sölu tímarita. Ef þetta er ekki lýsandi dæmi um menningarlegt verðmætamat veit ég ekki hvar finnast skýrari dæmi, enda er núna brugðist hart við og pappírarnir fjúka út úr tölvunum þar sem menn í fjmrn. eru óðum að reikna sig í átt að þeirri niðurstöðu að virðisaukaskattur sé listastarfsemi landsins til hagsbóta. Mikill er máttur tölvunnar. Til vonar og vara láta þeir fylgja með þessum tölvuplöggum sínum ýmis orð um að ef þetta reynist listinni þungt í skauti séu ýmsar leiðir til að kippa því í lag.

Ég hef hér meðferðis plagg sem var tekið saman í fjmrn. og þykist maður sums staðar kenna orðalag hæstv. fjmrh. en tölulega hliðin er að öllum líkindum runnin undan rifjum hans helsta aðstoðarmanns. Ég ætla ekki að lesa plagg þetta allt upp en langar að grípa niður í það eftir því sem þörf krefur.

I. kaflinn hljóðar svo:

„Áhrif VASK [en það er mjög geðsleg skammstöfun fyrir virðisaukaskatt, VASK] á sölu aðgöngumiða, á kostnað við leikhús, tónleikahald o.s.frv. ræðst fyrst og fremst af tvennu, þ.e. því hvað aðgöngumiðasala er stór hluti tekna og því hve keypt aðföng eru stór hluti útgjalda. Ekki er gert ráð fyrir að framlög opinberra aðila, svo sem rekstrarframlög til leikhúsa, sinfóníuhljómsveitar o.s.frv. eða styrkir til hliðstæðrar starfsemi í fjárlögum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga verði skattstofn. [Það eru í sjálfu sér ánægjuleg tíðindi.] Skattstofninn verður því sala aðgöngumiða og veitingasala í tengslum við sýningar. Í starfsemi þessari eru kaup á aðföngum breytileg að tiltölu, en í flestum tilfellum veruleg.“

Og þarna kemur fyrsta dæmið um vanþekkingu. Mjög margt í þessu plaggi ber vott um þessa vanþekkingu. Á þetta er lagður sá mælikvarði sem gildir fyrir flest venjuleg fyrirtæki sem lúta venjulegum markaðslögmálum en fátt bendir til að þarna sé þekking á innanhússvandamálum þeirra sem reka menningarstarfsemi. Það er sjálfsagt báðum aðilum að kenna. Þeir talast ekki nógu oft við og þá kannski oftar til þess að bítast en til þess að skiptast á upplýsingum.

Áhrif VASK-skattsins eru auðvitað veruleg. Í þeim dæmum sem hér eru tekin hefur að vísu tekist að reikna dæmi Þjóðleikhússins þannig að fjárþörf þess muni minnka um 600 þús. kr. Þessar tölur vefengir að vísu þjóðleikhússtjóri og mætir með annað plagg máli sínu til sönnunar. Munurinn á þessum tveimur plöggum er sá að plaggið frá fjmrn. mun byggja á áætlunum, en plaggið frá Þjóðleikhúsinu byggir á tölum frá 1987. M.ö.o. er í plagginu frá fjmrn. gert ráð fyrir að þetta muni í rauninni minnka útgjöld Þjóðleikhússins um 600 þús., þ.e. að afkoma þess batni um 600 þús. Í plaggi þjóðleikhússtjóra telst honum til að fyrir árið 1987 hefði Þjóðleikhúsið greitt rúmar 8 millj. kr. í virðisaukaskatt. Ef við bætum ofan á það 30%, sem mun vera nærri lagi, er þessi tala komin upp í 101/2 millj. í dag. Hver hlutur söluskatts er í þessum tölum veit ég ekki að svo stöddu, það væri of mikið mál að reikna það út á svo skömmum tíma, en það mun vera minna að verulegu leyti en þessar tölur gefa til kynna. Þeir hafa þegar tekist eitthvað á um þessar tölur, fulltrúi fjmrn. og hæstv. fjmrh. og þjóðleikhússtjóri, og er ekki alveg séð fyrir endann á því hvor hefur réttar fyrir sér í reikningskúnstunum. Það er hins vegar ljóst að þær forsendur sem hér eru í þessu plaggi fjmrn. eru ekki réttar og ber nú að hafa í huga að þegar menn gera áætlanir um rekstur þora þeir auðvitað ekki að áætla of hátt um sölu aðgöngumiða, þora ekki að sýna í því fyllstu bjartsýni og eru kannski fullsvartsýnir í útgjöldum. Þykja það sjálfsagt meiri búhyggindi en að ætla alla hluti um of á jákvæðu hliðinni. Sem dæmi vil ég taka að hér er gert ráð fyrir að tekjur Þjóðleikhússins af aðgöngumiðasölu séu 53 millj., þ.e. sala vöru og þjónustu. Það innifelur þá alla sölu Þjóðleikhússins, væntanlega leikskrá líka og aðra slíka hluti. Þetta er áættað 53 millj. Mér reiknast til að það muni vera um það bil 50 þús. áhorfendur. Ég held að það hafi ekki gerst í sögu Þjóðleikhússins að áhorfendur hafi verið svo fáir. Áhorfendafjöldinn hefur legið á bilinu 80–120 þúsund þegar best hefur látið en ekki nokkurn tíma nálgast þessa tölu þannig að sú upphæð sem VASK reiknast af sem Þjóðleikhúsið á að borga er hér stórlega vanáætluð. Ekki er því alveg mark takandi á þessari jákvæðu útkomu sem hér verður. Læt ég þetta nægja um Þjóðleikhúsið í bili og ætla að halda aðeins áfram að feta mig í gegnum þetta plagg.

Í kafla þar sem fjallað er um opinberar stofnanir með talsvert löngum útskýringum, sem ég hef þegar í rauninni tæpt á í þessu máli núna um Þjóðleikhúsið, þessi kafli er um Þjóðleikhús og Sinfóníu aðallega, segir: „Skattur sem þessum stofnunum verður gert að greiða verður því frá því að vera 3%, þ.e. endurgreiddur innskattur, og upp í 6–7%. Líklegustu niðurstöður eru í nánd við núll.“ Þar sem þau rök eru í þessu sama plaggi nú þegar fallin um sjálf sig fjölyrði ég ekki meira um það en þó mun ljóst að þessar tvær stofnanir sem þarna eru tilteknar munu að öllum líkindum fara hvað skást út úr þessari skattlagningu.

Hér kemur kafli sem heitir Önnur starfsemi og hann byrjar með þessum ágætu orðum: „Upplýsingar um samsetningu kostnaðar og útgjalda liggja ekki fyrir.“ Samt er ekki hikað við að draga ályktanir. „Ætla má að sölutekjur séu almennt stærri þáttur en hjá opinberum stofnunum. Hins vegar má einnig gera ráð fyrir að launakostnaður sé þar almennt minni þar sem mikið er um sjálfboðavinnu og launagreiðslur líklega lægri.“ Þetta er nú alveg rétt.

Síðan segir: „Ljóst er að mikið af hinni frjálsu listastarfsemi, svo sem kórastarfsemi, einstakir tónleikar og leiksýningar á vegum áhugahópa o.s.frv., er þess eðlis að auðgert ætti að vera að halda því utan skráningar og skattskyldu.“ Þetta skýtur strax skökku við þar sem ein helstu rök fyrir því að sá háttur er ekki hafður á í frv. er að hafa undanþágur sem flestar og forðast skilgreiningar á hvað teljist til menningar og hvað ekki. Svo hvaða leiðir er þarna verið að tala um sem hljóma svona, „auðgert ætti að vera að halda því utan skráningar og skattskyldu“, veit ég ekki en vonandi fæst það upplýst í haust þegar nefndin hefur lokið störfum. „Enn fremur er sá kostur fyrir hendi að veita þeim aðilum sem starfa í samkeppni við hliðstæðar opinberar stofnanir, svo sem frjálsum leikhúsum, styrki sem svarar til þess sem skattgreiðslur þeirra kunna að verða.“ Guð láti gott á vita. Listamenn hafa hins vegar staðið andspænis því áratugum saman að hlusta á loforð um aukna styrki og ég held að enginn þeirra trúi því fyrr en hann tekur á að þau loforð séu efnd. Auk þess sem ef ætti að mæta þeim álögum, sem nú eru lagðar á menningarstarfsemi, með styrkjum þyrfti sú hækkun að vera svo stórfelld að ég er ekki farin að sjá að það nái fram að ganga. Rökin fyrir því að búið sé að opna fyrir undanþágustrauminn, ef reynt er að skilgreina menningu hér í þessu plaggi, verða þá nákvæmlega þau sömu. Ef á að hækka styrki til menningarstarfsemi um 60–70% eins og víðast virðist vera þörf á er hætt við að erfitt yrði að stöðva þann straum líka í beiðnum um hækkun á fjárlögum.

En fyrst við vorum komin að skilgreiningunni er hér mjög athyglisverður kafli í þessu plaggi frá fjmrn. sem hljóðar svo: „Útilokað er af skilgreiningarástæðum að undanskilja aðgöngusölu að menningarstarfsemi almennt.“ Útilokað er. Svo er spurt: Hvar liggja mörkin? Hvar liggja mörkin í leiklist á sviði sem spannar drama, farsa, kabarett, revíur, Þórskabarett, Halla og Ladda og dillibossasýningar? Eða í tónlist með allt frá sinfóníum gegnum létta tónlist, jass, ljóðatónlist, dansmúsík og rokk til skallapopps? Það er ekki von að ráðamönnum farnist vel í svona frv. eins og þessu þegar þeir treysta sér ekki í þær skilgreiningar sem nauðsynlegar eru varðandi menningarstarfsemi í landinu. Þó eru þeir að skilgreina aftur og aftur með því að segja: Auðvitað verður þess gætt að menningin, innan gæsalappa, fari ekki halloka. En því treysta þeir sér ekki til að gera það innan frv.? Því treysta þeir sér ekki til að skilgreina opinberlega hvað þeir telji nauðsyn þessari þjóð til að halda uppi hér íslenskri menningu og hvað megi liggja óbætt hjá garði? Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. að það er engin ástæða til þess að skemmtanaiðnaður landsins eins og hann leggur sig sé undanþeginn virðisaukaskatti en ég er ekki sammála þeim skilningi sem hér kemur fram þar sem hann rökstyður virðisaukaskattinn og skattlagningu á menninguna í þrem liðum. Sá fyrsti hljóðar svo:

„Áhrif á beina fjárhagslega stöðu þeirrar menningarstarfsemi sem styrkt er af opinberri hálfu og hliðstæðrar starfsemi yrði óveruleg og auðgert að bæta stöðu þessara aðila að því marki sem á þá kann að halla.

2. Ríkissjóður yrði fyrir verulegu tekjutapi vegna skattfrelsis skemmtanaiðnaðar sem veltir hundruðum milljóna.

3. Njótendur undanþáguleiðarinnar yrðu fyrst og fremst jöfrar skemmtanaiðnaðarins. Þeir nytu óbeinna ríkisstyrkja sem yrðu margfaldir á við hugsanlegar skatttekjur af menningarstarfsemi í þrengri skilningi. [Og þarna er búið að skilgreina menningarstarfsemi í þrengri skilningi.] Sá styrkur mundi skerða samkeppnisaðstöðu menningarstofnana gagnvart þeim og draga úr getu ríkissjóðs til að efla menningarstarfsemi.“

Þetta er að mínu viti ekkert annað er orðavaðall til að draga fjöður yfir þá staðreynd að menn vilja ekki út í þessa skilgreiningu og það hvarflar að manni að menn hliðri sér hjá skilgreiningu vegna þess að þeir haldi að það muni e.t.v. valda þeim óvinsældum hjá einhverjum hluta þjóðarinnar sem nú hefur tekið þá trú að skrípaleikir á við Eurovision og aðra álíka menningarstarfsemi sé jafngildir og jafnnauðsynlegir íslensku mannlífi eins og það sem við köllum íslenska sköpun og íslenska liststarfsemi. Og mig grunar að ráðamenn séu að hliðra sér hjá því að skilgreina þetta frammi fyrir fólki og vilji hlífa sér á bak við eitthvert frjálslyndistjald þar sem allt er jafngilt því að sjálfsagt telja þeir sig tapa atkvæðum á því að ganga fram fyrir skjöldu og segja einarðlega hvað þeir haldi að þessari þjóð sé nauðsynlegt í menningarmálum, því þeir geta það. Þeir gera það aftur og aftur í þessu plaggi. Þeir skilgreina aftur og aftur en þeir vilja bara ekki láta skjalfesta það.

Í ljósi þess sem sagt er hér aftur og aftur, að þau fjárútlát sem þetta kosti menningarstarfsemi í landinu séu óveruleg, skulum við líta aðeins nánar á það. Ég hef að vísu gert það mjög ítarlega í ræðu í 1. umr. en samkvæmt því að góð vísa sé ekki of oft kveðin ætla ég að gera það aftur og enn nákvæmar en ég gerði síðast því að nú hafa borist náttúrlega tölur sem ekki lágu fyrir þá þannig að þá talaði ég meira af tilfinningu en þekkingu, en þá þekkingu þykist ég þó hafa á þeim málum að tilfinning mín hafi verið nokkuð rétt.

Vil ég þá fyrst snúa mér að Leikfélagi Reykjavíkur sem hefur gert yfirlit yfir það hvernig VASK - maður getur varla tekið sér þetta í munn, þetta er svo ljótt, VASK - mundi koma út fyrir þeirra starfsemi. Til upplýsingar skal þess getið að hér er notuð sama reikningsaðferð og fjmrn. notar til þess að reikna Þjóðleikhúsið niður í núll og aðra niður í óverulegt. Í núgildandi söluskattskerfi greiðir Leikfélag Reykjavíkur rúma eina milljón í söluskatt, þ.e. af þeim útgjöldum sem þeir hafa af vörum sem þeir borga söluskatt af er söluskatturinn rúm milljón, 1,1 millj. Í VASK-kerfinu er þessi tala svipuð en þar er komin miðasala, sem áður er án skatts og er upp á 74 millj., þar er kominn virðisaukaskattur upp á 6,1 millj. Breytt tekjuþörf Leikfélags Reykjavíkur er því 6 millj. Útgjöld þess voru samtals, samkvæmt söluskattskerfinu, 80,3 millj. en verða með VASK-kerfinu 86,2 millj. Þetta er áætlun og hún er reiknuð með sömu reikningsaðferðum og fjmrn. notar. Hún er auðvitað ekki staðreynd þar sem þetta er áætlun en það sem helst einkennir hana eru ofreiknuð útgjöld og vanreiknuð aðgöngumiðasala til þess að sýna varkárni. Ekki verða því tölurnar hagstæðari, sjálfsagt, þegar raunveruleikinn blasir við. Svo mikið um Leikfélag Reykjavíkur.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti nokkuð vel áðan þá aðstöðu sem frjálsir leikhópar mundu komast í og æ verr fellur manni að taka það sér í munn að kalla þá frjálsa leikhópa. Það ætti kannski að fara að skjóta þessu máli til nýyrðanefndar. Nei, hvað heitir nefndin uppi í Háskóla sem býr til nýyrðin? Nú horfi ég á hv. þm. Sverri Hermannsson. Hvað heitir hún aftur? Sem finnur upp nýyrðin? Jæja, það skiptir ekki máli. Þið vitið hvaða nefnd ég meina. Þetta er alla vega svo mikið öfugmæli að kalla þessa hópa frjálsa. Það verður að fara að finna eitthvað betra. (Gripið fram í: Íslensk málnefnd.) Íslensk málefnd, já. Eða listamenn sjálfir, þeir eru nú vanir að vera snöggir við svona hluti. Þeir ættu náttúrlega að gera það bara sjálfir.

Hvatningin sem þeir fá, þessir frjálsu leikhópar, með þessum lögum er að kosta sem mestu til við sýningar, þ.e. af því fé sem þeir hafa til umráða sem er nú ekki mikið, og launa sem minnst vegna þess að þeir fá endurgreiðslur af þeim útgjöldum sem þeir verða að standa í vegna hráefniskaupa, þ.e. efnis í leikmynd og búninga og annað sem til fellur. Þar geti þeir því náð inn hluta fjárins aftur en ekki með því að greiða laun og er nú ekki úr háum söðli að detta því að í öllum þessum hópum hefur fólk meira og minna unnið launalaust. Hafi það fengið laun hafa það verið einhverjar fáar krónur til málamynda, rétt til þess að sýna lit en ekki laun sem nokkur maður hefur getað lifað af. Ég veit ekki hvort þeir menn sem standa að frv. hafa nokkurn tímann sjálfir staðið í þeim sporum, vegna ástar á vinnu sinni, að ákveða að leggja eigin fjárhag og fjölskyldu sinnar í rúst með því að leyfa sér að vinna að því sem þeim þykir vænt um og sem þeim þykir þörf á launalaust mánuðum og jafnvel árum saman. Þeir ættu kannski að komast í það einu sinni svo að þeir töluðu af meiri skilningi og legðu ekki fram svona plögg sem viska því til hliðar eins og smámáli að leggja skatt á þessa starfsemi. Þarna liggur þó sá vaxtarbroddur sem íslenskt leikhús byggir á. Sá vaxtarbroddur er í áhugamannastarfseminni úti um allt land og hann er í þessum smáhópum þar sem uppeldisstarf fer fram, bæði á áhorfendum og þeim listamönnum sem síðar eiga að standa undir listalífi þessarar þjóðar. Þar fá höfundar að spreyta sig, þar spreyta sig ungir leikarar, leikstjórar, leikmyndateiknarar, tónlistarmenn. Allt þetta skilar sér áfram inn í menningarstarfsemi okkar lands. Það er of mikill fjármagnskostnaður í stórum leikhúsum til þess að taka mikla áhættu og þess vegna er reyndin sú að áhættan er frekar tekin með óreynda hluti og óreynt fólk í þessum litlu leikhópum og í áhugamannafélögum. Ef nú á að drepa þessa starfsemi veit ég ekki hvaðan þið ætlið að taka úrræði til þess að bæta íslensku leikhúsi þann missi. En þau úrræði skuluð þið koma með og koma með þau hérna upp í stólinn og segja okkur frá þeim.

Við búum við þá sérstöðu hér á Íslandi að það er almennur áhugi hér á því sem fram fer í lista- og menningarlífi. Það er styrkur þessarar þjóðar og það er líklega eina ástæðan fyrir því að við búum hér í þjóðfélagi sem kallar sig sjálfstætt þjóðfélag að við höfum og byggjum á þessari almennu þátttöku fólks í lífi og starfi þjóðarinnar sem birtist hvað helst í sköpun hennar hvar sem hún fer fram. Ef við ættum nú að láta þessari starfsemi það eina úrræði eftir að hækka aðgöngumiða þá skulum við huga vel að afleiðingunum. Þeir menn sem nú standa fyrir þessari starfsemi geta trútt um talað, þeir vita það nú þegar að það gerist í æ ríkara mæli að fólk snýr frá miðasölu þó það sé þangað komið vegna þess að það treystist ekki til að borga það verð sem nú er upp sett. Það er komið að þeim mörkum að það verður ekki hærra farið. Þetta verður ekki bætt í hækkandi miðaverði nema því einungis að það verði í rauninni tekin upp sú stefna að koma upp menningarlegri stéttaskiptingu í landinu. Að við öpum þá ósiði líka eftir erlendum þjóðum að skipta þjóðinni í hópa eftir efnahag og mismuna fólki þannig með tilliti til þess hverrar menningar það fær notið. Ef sú yrði raunin er það mjög afdrifaríkt og ekki víst hvort aftur verður snúið af þeirri stefnu og spurning er hvort við höfum ekki þegar að hálfu misst af þeirri lest.

Næst verður fyrir mér tónlistarstarfsemi. Þar verður dæmið enn verra vegna þess að ekki geta þeir státað að miklum aðföngum. Þegar tónlistarmenn halda konserta, sem er urmull af, byggir það einungis á þeirra eigin vinnuframlagi sem þeir fá sjaldnast greitt en þó er sú eina von, sem þeir eygja í því að fá greitt fyrir þá vinnu, sá aðgangseyrir sem þeir fá á konsertinum. Ef þeir eiga að greiða af því 22% virðisaukaskatt, því þarna kemur sáralítið til frádráttar, við skulum segja 20% til að vera sanngjörn — ef af þessum aðgangseyri þarf að taka 20% eru horfin þau litlu laun sem þetta fólk hefur haft hingað til fyrir þá vinnu. Þá höfum við kannski Sinfóníuhljómsveitina eina og ef við höldum að það nægi skulum við endilega taka þessi skref og þessar ákvarðanir og láta okkur það nægja. En það gildir allt það sama, eins og ég sagði áðan, um stofnanir þjóðfélagsins, þ.e. stærri ríkisstyrktar stofnanir þjóðfélagsins og frjálsa hópa áhugastarfsemi, það sama gildir líka í tónlistinni. Vaxtarbroddarnir eru utan stofnana og hafa alltaf verið og munu alltaf verða og það er ekki sagt stofnunum til hnjóðs og enginn vill þær feigar. Þetta er bara staðreynd sem við verðum að þekkja og ekki síst þeir sem taka ákvarðanir í fjármálum um listastarfsemi þjóðarinnar. Þessar staðreyndir verða þeir að þekkja áður en þeir leggja til svo afdrifaríkar breytingar, eins og hér er, og raunar áður en þeir eru að ákveða á fjárlögum hvað listastarfsemi skuli skammtað.

Um ýmsa starfsemi á áhugamanna„basis“ gildir í rauninni nákvæmlega það sama og um þessa svokölluðu frjálsu listastarfsemi í landinu. Það er bitamunur en ekki fjár á þeim fjárráðum sem fólk hefur þar á milli handanna. Munurinn liggur fyrst og fremst í að í öðru tilfellinu eru atvinnumenn á ferð en í hinu tilfellinu áhugamenn, en þeir eiga það sameiginlegt að þar er unnið við vond skilyrði og bág kjör. Þeir eiga það líka sameiginlegt að vera sá akur sem sáð er í fræjum sem seinna bera þann ávöxt sem við köllum íslenska list, íslenska menningu.

Þá verður hér næst fyrir mér Íslenska óperan. Forráðamenn Íslensku óperunnar hafa látið þau orð falla að komist þessi virðisaukaskattur á þurfi ekkert að orðlengja það meir, þar verði lokað. Ég held að það sé ekkert orðum aukið og nú ætla ég að biðja hæstv. fjmrh. að hlusta því að hann hefur vit og áhuga á tölum.

Svo að dæmi sé hér tekið af uppfærslu Íslensku óperunnar á Aidu sl. ár eru hér tölur til upplýsingar: Fyrir aðgöngumiðasölu komu inn 18 millj. kr. Af því þyrfti núna að greiða 4 millj. í virðisaukaskatt. Kostnaður við uppsetningu þessarar sýningar var, með 25% söluskatti, 1,8 millj. kr. Þar af var söluskattur 376 þús. kr. Það ætti að vera auðgert að draga þessi 376 þús. frá 4 millj. Útkoman yrði 3,6 millj. og eitthvað. Þetta er sú gjaldaaukning sem hefði orðið í uppfærslu Íslensku óperunnar á Aidu og það er alveg sama hvernig menn reyna að reikna það fram og til baka. Þetta eru bara einfaldar staðreyndir, svo að menn eru að taka hér ákvörðun um það að leggja Íslensku óperuna niður. Þeir eru ekkert að taka ákvörðun um að sjá til. Þeir eru að taka ákvörðun um að leggja hana niður og hvar er þá grundvöllur fyrir íslenska söngvara sem núna eru kannski hvað fyrst að uppskera eftir áratuga starf kollega sinna sem unnu þar brautryðjendastarf, náðu aldrei þeim árangri að mega starfa sem listamenn, urðu að sjá sér farborða með margvíslegum öðrum hætti? Nú fyrst hafa íslenskir söngvarar verið að eygja þennan möguleika og um leið og það er að verða að einhverju sem orð er á gerandi skal skorið á það með þeim eftirminnilega hætti að það verður að loka. Ekki fleiri orð um það.

Næst verður fyrir mér íslensk kvikmyndagerð. Menn hafa þar eðlilega eins og aðrir áhyggjur af þessum virðisaukaskatti. Ég held að þeim hafi ekki borist þessar fregnir fyrr en það seint að þeir náðu ekki að leggja fram neinar tölur. Íslensk kvikmyndagerð hefur hvað mest byggt á innkomu vegna aðgöngumiða. Styrkir hafa verið það óverulegir að það hefur verið vonlaust að ná inn kostnaði nema með verulega góðri aðsókn. Svona 60–80 þús. áhorfendur hefur venjulega íslensk kvikmynd þurft til að standa undir sér og þeir sem hafa á sér tölvu geta kannski slegið á það hvað það gerir. Hvað ætli miðaverðið sé núna? Ætli það væri ekki á íslenskri kvikmynd svona 350–400 kr. og ef einhver vildi bara slá á það hér og nú hvað það kostar í virðisaukaskatti hefðum við þær tölur. Mér hugkvæmdist ekki að gera það áður en ég fór í stólinn. Það er alveg ljóst að þarna hlýtur að vera um verulega útgjaldaaukningu að ræða fyrir þá þar sem þeir byggja, eins og ég segi, að verulega litlum hluta á styrkjum. Eitthvað mundu þeir að vísu fá á móti í endurgreiðslu vegna þess að hráefnið er nokkuð dýrt í þeirri framleiðslu, en eftir stendur það að aðaltekjuöflunarleið þeirra hefur verið aðgöngumiðasala.

Um bækur ætla ég ekki að fjölyrða hér og nú vegna þess að það hefur þegar verið gert hér í stólnum og ég er litið fyrir að endurtaka það sem aðrir hafa sagt á undan mér en læt nægja að minna aftur á samanburðinn og það verðmætamat sem felst í undanþágunum til tímarita og læt mönnum eftir að renna í huganum yfir þau tímarit sem menn hafa nefnt sem munu núna vera undanþegin þessum virðisaukaskatti á sama tíma og bækur eiga að bera þennan skatt.

Ég get samt ekki stillt mig um að fletta upp í bréfi sem barst frá Rithöfundasambandinu, einfaldlega vegna þess að þar heldur sá maður á penna sem lagið er að segja hlutina á skemmtilegan máta, Sigurður Pálsson, rithöfundur og formaður Rithöfundasamband Íslands, en þar segir hann: „Þegar nú er áformað að sala á blöðum og tímaritum verði undanþegin virðisaukaskatti getum við ekki kallað það neitt annað en eftirminnilegt reginhneyksli.“ Læt ég hans orð verða lokaorð um hug ráðamanna til íslenskrar bókagerðar.

Ótal margt fleira mætti tína til, en nú fer að styttast í það að ég ljúki máli mínu. (Gripið fram í.) Hefur hæstv. fjmrh. ekki lesið þetta bréf? (Fjmrh.: Jú, jú.) Að sjálfsögðu. (Fjmrh.: Hófleg orðanotkun einkennir skáldskap höfundar.) Eftirminnilegt reginhneyksli? (Gripið fram í: Hófleg orðanotkun.) Ja, þetta er eftirminnilegt orðalag. (Gripið fram í: Það er rétt.) Þetta er bara rétt og það er eftirminnilegt orðalag. Þess vegna hafði ég það nú hér. (Fjmrh.: Ljóð vega menn.) (Forseti: Ég bið hv. þm. að stilla samtölum í hóf meðan ræðumaður hefur orðið. Hv. 18. þm. Reykv. hefur orðið.) Já, ég þakka hæstv. forseta. Að vísu hef ég ekkert á móti þessum orðaskiptum við hæstv. ráðherra. Ljóð vega menn, sagði hann. Ja, stundum vildi maður að ljóð megnuðu að vega stjórnmálamenn. (Gripið fram í.) Ekki vil ég orða það svo sterkt að það hafi vegið þá en það svona var að þeim vegið.

Nú skulum við hætta þessu spjalli hér úr ræðustólnum og mun ég senn ljúka máli mínu. Ég hef ábyggilega gleymt einhverju mjög mikilsverðu sem ég ætlaði að segja. Það gefst þá tækifæri til að koma hér upp aftur. Ætla ég þá að ljúka máli mínu á því að leggja fram eða mæla fyrir brtt. sem við kvennalistakonur gerum á þskj. 1140 þar sem við að sjálfsögðu leggjum til að matvara verði undanþegin virðisaukaskattinum og að menningarstarfsemi, m.a. rekstur safna og bókasafna, tónleikahald, óperu- og leiksýningar, svo og gerð og sýningar íslenskra kvikmynda verði undanþegið virðisaukaskatti og í þriðja lagi að útgáfa bóka á íslensku verði undanþegin virðisaukaskatti. Að þessum tillögum samþykktum munum við efalaust íhuga vel að veita frv. stuðning, en að þeim felldum munum við ekki greiða frv. atkvæði.