12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

90. mál, björgunarþyrla

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er mér sönn ánægja að taka undir efni þessarar tillögu. Ég hafði sjálfur hugleitt það og við höfðum rætt það í þingflokki Alþb. að taka með einhverjum hætti upp málefni Landhelgisgæslunnar, þá jafnvel í víðara samhengi en eingöngu hvað varðar flugvélakost hennar en þar er auðvitað brýnasta verkefnið sem oft hefur verið rætt um á undanförnum missirum að kaupa stærri og öflugri björgunarþyrlu. Ég held að enginn vilji hugsa þá hugsun til enda, sem atvik bjóða upp á að gætu orðið, að vegna þess hversu núverandi þyrla Landhelgisgæslunnar er lítil gæti þurft að skilja eftir hluta áhafnar í bráðum lífsháska einfaldlega vegna þess að vélin bæri ekki alla áhöfnina. Það er engu að síður staðreynd sem menn verða þá að horfast í augu við að svoleiðis gæti komið upp á.

Það er einnig mjög nauðsynlegt að fá hingað flugvél sem er tæknilega betur búin en sú sem við eigum nú. Þar er bæði um afísingarbúnað og reyndar ýmis fleiri tæki að ræða.

Ég nefni svo að það er auðvitað ekki nóg fyrir Landhelgisgæsluna að fá tækið eitt sér. Það þarf fleira til. Eins og menn eflaust kannast við úr umræðunni undanfarna mánuði hefur Landhelgisgæslunni gengið nógu erfiðlega að halda úti í eðlilegum rekstri þeirri þyrlu sem þó er til í dag. Hér á ég við rekstrarfé og starfsmannaheimildir. Við gerum auðvitað lítið gagn með tækjum ef viðkomandi stofnanir hafa ekki aðstæður til að starfrækja þau með eðlilegum hætti. Þess vegna þarf að sjálfsögðu að tryggja það jafnframt að Landhelgisgæslunni verði búin aðstaða til að sinna þessu björgunarhlutverki, hafa nægan mannafla og fjármuni til að láta standa sólarhringsvaktir árið um kring.

Ég nefni einnig í þessu samhengi annan þátt þessa máls sem er staðsetning björgunartækjanna. Ég hef rætt við sjómenn og margir sjómenn hafa rætt við mig af norðan- og austanverðu landinu. Þeirra áhyggjur eru ekki síst þær að miðað við núverandi flugvél og vegalengdir tæki það óhemjulangan tíma að koma björgunarþyrlu héðan af Reykjavíkursvæðinu og norðaustur fyrir landið, ef þar bæri nú eitthvað upp á. Menn hafa vissulega rætt þann kost að staðsetja aðra af tveimur þyrlum, ef um þær væri að ræða, einhvers staðar nálægt norðausturhorni landsins, til að mynda á Egilsstöðum eða Akureyri, sem mundi muna miklu í þessu sambandi. Það kann að virðast bjartsýni að reikna með að á næstu árum treysti menn sér til að verja nægu fé til þess að halda úti og manna björgunarþyrlur jafnvel á fleiri stöðum en í Reykjavík einni, en það geta vel fundist mun ódýrari lausnir á því en þær að hafa flugmenn á vakt allan sólarhringinn. Ég bendi á að á Akureyri er sólarhringsvakt á sjúkraflugi hjá flugfélagi sem þar er staðsett og væru þar til flugmenn með þyrluflugmannsréttindi kynni þetta að geta farið saman.

Ég vil í öllu falli taka mjög sterklega undir það að mikil framför frá núverandi aðstæðum væri ef öflugri, hraðfleygari og stærri þyrla með afísingarbúnaði væri til staðar í landinu. Það heyrist stundum sú skoðun að við getum falið öðrum aðila, sem er ekki langt í burtu frá okkur, þetta hlutskipti, við Íslendingar, og eigum ekkert að vera að leggja á okkur sjálfir í þessum efnum. Þetta er nú heldur lágkúrulegur málflutningur, herra forseti, fyrir nú utan það að reynslan hefur sýnt að við getum ekki treyst neinum jafnvel og okkur sjálfum í þessum efnum. Íslenskir björgunarmenn, bæði þyrluflugmenn Landhelgisgæslunnar og ýmsir aðrir, hafa hvað eftir annað unnið afrek á þessu sviði sem ég held að sanni það og sýni að ekkert getur komið í staðinn fyrir staðkunnugleika og þekkingu á aðstæðum sem okkar menn hafa og er ekki til að dreifa hjá öðrum.

Ég vil gjarnan að rætt verði í tengslum við umfjöllun um þessa þáltill. að það þarf að huga að málefnum Landhelgisgæslunnar almennt, búa henni betri starfsaðstöðu en hún býr við í dag til síns almenna rekstrar og mannahalds. Ég varpa fram þeirri hugmynd í lokin, vegna þess að menn koma auðvitað að því fyrr eða síðar að þetta kostar peninga, að ég er alveg viss um að aðilar á sviði sjávarútvegs mundu taka þeirri niðurstöðu með mikilli ánægju að hluta af þeim uppsafnaða söluskatti sem ríkisstjórnin hyggst nú hætta að endurgreiða til sjávarútvegsins yrði varið til þessa verkefnis. Ég veit að þó að það séu kannski ekki beint sjómennirnir sem þar hafa lagt mest af mörkum eru hagsmunir allra sem á þessu sviði starfa svo samtengdir að það mundi að mínu mati vera ráðstöfun sem allir mundu fyllilega sætta sig við og fagna ef einhverjum af þeim fjármunum yrði varið til þessa verkefnis. Ég legg það hér inn í umræðuna.