10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7910 í B-deild Alþingistíðinda. (6034)

431. mál, virðisaukaskattur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að það er enginn stjórnmálaflokkur á Alþingi sem lætur sér detta í hug að rýra á einn eða annan hátt fjárhagsgrundvöll menningarstarfsemi í landinu. Ég held að það sé svona nokkurn veginn sama hvað kemur út úr þessari uppstokkun sem nú á sér stað vegna þess að þjóðin býr við ákveðið stolt.

Eitt af því sem gerir okkur að þjóð og það menningarþjóð er starfsemi leikhúsanna og þá náttúrlega er Þjóðleikhúsið þar í fararbroddi fylkingarinnar. Og hvernig sem fjárhagsútkoma er á starfsemi Þjóðleikhússins þá verður það dæmi afgreitt með aukafjárveitingu eða með samþykkt Alþingis á frekari fjárveitingum á þeim mismun sem kemur út úr hverju starfsári. (SvH: Að það hrynji ekki í millitíðinni.) Húsið getur hrunið en menningarstarfsemin hrynur ekki hvernig sem stjórnarliðið hamast. En húsið getur hrunið og er að mörgu leyti að hrynja. Yfirlýsing fjárhagsnefndar og fjmrh. er ákveðin trygging fyrir því að starfsemin verður ekki látin liða þó svo að vissar áhyggjur séu réttlætanlegar hjá þeim sem starfa að þessum þætti menningarinnar.

Ég ítreka það sem g sagði áður hér úr þessum ræðustól við 2. umr. Ég held að það sé nauðsynlegt að milliþinganefnd geri tillögur um þá liði sem eru óvissuþættir í frv., og eru a.m.k. 15, og að Alþingi skoði þá liði, þær lausnir sem koma út úr starfi milliþinganefndar og að Alþingi fái að segja sitt álit þannig að frv. verði fullkomnara og Alþingi til sóma þegar Alþingi afgreiðir það endanlega. Því að afgreiða frv. eins og það liggur fyrir með öllum þessum óvissuþáttum er alveg það sama og að gefa fjmrh. sjálfdæmi í lagasetningunni. Framkvæmdarvaldið getur aldrei orðið löggjafarvald. Það er útilokað. Og þó ég treysti fjmrh. vel til þess að gæta hófs í öllu því sem snertir menningarstarfsemi á Íslandi þá tel ég réttara að Alþingi gangi endanlega frá frv. þegar milliþinganefnd hefur gert sínar tillögur. Þangað til sé ég enga ástæðu til að lengja þessar umræður með því að fara yfir frv. lið fyrir lið. Því frv. er ekki til. Frv. er ekki til sem slíkt. Það er verið að biðja um samþykkt á rammafrv. sem fjmrh. á að fylla út í og það gengur bara ekki. Það gengur ekki. En við skulum standa á verði.

Ég vil segja það við hv. 18. þm. Reykv., sem hefur haft veg og vanda af mörgum góðum tillögum og tali hér um þá menningarstarfsemi sem fer fram í leikhúsunum hér á landi, að að sjálfsögðu er viss trygging í því að fjh.- og viðskn. og fjmrh. hafa saman lýst því að þeir muni standa vörð um þessa starfsemi. Ég lít á það sem hér hefur komið fram hjá þessum tveimur ábyrgu aðilum sem loforð og því segi ég við þá sem starfa á vegum ríkisins að þessum menningarstofnunum: Hafið engan ótta. Ráðherra hefur lofað. Nefndir Alþingis hafa lofað. Framtíð ykkar er borgið.

En við skulum minnast þess að stjórnarandstaðan gerði heiðarlega tilraun við gerð fjárlaganna til þess að hafa vit fyrir hæstv. fjmrh. og stjórninni í heild. Gleggsta dæmið um það eru öll þau mótmæli sem stjórnarandstaðan stóð að saman sem einn á móti því að söluskattur yrði ekki endurgreiddur til sjávarútvegsins. Við stóðum líka á móti launaskatti á sömu fyrirtæki. Stjórnin, með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar, samþykkti þetta. En fyrsta verk ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. eftir jólafríið var að draga þetta til baka. Þess vegna segi ég: Er nú ekki skynsamlegra, þegar við erum allir af vilja gerðir hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að bíða með að samþykkja þetta frv. þangað til við getum skoðað það fullbúið? Þangað til sé ég ekki ástæðu til þess að ræða þetta meira.

Það er eitt sem ég hjó eftir og það var svolítið merkilegt. Hæstv. fjmrh. sagði hér síðast þegar hann kom í þennan ræðustól að hv. 4. þm. Norðurl. e. ætti að lesa betur stefnuyfirlýsingu Alþfl. eins og hún var fyrir kosningar og sjá hvað mikið er búið að framkvæma af henni í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta er fyrsta viðurkenningin á því að málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur verið réttur. Þjóðin hefur orðið áþreifanlega vör við að stefna Alþfl. hefur ráðið ferðinni við lagasetningar þessarar ríkisstjórnar. Það vekur hins vegar furðu mína að hinir stjórnarflokkarnir skuli taka þátt í því að framkvæma ómengaða skattastefnu Alþfl. Það er alveg stórfurðulegt.

Spurningin er: Hve mikinn vanda þarf að skapa í hinu daglega lífi fólks og fyrirtækja áður en snúið verður frá þessari pólitísku villu? Við lesum daglega um fyrirtæki í vanda, um fyrirtæki sem eru að segja upp fólki, það er að skapast hér atvinnuleysi, um fyrirtæki sem eru að loka. Jafnvel samvinnuhreyfingin er að detta upp fyrir, kaupfélögin sýna öll meira og minna tap. Það er eitt kaupfélag sem ég veit um sem var í fréttum í dag að hefði sýnt einhvern hagnað, eða jafnvel tvö. Það er allt og sumt. Er þetta virkilega það sem miðstjórnarfundur Framsfl. barðist fyrir og vill fá? Ég held ekki. Samt sem áður er stjórnin samstæð í þessum ráðstöfunum.

En ég vil draga athyglina aftur að því að það er eins og hæstv. fjmrh. sagði: það er áreiðanlega bróðurparturinn af stefnuyfirlýsingu Alþfl. sem hefur verið í framkvæmd í tíð þessarar ríkisstjórnar, enda er þjóðfélagið allt að sökkva í vanda, skattavanda. Á stefnuatriði Framsfl. og Sjálfstfl. minntist hæstv. ráðherra ekki, enda er eins og hér sé um einn krataflokk að ræða sem stjórnar þessu landi og það ber að harma.