16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hef auðvitað ekkert á móti því að till. eitthvað í þessa veru sé hér til umræðu og væntanlega þá síðar til afgreiðslu, en ég vil þó vekja athygli á því að hér er gert ráð fyrir að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar viðræður við borgaryfirvöld í Reykjavík um ítarlegar rannsóknir o.s.frv. á áhrifum byggingar ráðhúss. Auðvitað hlýtur það að vera svo að Reykvíkingar fyrst og fremst og reykvísk yfirvöld munu ráðstafa því hvar og hvenær ráðhús verði byggt, en ekkert er þó úr vegi að hafa þessar rannsóknir sameiginlega á vegum borgar og ríkisins ef menn telja það eðlilegt.

En það var ekki þetta mál sem ég ætlaði sérstaklega að ræða einskorðað því mér finnst það standa miklu nær okkur hv. þm. að ræða annað mál sem vissulega er að mínum dómi miklu, miklu alvarlegra en bygging þessa fyrirhugaða ráðhúss eða þess sem verið er að ræða um nú. Það er bygging þessa hroðalega þinghúss. Hér var laumað inn við 3. umr. fjárlaga að ég held 12 millj. kr. til að hanna hús sem Alþingi hefur aldrei samþykkt að byggja og mun vonandi aldrei samþykkja að byggt verði. Það er tímabært að stöðva þær rannsóknir sem nú fara þar fram því það er virkilega svo. Við ættum að geta sameinast um, þeir sem hafa þá kynnt sér þessar teikningar og fyrirætlanir, að sú bygging má alls ekki hér í Kvosinni rísa. Það verður að haga húsnæðismálum Alþingis með allt öðrum hætti. Það má byggja hér við hliðina gjarnan lítið og laglegt hús.

Það er alveg rétt, sem hv. flm. sagði áðan, að það má kalla það slys þegar Oddfellowhúsið var byggt. Það stendur nú þarna. Sjálfsagt verður það einhvern tímann rifið. Ég get vel hugsað mér að húsnæðisvandamál Alþingis um sinn mætti leysa með því annaðhvort að kaupa eða leigja það hús ef falt væri eða eitthvert annað hús hér í nágrenninu. Við þurfum svolítið meira húsrými fyrir skrifstofu Alþingis. Það er rétt. Við þurfum enga stóra sali fyrir fundi nefnda. Þær eru fámennar yfirleitt og það nægir mjög takmarkað húsnæði til þess.

En þetta tækifæri gat ég ekki annað en notað til að vekja á þessu athygli því ég á von á því að nú komi til þess aftur við 3. umr. fjárlaga að reynt verði að knýja fram fjármagn til að hrinda þessari byggingu eitthvað áfram, en ég fel það frumskyldu mína sem alþm., og þá ekki síst sem þm. Reykvíkinga, að stöðva það ef ég get að þessi bygging rísi. Það voru 12 atkv. gegn þessu í fyrra, ef ég man rétt, í nafnakalli. Ég vona að það verði 50–60 atkv. nú a.m.k. og helst öll atkvæðin sem koma í veg fyrir það. Ég vil segja: Ef það var hneyksli með Oddfellow, þá er það margfalt hneyksli sem nú er verið að undirbúa. Það ber okkur þm. að stöðva.