10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7897 í B-deild Alþingistíðinda. (6028)

431. mál, virðisaukaskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint örfáum fsp. í tilefni af afgreiðslu þessa máls. Hv. 6. þm. Norðurl. e. spurðist fyrir um hvernig farið yrði með birgðahald, lager, einkum samvinnufyrirtækja, þegar þar að kæmi að kerfisbreytingin ætti sér stað. Svarið er á þá leið að ekki er sérstakra ráðstafana þörf af því tilefni, einfaldlega vegna þess að útskatturinn er ekki greiddur nema við uppgjör eftir sölu en til frádráttar kemur innskatturinn af áfangakostnaði þannig að það veldur ekki sérstökum vandræðum.

Hv. 5. þm. Vesturl. beindi til mín nokkrum fsp. Í fyrsta lagi hvort ég gæti gefið nánari skilgreiningu á því hvað væri starfsemi rithöfunda, annarra en skapandi listamanna, og sambærileg starfsemi. Ég held að það væri ekki neinum til upplýsingar að ég svaraði því hér og nú. Það er eitt af þeim verkefnum sem bíða milliþinganefndar og frekari vinnslu sem eðlilegt er. Það ber að kveða á um nánar í reglugerð.

Spurst var fyrir um endurgreiðslu til ferðamanna og vakin athygli á því að það ætti að verða að lagaskyldu. Það mál er vel á veg komið í undirbúningi. Hv. þm. lýsti þeirri skoðun sinni að hann væri því fylgjandi að undanþágum væri haldið í algeru lágmarki, þær yrðu sem fæstar. Ég er algerlega sammála því sjónarmiði hv. þm., sem ætti nú ekki að koma á óvart. Í upphaflegri gerð frv. var það þannig, enda meginhluti umræðunnar í dag einmitt álitamál sem vakna upp við afleiðingar þess að kveða á um einhverja undanþágu. Hér ræður hins vegar ekki vilji fjmrh. eins, hér er um að ræða málamiðlun.

Að því er varðar spurninguna um val milli uppgjörsleiða, þá finnst mér það fyllilega koma til álita. Að því er varðar spurningar um fyrir fram tölusett reikningseyðublöð væri ég, þrátt fyrir innreið tölvualdar, þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt öryggisatriði að hafa það svo. Að því er varðar greiðslufrestina tel ég skynsamlegt að hafa það, a.m.k. fyrst í stað meðan reynsla er að skapast, í formi heimildarákvæða.

Eitt af verkefnum milliþinganefndarinnar er að fjalla nánar um útfærslu á þeirri ákvörðun að halda húshitunarkostnaði óbreyttum, en þar er ekki verið að hugsa um niðurgreiðslur heldur endurgreiðslur á heildsölustigi. Að því er varðar fullyrðingar sveitarfélaga um að þau fari illa út úr því, þá hef ég um það ákveðnar efasemdir, en það mál mun verða skoðað betur.

Að því er varðar athugasemdir Verktakasambandsins er hugmyndin sú að endurgreiðsla byggist á framlagningu reikninga og að hún verði miðuð við ákveðna upphæð á fermetra upp að ákveðnum stærðarmörkum. Að því er varðar ábendingar um aðgerðir til lækkunar byggingarkostnaðar, þá er það rétt til getið hjá hv. þm. að það kemur fyllilega til greina að létta einhverjum gjöldum af til þess að tryggja þá framkvæmd.

Að því er varðar fsp. til mín um hvers vegna fylgi ekki með frv. ítarlegri greinargerðir um breytingar á rekstrarafkomu einstakra atvinnugreina, þá er svarið að fyrri hluti skattkerfisbreytingarinnar, sem þegar er kominn í framkvæmd, veldur því að á því er nú miklu minni þörf en áður. Þá voru stórar veigamiklar atvinnugreinar með undanþágum. Nú er munurinn orðinn svo lítill að breikkun skattstofnsins nemur aðeins 3%, þannig að þessi röskun að því er varðar verðlagsáhrif og afkomu er miklum mun minni en þá. Að öðru leyti byggðust röksemdafærslur mínar gegn því frv., sem þá var lagt fram í des. 1986, fyrst og fremst á tvennu. Í fyrsta lagi því að prósentan væri of há. Hún er núna þremur prósentustigum lægri og væri enn lægri ef ekki hefði verið við að fást vaxandi hallarekstur á ríkissjóði á þeim tíma sem liðinn er síðan. Í annan stað að hliðarráðstafanir voru þá kynntar eingöngu í formi niðurgreiðslu á landbúnaðarvöruverði. Nú hefur því verið gerbreytt þannig að þessum gagnrýnisatriðum hefur þegar verið svarað. Að öðru leyti kom það fram í ræðu minni þá, með vísan til stefnuyfirlýsingar Alþfl. á undanförnum hálfum öðrum áratug, að Alþfl. hefur verið fylgjandi virðisaukaskatti í stað söluskatts af grundvallarástæðum og er ég að því leyti sammála hv. þm.

Herra forseti. Ég ætla ekki í lok þessarar umræðu að endurtaka í n-ta sinn röksemdir sem ég hef áður flutt hér úr þessum ræðustól um skattkerfisbreytinguna. Um það sem hv. stjórnarandstæðingar tönglast enn á og kalla matarskatt og slíta úr samhengi við aðra þætti skattkerfisbreytingarinnar. Vangaveltur hafa verið um hvort virðisaukaskattur veldur auknu skrifræði, gerir meiri kröfur um bókhald, kallar á fjölgun starfsmanna við framkvæmd skattsins, leiðir til aukins kostnaðar, hvort hann dugir betur en núverandi söluskattskerfi að tryggja bætt skattskil, hvort við það verði staðið að tryggja að áhrif skattsins leiði ekki til hækkunar á byggingarkostnaði eða vegna húshitunar. Þetta eru allt saman mál sem búið er að fara yfir í þaula við fyrri umræðu málsins.

Umsagnir um málið leiða í ljós tvö meginatriði:

1. Að talsmenn helstu atvinnuvega á Íslandi eru jákvæðir gagnvart virðisaukaskatti. Þeir gera sér kannski betur grein fyrir því en aðrir að upptaka virðisaukaskatts í stað söluskatts gerbreytir samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega til hins betra, hvort heldur er á erlendum mörkuðum eða á heimamarkaði.

2. Meginatriði þessa máls að er að upptaka virðisaukaskatts með 22% álagningarstigi leiðir til lækkunar vöruverðs í samanburði við núverandi skattkerfi. Fyrir því eru tvær ástæður: Í fyrsta lagi lækkun prósentunnar sjálfrar og í annan stað niðurfelling þeirra uppsöfnunaráhrifa í vöruverði sem söluskattskerfið hefur valdið og menn hafa metið á bilinu 2–6%. Þetta eru meginatriði málsins.

Það er full ástæða til að staldra við umræðuna um undanþágur eða ekki undanþágur og að lokum ástæða til að segja fáein orð um málsmeðferðina.

Þeir sem hafa kynnt sér virðisaukaskattskerfið vita að eðli þess kerfis er að það er þeim mun betra sem undanþágur eru færri. Upptaka einnar undanþágu kallar á aðra. Við höfum gott dæmi um það hér. Sú staðreynd að af pólitískum ástæðum var fallist á undanþágur vegna dagblaða kallaði óðar á aðrar undanþágukröfur. Fram hafa verið settar harðar kröfur um undanþágur vegna tímarita, undanþágur vegna bóka o.s.frv. Þetta eru grundvallaratriði sem við erum að fjalla um þegar við erum að ræða um skattskyldu í kerfinu eða undanþágur, t.d. vegna margvíslegrar menningarstarfsemi.

Ég skil ákaflega vel áhyggjur þess fólks sem vinnur fórnfúst starf, þiggur oft lítil laun, vinnur oft sjálfboðaliðastarf í þágu íslenskrar menningar. Ég geri alls ekkert lítið úr þeim áhyggjum, fjarri sé mér að gera það. Hins vegar bið ég þá sem hafa af þessu áhyggjur að velta málinu fyrir sér í samhengi. Og það er þetta:

Ef fallist verður á óskir manna um að skilgreina menningarstarfsemi sem slíka, hvort heldur er leiksýningar, tónleikar eða önnur listastarfsemi, og undanþiggja hana skattskyldu, ef af þeirri undanþágu leiðir að allt samkomuhald, allur skemmtanaiðnaður nái þeim vilja sínum framgengt að verða undanþeginn líka hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá tel ég að það sé verr af stað farið en heima setið. Það teldi ég afar slæmt. Ef við ræðum um fjármuni þá eru auðvitað mestu fjármunirnir í þessari starfsemi í skemmtanaiðnaðinum. Og það eru engin haldbær frambærileg rök fyrir því að undanþiggja þann „bransa“. Þess vegna segi ég: Ef veiting undanþágu að því er varðar tiltekna menningarstarfsemi leiðir til þess við afgreiðslu á Alþingi að undanþágurnar verði gerðar algildar fyrir allan skemmtana- og tómstundaiðnað þá held ég að það væri verra og þar á meðal verra fyrir íslenska menningarstarfsemi.

Að því er varðar síðan menningarstarfsemina hefur það komið fram, án þess að ég hirði um að fara hér í þessum ræðustól í einstök dæmi, að það er ástæðulaust að hafa áhyggjur af fjárhag þeirra stofnana sem við menningarstarfsemi fást og eru á vegum opinberra aðila. Áhrifin eru hverfandi til eða frá og þess eðlis að það er auðvelt viðfangs að tryggja afkomu þeirra.

Ástæðan fyrir því að milliþinganefnd er falið að skoða þetta mál betur varðar fyrst og fremst afkomu einstakra frjálsra menningarhópa hvort heldur það lýtur að áhugamannaleikhúsum, tónlistarstarfsemi, starfsemi kóra eða annað af því tagi upp að telja. Það er hægt þegar um slíka starfsemi er að ræða, sem ekki verður vegin á kvarða atvinnustarfsemi og augljóslega er ekki í neinu ábataskyni og í okkar litla þjóðfélagi flokkast kannski fremur undir sjálfboðaliðastarf, að undangenginni rækilegri vinnu að skilgreina þá starfsemi á undanþágusviði án þess að það raski kerfinu eða kalli á fjölda annarra undanþága. Að þessu verður unnið.

Meginatriðið er þetta: Að ásakanir um menningarfjandskap, löngun stjórnvalda til þess að leggja íslenska menningu í rúst, ásakanir um vilja þeirra sem aðhyllast þetta skattkerfi um það að vilja leggja stein í götu eða jafnvel eyðileggja með öllu starfsgrundvöll Óperunnar eða eitthvað þess háttar, ég bið menn nú bara ósköp einfaldlega að spara sér svo stór orð. Ég held alla vega að ljóðskáld ættu ekki að nota svo stór orð. Auðvitað vakir ekkert slíkt fyrir mönnum. Auðvitað er það á hreinu að þessi skattkerfisbreyting er ekki sett fram til þess að vega að íslenskri menningu. Og það liggur ljóst fyrir að hagur hennar - það verður tryggt, a.m.k. á meðan sá sem hér er í ræðustól er fjmrh. og hefur áhrif, það verður tryggt að eftir þessa breytingu verður hennar hagur ekki verri en áður. Þar skiptir auðvitað sköpum hvort menn ætla að ganga svo hart fram í undanþáguásókninni að undanþiggja skemmtanaiðnaðinn. Ég hika ekkert við að lýsa þeirri persónulegu skoðun minni að það væri eðlilegt að hafa kerfið undanþágulaust og nýta þá fjármuni t.d. sem fást í sameiginlega sjóði af skemmtanaiðnaðinum til þess að verja því fé með skipulegum hætti og í samræmi við yfirlýst markmið stjórnvalda til að hlúa að menningargróðri í landinu. Þá stefnu vildi ég gjarnan styðja.

Ég nenni nú ekki að lengja þessa umræðu með því að beina þeirri spurningu til þeirra sem hvað helst gerast talsmenn undanþágufargansins, en þeir ættu nú að manna sig upp í að svara henni, hvar þeir mundu finna þá 6,2 milljarða kr. sem þeir segja að hafi verið lagðir á lítilmagna í þjóðfélaginu í formi matarskatts, og er að vísu rangt hjá þeim, hvar þeir mundu finna þá fjármuni sem þeir þurfa á að halda við næstu fjárlagagerð til þess að leggja fram fé til að stuðla betur að og standa betur við bakið á íslenskri menningarstarfsemi, hvort heldur það er leiklist, tónlist, myndlist eða hvað sem er. Staðreyndin er auðvitað sú að þeir menn sem þannig tala mundu sjálfir standa frammi fyrir því ef þeir ættu að bera ábyrgð að þeir hefðu ekki fjármuni afgangs. Hvorki til þess að styðja við bakið á íslenskri menningu né heldur til þess að stuðla yfirleitt að uppbyggingu í landinu, t.d. í þágu landsbyggðarinnar eða að verklegum framkvæmdum sem tillögur eru uppi um og allir góðir menn vilja styðja.

Ég ber ákaflega takmarkaða virðingu fyrir svona hræsni. Ekki síst þegar það liggur ljóst fyrir að sömu aðilar hafa engar haldbærar tillögur uppi um aðra skattlagningu. Menn segja: Stóreignaskattur, meina ekkert með því. Það eru þrjú stig af eignarsköttum í landinu. Stóreignaskattur mundi undir engum kringumstæðum skila þeim peningum sem hér er um að ræða. Menn tala um nauðsyn þess að setja lög um skattlagningu fjármagns- og eignatekna. Það þarfnast mikils undirbúnings. Um það er ákvæði í stjórnarsáttmála að að því skuli stefnt. Að því er unnið og frv. verður að sjálfsögðu lagt fyrir Alþingi til ákvörðunar þegar þar að kemur. Um það er ekki ágreiningur út af fyrir sig.

Menn getur greint á um það hvort sé skynsamlegra, betur í þágu íslenskrar menningar, undanþáguleiðin eða sú leið sem hér er boðuð að hafa kerfið eins laust við undanþágur og hugsanlegt er, en hafa þá með sæmilegu öryggi aukna fjármuni til ráðstöfunar til þess þá að styðja með virkum hætti við þá menningarstarfsemi sem þarfnast stuðnings. Ég hef svo oft lýst mínum skoðunum að ég þarf ekkert að ítreka þær. Og ég tek það fram að ég er hvergi smeykur við það að vera borinn ásökunum um það að vera menningarfjandsamlegur eða að vilja leggja íslenska menningu í rúst. Þau orð segja allt um þá sem þau orð nota en ekkert um þann sem fyrir þeim verður.

Herra forseti. Að lokum örfá orð um málsmeðferðina. Mönnum verður tíðrætt um það að málið sé illa undirbúið og til marks um það sé sú staðreynd að því hefur verið vísað til framhaldsvinnu hjá milliþinganefnd í sumar. Ég endurtek að ég tel ekkert athugavert við þessi vinnubrögð og ég tel þau til fyrirmyndar. Við höfum reynslu af því að því er varðar afgreiðsluna á staðgreiðslukerfinu sem var viðamikil og þýðingarmikil löggjöf. Alþingi gekk frá þeirri löggjöf til að eyða óvissu um vilja Alþingis að það skattkerfi skyldi tekið upp en það kallaði á vinnu milliþinganefndar um sumarið og allrækilega umfjöllun um haustið og gaf góða raun, gaf afar góða raun.

Ég tel það til fyrirmyndar að undirbúa löggjöf sem eyðir óvissu um stefnumörkun þingsins í grundvallaratriðum en hefur síðan ár fram undan til þess að undirbúa málið vandlega, kynna það rækilega, eyða óvissu, skapa um það aukna samstöðu. Í því efni tek ég sérstaklega undir með því sem segir í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn., þar sem lögð er áhersla á nauðsyn þess í þágu þjóðarinnar allrar og allra sem eiga við þetta að búa að málið verði rækilega kynnt. Gert hefur verið ráð fyrir því í fjárlögum og að því verður stefnt.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.