10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7951 í B-deild Alþingistíðinda. (6125)

455. mál, sparisjóðir

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er um hálfur sólarhringur eftir af þinghaldinu og nauðsynlegt að nota tímann vel og reyna að róta í gegn nokkrum málum. Mér skilst að ríkisstjórnin ætli að gera þetta að lögum, hafi fundið það út núna í kvöld. Svo er frv. um viðskiptabanka líka sem er smámál og á eftir að fara í gegnum fimm eða sex umræður, en menn ætla sér að koma því í gegn líka, þessir ötulu alþýðuflokksráðherrar, og þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl. eru eins og þægir vinnumenn og gera hvaðeina sem krötunum dettur í hug. Ég veit eiginlega ekki hvað þetta á að þýða. Er ekki meiningin að þing komi saman aftur í haust eða hvað, herra forseti? Það á að gerast. Samkvæmt lögum og stjórnarskrá á þingið að koma saman víst í haust. Mér skilst að það sé venjan að það komi saman 10. okt. ár hvert, Alþingi. Mér sýnist hins vegar að kratarnir ætli að standa þannig að þessum stjórnarfrumvörpum sínum í vor að verkefnalistinn verði tæmdur alveg, það verði hreinlega ekkert að gera.

Mér finnst alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að fjh.og viðskn. skoði þetta mál vel, en hún getur gert það í haust. Ég er alveg sannfærður um að þeir sem nú sitja í nefndinni munu beita sér fyrir því að nefndin taki á málima í haust ef þeir verða endurkosnir í nefndina sem einhverjir verða, kannski ekki allir, en einhverjir. En í alvöru talað er alger óþarfi að afgreiða þetta mál. Það liggur ekki nokkurn hlut á þessu máli. Það er ekkert í þessu sem rekur á eftir því að þetta gerist fyrr en í haust.

1. gr. snýr að spurningunni um að sýslunefndirnar verði úr sögunni. Hvenær er það? Jú, það er 31. des. 1988. Það er nógur tími í haust að líta á það mál og það er hægt að leysa það fyrir gamlárskvöld hér í þinginu og hv. þm. þekkja vel að það eru oft drjúg næturverkin hér þegar líður að jólum og hægt að bjarga þessu í horn.

Síðan er gert ráð fyrir því að heimilt verði að setja reglur um hámark lána til einstakra lántakenda, það megi setja reglur um slíkt. Gott og blessað. Talið er til bóta að kveða á um það í hinum almennu reglum sem settar eru um lánveitingarnar að ákveðið hámark skuli vera til einstakra lántakenda, svo og að reglurnar sæti endurskoðun eigi sjaldnar en árlega. Þetta er í 3. gr. og allt gott um það að segja. Þetta er hið mesta þjóðþrifamál. En hið sama má segja um fimm þmfrv. sem hafa ekki fengist rædd einu sinni við 1. umr. en eru hin brýnustu þjóðþrifamál og náttúrlega til vansa að þingið fari heim án þess að afgreiða þau líka — eða hvað? Auðvitað liggur málið þannig að þegar verið er að ljúka þinginu er eitt og eitt ágætt mál sem bíður haustsins- og hvað með það? Í rauninni gerast engir stórir hlutir í þeim efnum þó að þetta bíði til haustsins og ég er reyndar viss um að hv. þm. Halldór Blöndal er tilbúinn til að lýsa því yfir að ef svo ólíklega fer að hann verður endurkjörinn formaður fjh.- og viðskn. í haust vilji hann beita sér fyrir því að málið verði skoðað þá, bara í haust. (SkA: Ólíklega, sagði þingmaðurinn.) Ég sagði ólíklega já, því að maður veit aldrei hvað gerist í Sjálfstfl. eins og kunnugt er.

Varðandi 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því að það verði settar reglur til að girða fyrir hagsmunaárekstra handhafa framkvæmdarvalds við töku ákvarðana. Allt gott um það að segja. Svo stendur í 6. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Þá er væntanlega ætlunin að skipta út mönnum í sparisjóðsstjórnunum vítt og breitt um landið vegna þess að þeir lenda aftur og aftur, blessaðir mennirnir, í þessum litlu sparisjóðum meira og minna í hagsmunaárekstrum við sjálfa sig. Þetta eru kannski stórbændur á svæðinu eða stórútgerðarmenn og þeir eru á sama tíma í stjórnum þessara litlu sparisjóða. Þannig hefur þetta verið, mér liggur við að segja um aldir. Það er sjálfsagt að setja reglur um að laga þetta, en að þetta þurfi endilega að gerast á einni nóttu, lög þessi öðlast þegar gildi. Það er ekkert örlítið svigrúm sett fyrir þessa vini okkar hvar sem þeir eru. Hv. þm. Halldór Blöndal nefndi nokkra góða sparisjóði sem við þekkjum til. Það er ekki gerð nein tillaga um aðlögunartíma.

Og eins er það með 5. gr. Allt er þetta vitni um að það er þessi ógnarlega lagabótagleði í Alþfl., Jón lagabætir, hvort sem það er hæstv. viðskrh. eða hinn Jóninn, hæstv. fjmrh. (SkA: Ekki landbrh.?) Nei, ég sleppi honum því að hann hefur verið svo prúður með frumvörp að undanförnu að það mættu sumir taka sér til fyrirmyndar. En allt þetta pappírsflóð frá krötunum í vetur og svo á að bæta gráu ofan á svart með því að afgreiða hellu bankalöggjöfina í fimm umræðum og svo viðskiptabankana í þremur á tíu tímum. Þetta gengur ekki, herra forseti. Ekki ljúka þessari annars skemmtilegu, málefnalegu og góðu deild með leiðindanuddi í lokin. Er ekki rétt að við ljúkum þessu með eðlilegum hætti og hittumst glöð í haust eins og venjan er að segja þegar menn kveðjast í deildum þingsins?