10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7953 í B-deild Alþingistíðinda. (6126)

455. mál, sparisjóðir

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Má ég nú ekki benda hæstv. forseta og hæstv. ráðherra á að hér fóru fram í gær umræður utan dagskrár þar sem hver þingflokkurinn á fætur öðrum úr stjórnarandstöðu lýsti sig meira en fúsan til að sitja áfram og vinna á þessu þingi. Ég sé bara ekki nokkra ástæðu til að ljúka þessu þingi á morgun. Það er greinilega nóg af málum, ágætismálum, hæstv. ráðherra er með eitt hér á takteinum. Ég verð að segja að ég veit af mörgum þörfum, brýnum málum sem liggja í nefndum og fást ekki út vegna ráðríkra ráðherra sem segjast vera að vinna í sömu málum. Þeir tíma ekki að missa heiðurinn af því að þau verði samþykkt þannig að aðrir eigi frumkvæði að þeim. Það er ekki hægt að aka þessum ágreiningslitlu og oft ágreiningslausu málum út úr nefndum vegna þess að ráðherrarnir sitja ofan á þingmönnum sínum sem eru formenn nefndanna. Þetta eru sjálfsögð mál að taka út úr nefndum og ræða hér svo að ég tali nú ekki um þau þmfrv. sem ekki hafa einu sinni fengist til 1. umr. Ég sé bara ekki nokkra ástæðu til að ljúka þessu þingi á morgun. Ég hef nógan tíma til að vinna áfram í sumar og eins og við töluðum um í gær: Það er fjöldinn allur af málum úti í þjóðfélaginu sem eru meira að segja brýnni en þessi og hrópa á lausnir. Ég held að við ættum betur að snúa okkur að þeim en hanga hér yfir sjálfsögðum hlutum langt fram á nætur. Ég segi nú ekki meir.