10.05.1988
Neðri deild: 102. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7932 í B-deild Alþingistíðinda. (6067)

466. mál, ferðamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef áhuga á því að vita hvort hæstv. samgrh. ætlar að selja Ferðaskrifstofu ríkisins að vetrarlagi eða sumarlagi. Mér sýnist eftir þá maraþonumræðu sem hér hefur farið fram um lagaskýringu að það ráði miklu um niðurstöðu málsins því að starfsmannahald fyrirtækisins aukin heldur með Edduhótelunum á sumrin er talsvert með ólíkum hætti á þessum árstíðum. Ég hygg því að það geti sett hæstv. samgrh. í talsverðan vanda þegar hann ætlar að fara að velja sér tíma til að koma sölunni í kring, hvort það skeður um hávetur eða um mitt sumar. Það væri fróðlegt að fá að heyra hvort hæstv. samgrh. hefur einhverja skoðun í þessu efni nú þegar.