10.05.1988
Neðri deild: 102. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7924 í B-deild Alþingistíðinda. (6062)

466. mál, ferðamál

Frsm. samgn. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Hér gætir verulegs misskilnings hjá mjög þingreyndu fólki. Svo virðist sem sumir hér inni séu að átta sig á því eftir margra ára setu á Alþingi Íslendinga að það heyrir til undantekninga, ef það hefur nokkurn tíma gerst, að orðrétt samhljóða nál. hafa komið frá Ed. og Nd. Það má vera að hægt sé að finna slíkt. Seinasta dæmið um mál, sem hér var afgreitt, er virðisaukaskatturinn sem er til umræðu. Ég vil skora á menn að lesa nál. yfir og athuga hvort þau séu orðrétt eins. Það er nú öðru nær. Þegar Ed. er búin að telja upp stóran lista tekur Nd. við og lýsir samþykki á því og bætir svo við verulegri klausu og auðvitað hefði hv. 13. þm. Reykv. átt að spyrja hæstv. fjmrh., 15. þm. Reykv., hvoru nál. hann ætlaði að fara eftir. Það er náttúrlega stóralvarlegt mál ef það er að koma í ljós að það er í fyrsta skipti núna sem sumir menn í þinginu hafa borið saman nál. í Ed. og Nd. og ruglast svona rosalega í ríminu. Hvað hefur komið fyrir? Ég bara hreinlega skil þetta ekki. Ég hélt að þetta væri venja þegar menn sætu að störfum í nefndum að þeir færu yfir nál. sem lægi fyrir en ekki, að menn kæmu af fjöllum og teldu að það væri orðréttur sams konar texti. Það væri þá stórum auðveldara að vinna í nefndum ef ætti bara að ljósrita og breyta nöfnum.

Ég get aftur á móti skilið það mjög vel að menn hafi misjafnar skoðanir á því hvort þeir vilji selja Ferðaskrifstofuna. Það er út af fyrir sig pólitískt mat og það er ekkert að því að menn standi hér upp og geri grein fyrir sínum skoðunum á þeim grundvelli. Hins vegar vekur það athygli, og nú þætti mér vænt um ef hv. 4. þm. Norðurl. e. hlustaði (SJS: Hann hlustar.) því að agi þarf að vera í hernum. Það kemur nefnilega í ljós að undir nál. samgn. Ed. hefur skrifað hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson og virðist að það hefði verið tímabært að taka hann á beinið fyrr ef hann hefur svo ruglast í ríminu að hann skrifi hér undir breytingar á öllu saman í trássi við allar eðlilegar venjur. Ég get nefnilega ekki séð að þó að samgn. Nd. hafi komið hér með sínar skýringar á því hvað séu starfsmenn Ferðaskrifstofunnar þurfi að taka það þannig upp að menn séu að kollvarpa öllu sem Ed. setti fram.

Hins vegar var ég sammála því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lagði áherslu á og það er að það verði raunverulegir starfsmenn Ferðaskrifstofunnar sem eigi kost á kaupunum. Hinir raunverulegu starfsmenn eru þeir sem líklegastir eru til að vinna þar ár eftir ár. Starfsmenn Edduhótelanna eru að verulegum hluta mjög ungt fólk, skólafólk, sem er í þessu sem ígripavinnu eitt eða tvö sumur. En hið fastráðna starfslið er allan ársins hring og væri selt að vetrarlagi þá væri náttúrlega ekki um annað að ræða samkvæmt orðanna hljóðan strangt séð. En báðar deildirnar vilja túlka það svo að þó að ráðskonurnar eða hótelstýrurnar eða hótelstjórarnir, sem er nú kannski allt, séu ekki fastráðnir yfir veturinn sem skráðir starfsmenn heldur aðeins skráðir þannig að það mun í flestum tilfellum gert ráð fyrir því að þeir starfi árið eftir - og þeir starfa flestir ár eftir ár — þá viljum við undirstrika það að við teljum eðlilegt að þeir komi inn í þessa mynd.

Auðvitað er það lagatextinn sem blífur og af honum er ráðherra fyrst og fremst bundinn. Það er okkur ljóst. Hann er einnig bundinn af yfirlýsingum sínum sem hann gefur gagnvart nefndum ef mál eru þar til umfjöllunar og hann lýsir sínum skoðunum.

Ég held þess vegna að menn geri of mikið úr því að það sé ágreiningur á milli Ed. og Nd. í þessu máli. Í það minnsta vil ég hvetja þá, sem hafa nú verið að átta sig á því í fyrsta skipti að nál. eru ekki samhljóða, til að setjast nú við og lesa almennt nál. sér til fróðleiks í þessum efnum.