11.05.1988
Sameinað þing: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7967 í B-deild Alþingistíðinda. (6167)

412. mál, könnun á stöðu handmenntakennslu í grunnskólanum

Frsm. félmn. (Salome Þorkelsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1109 frá félmn. um till. til þál. um könnun á stöðu hand- menntakennslu í grunnskólanum eftir gildistöku laga um grunnskóla nr. 63/1974. Nefndin hefur fjallað um till. og leggur til að hún verði samþykkt svo breytt: Tillgr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram könnun á áhrifum laga um grunnskóla, nr. 63/1974, á handmenntakennslu grunnskólabarna. Að lokinni könnuninni verði gerðar tillögur um fyrirkomulag handmenntakennslu í framtíðinni með tilliti til breyttra þjóðfélagshátta og reynslu síðustu ára.

Niðurstöður könnunarinnar og tillögur skulu lagðar fyrir sameinað þing.“

Hjörleifur Guttormsson sat fundi nefndarinnar og er sammála þessari niðurstöðu, en undir nál. rita Salome Þorkelsdóttir, Guðmundur Ágústsson, Guðni Ágústsson, Eiður Guðnason, Þórhildur Þorleifsdóttir, Ólafur G. Einarsson og Alexander Stefánsson.

Mér þykir rétt að geta þess að í gær barst mér bréf frá menntmrn. þar sem fram kemur að það er unnið að könnun á stöðu handmenntakennslu í grunnskólum á vegum menntmrn. m.a. vegna beiðni níu þingmanna um skýrslu frá ráðherra um það efni. Þessari könnun verður ekki lokið fyrr en í júní, en þá verða til reiðu nákvæmar upplýsingar um það efni og jafnframt það sem þessi þáltill. fjallar um, enda þótti nefndinni réttara að láta það í hendur menntmrh. hvort hann þyrfti að skipa nefnd eða hvort unnið væri að þessari könnun sem hefur komið fram að er nú þegar unnið að. Þess vegna er nú lagt til að till. verði samþykkt svo breytt sem fram kemur.