10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7914 í B-deild Alþingistíðinda. (6039)

431. mál, virðisaukaskattur

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég er fylgjandi því að taka upp virðisaukaskatt í stað núgildandi söluskatts. Það er ljóst að virðisaukaskattskerfið verður því aðeins skilvirkt að undanþágur séu sem fæstar. Með því er hægt að hafa skattprósentu lægri, jafnvel lægra gjald á matvörur. Jafnframt þurfa að vera skýr ákvæði um endurgreiðslu sem þurfa að fylgja slíku skattkerfi.

Í meðferð Alþingis kemur í ljós að ótal mikilvæg atriði í frv. eru ekki frágengin. Jafnframt er búið að setja í frv. fjölmargar undanþágur á aðila sem síst skyldi, og vinnur það augljóslega gegn skattinum. Ég tel að skynsamlegast sé að fresta afgreiðslu málsins til næsta þings, skipa milliþinganefnd til að kanna betur hin fjölmörgu vafa- og ágreiningsefni. Að samþykkja frv. með öllum þessum vafaatriðum ófrágengnum tel ég rangt. Ég get því ekki samþykkt þessa málsmeðferð og greiði ekki atkvæði.