11.05.1988
Sameinað þing: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7961 í B-deild Alþingistíðinda. (6153)

139. mál, könnun á mikilvægi íþrótta

Frsm. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá félmn. um till. til þál. um könnun á mikilvægi íþrótta og efnahagslegum áhrifum þeirra. Nefndin hefur fjallað um þetta mál og var tillagan send ýmsum aðilum. Eftirtaldir aðilar hafa sent umsagnir og mælt með að könnunin verði gerð: Íþróttasamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Æskulýðsráð, íþróttafulltrúi ríkisins og landlæknir. Í öllum þessum umsögnum kemur fram áhugi þessara aðila og bjóða allir fram aðstoð sína við að láta gera slíka könnun.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem kemur fram á nál. Tillagan orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna áhrif og mikilvægi íþrótta, æskulýðs- og tómstundastarfsemi.

Leitað verði samstarfs við íþróttahreyfinguna um mótun íþróttastefnu til ársins 2000.“

Þegar vitnað er í þetta hefur komið fram að á vegum Íþróttasambands Íslands er unnið umfangsmikið nefndarstarf þar sem markmiðið er að marka íþróttastefnu til ársins 2000. Þetta er mjög mikilvægt mál og tengist efni þessarar tillögu að þessu leyti.

Önnur tillagan er sú að fyrirsögn tillögunnar verði: Till. til þál. um íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarfsemi.

Hjörleifur Guttormsson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu. Undir þetta rita Salome Þorkelsdóttir, Guðmundur Ágústsson, Alexander Stefánsson, Eiður Guðnason, Ólafur G. Einarsson, Þórhildur Þorleifsdóttir og Guðni Ágústsson.