10.05.1988
Neðri deild: 103. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7934 í B-deild Alþingistíðinda. (6074)

466. mál, ferðamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að halda uppi af minni hálfu mikið lengri umræðu um þetta mál. Ég held að það hafi nokkurn veginn skýrst til fullnustu við 2. umr. hvernig hagað er afgreiðslu á þessu máli og er kannski best fyrir þingið og söguna að vera ekki að vekja á því meiri athygli en þörf krefur hvernig skjalfest eru vinnubrögð í þessu máli.

En ég vil halda minni efnislegu afstöðu til haga og gera hvað ég get til að koma henni á framfæri eða öllu heldur varðveita hana í lögum um Ferðaskrifstofu ríkisins eða skipan ferðamála. Ég er afar ósáttur við það að það fyrirkomulag sem sett var inn í lögin og samkomulag varð um á árinu 1985 verði fellt úr gildi og ég mæli því hér fyrir brtt. á þskj. 1153 við frv. til laga um breyt. á lögum um skipan ferðamála nr. 79 frá 1985. Brtt. er svohljóðandi:

„Aftan við frv. bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:

Samgrh. skal beita sér fyrir því að áður en sala á eignarhlut ríkisins í Ferðaskrifstofu Íslands hf. fer fram, sbr. 1. gr., að mynduð verði samtök starfsmanna fyrirtækisins til að fara með væntanlegan eignarhlut.“

Þá hygg ég að sú deila, sem hér var uppi, og það mismunandi mat hv. þingnefnda á því hverjir úr hópi starfsmanna skuli vera bærir til þess að kaupa þar eignarhlut leysist af sjálfu sér og vel yrði fyrir því séð og með miklu farsælli hætti en hér er gert ráð fyrir, að félagsskapur starfsmanna færi með eignarhlut þeirra og sæi um hann á hverjum tíma. Ég hygg að ég þurfi ekki að rökstyðja þá afstöðu mína frekar en ég hef þegar gert, bæði hér og eins við fyrri umræðu og afhendi nú forseta þessa brtt. sem ég hef gert grein fyrir.