10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7909 í B-deild Alþingistíðinda. (6032)

431. mál, virðisaukaskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða út af þessari umræðu um menningarstarfsemina að láta í ljós það mat mitt að enginn stjórnmálaflokkur muni vilja standa að því hér á Íslandi að raska eða rýra fjárhagsgrundvöll menningarstarfsemi eins og t.d. leiklistar. Ég hef sagt þetta á nefndarfundum í fjh.og viðskn. og ég er sannfærður um að svo sé.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði lítið úr yfirlýsingu hæstv. fjmrh. varðandi þetta hér áðan, en hún var afdráttarlaus. Ég vil benda á það að fjmrh. stendur ekki einn í þessum efnum vegna þess að í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar deildar er sagt beinum orðum að meiri hl. nefndarinnar telji einboðið að haga kerfisbreytingunum á þann veg að fjárhagsgrundvöllur þeirrar starfsemi verði ekki rýrður og er þá verið að vitna til menningar- og listastarfs. Hér liggur fyrir afdráttarlaus yfirlýsing af hálfu allra fulltrúa, allra stjórnarflokkanna í fjh.- og viðskn.

Ég hef skilið talsmenn minni hlutans, talsmenn stjórnarandstöðunnar svo að þeir væru sama sinnis þannig að ég tel að stefnumörkun Alþingis að því er þetta varðar liggi algerlega ljós fyrir. Talsmenn allra flokka hér á þingi í þessu máli hafi lýst sömu skoðun, nefnilega þeirri að kerfisbreytingin megi ekki verða til þess að rýra fjárhagsgrundvöll þeirrar menningarstarfsemi sem hér um ræðir. Þetta er afdráttarlaust. Hitt geta menn svo aftur deilt um hver sé besta aðferðin til þess að tryggja þetta. Hvort það gerist með undanþágum, eins og mér skilst að sumir telji best, eða með endurgreiðslum sem hv. síðasti ræðumaður, Þórhildur Þorleifsdóttir, sagði að kæmi vissulega til greina. En ég vil vekja athygli á því að hvort heldur er um undanþágu að ræða eða ekki þá getur orðið breyting á stöðu þessarar starfsemi þannig að jafnvel þó að menn séu með undanþágu verða menn að skoða það dæmi og athuga hvort þar sé um einhvern mun sem þurfi, þrátt fyrir undanþáguna að jafna.

Ég tel sjálfsagt að þetta verði skoðað og það hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. lagt áherslu á í sínu nál. Ég tel einsýnt að í þessu máli séu menn algerlega sammála um stefnuna, um markmiðið, þó að menn geti deilt um leiðir, en vonandi tekst mönnum að vinna sig út úr því.

Ég er þeirrar skoðunar að yfirleitt sé betra að hafa undanþágur sem fæstar og tel að það eigi að vera stefnan, m:a. í þeirri endurskoðun sem fram undan er, ekki sérstaklega varðandi þetta atriði heldur varðandi þau atriði sem yfirleitt er verið að fjalla um hér á þessum vettvangi og í frv. eins og það lítur út. Fyrir því eru ýmis rök. Þau eru til tínd m.a. í þessu nál. varðandi það að menn nýti nú kerfisbreytinguna til þess að aðhald að skattskilum verði betra en það hefur verið hjá okkur og að menn fái þannig líka svigrúm til þess að vera með lægri skattprósentu, lægra skatthlutfall en hefur verið í söluskatti. Mín ósk er sú að niðurstaðan geti verið sú að það verði lægra en er í þessu frv. eins og það liggur fyrir.