10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7947 í B-deild Alþingistíðinda. (6122)

455. mál, sparisjóðir

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 87 frá 4. júlí 1985, um sparisjóði, eins og frv. kemur frá hv. Nd. Þetta frv. er flutt samhliða frv. til l. um breytingu á lögum um viðskiptabanka sem er nú til meðferðar í nefnd í Nd. Breytingar þær sem frv. felur í sér eru fjórþættar:

1. Um orðalagsbreytingu er að ræða sem nauðsynleg er vegna gildistöku nýju sveitarstjórnarlaganna sem fela m.a. í sér brottfall sýslunefndanna sem stjórnsýslueininga.

2. Þá er að finna í frv. nákvæmari ákvæði um reglur um fyrirgreiðslu sparisjóðanna við einstaka viðskiptavini sína, m.a. um hámark á lán til einstakra aðila, en nú eru í lögum.

3. Frv. fjallar um starfsábyrgð stjórnenda sparisjóðanna til þess að girða fyrir hagsmunaárekstra í stjórnum þeirra og tryggja óháðar ákvarðanir.

4. Í síðasta lagi eru í frv. ákvæði er varða hlutfall fasteigna og búnaðar sparisjóðanna af eigin fé þeirra og aðlögun að þessu hlutfalli fram til ársloka 1990.

Ákvæði 1. og 2. gr. frv. eru til komin, eins og ég sagði í upphafi, vegna þess að sýslunefndirnar verða lagðar niður um næstu áramót og sveitarstjórnir taka við verkefnum þeirra. Í gildandi lögum um sparisjóði er að finna ákvæði um sýslunefndir í 5. og 21. gr. laganna og er hér lögð til breyting á þeim ákvæðum. Í samþykktum sparisjóðanna eru starfssvæði þeirra yfirleitt afmörkuð og skal skv. 21. gr. hluti stjórnarmanna kjörinn af viðkomandi bæjarstjórn eða sýslunefnd. Með breytingunni sem hér er gerð tillaga um skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir í öllum tilfellum kjósa stjórnarmennina og fer það eftir starfssvæði sparisjóðs hvort þar er um að ræða eina sveitarstjórn eða fleiri sem verða þá að koma sér saman um kjörið. Sparisjóðirnir þurfa í nokkrum tilfellum að breyta sínum samþykktum í samræmi við þetta.

Þá kem ég að meginbreytingu skv. 3. gr. frv., en hún er sú að í almennum reglum sem sparisjóðsstjórn setur um lánveitingar sjóðsins skuli vera skylt en ekki heimilt eins og nú er að kveða á um hámark lána til einstakra lántakenda. Þá skulu þessar reglur sæta endurskoðun ekki sjaldnar en árlega í sparisjóðsstjórninni og auk þess skal Bankaeftirlitið láta í té álit sitt á þessum reglum hverju sinni. Það er gert ráð fyrir sömu málsmeðferð um ábyrgðir sem sparisjóðirnir kunna að ganga í og tryggingar sem þeir kunna að setja fyrir lánum. Á þennan hátt má að mínum dómi draga úr hættu á stóráföllum á rekstri sparisjóðanna og tryggja betur hag þeirra og sparifjáreigenda.

Í 4. gr. frv. er lagt til að lögfestar verði reglur til að girða fyrir hagsmunaárekstra í stjórnum sparisjóðanna. Þar segir að stjórnarmenn sparisjóðs skuli ekki taka þátt í meðferð máls hjá sparisjóðnum er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku stjórnarmanna sparisjóðs í meðferð máls sem varðar aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Það þykir rétt að gera í lögunum strangar kröfur um svo mikilvægar stofnanir sem sparisjóðirnir eru þar sem hagsmunaárekstrar geta þar haft alvarlegri afleiðingar en í mörgum öðrum tilfellum.

Í 5. gr. frv. eru eins og í 3. og 4. gr. þess tekin af öll tvímæli um það að bókfært virði fasteigna og búnaðar sem innlánsstofnanir nota til starfsemi sinnar megi ekki fara hækkandi í hlutfalli við eigið fé á aðlögunartímabilinu 1986 –1990 hafi það við gildistöku laganna verið hærra en mælt er fyrir um í þeim. Þó er gert ráð fyrir í greininni að möguleikar séu til undanþágu í undantekningartilfellum.

Hæstv, forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar.