11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4446 í B-deild Alþingistíðinda. (6189)

241. mál, jafnréttismál

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur verið skeleggur málsvari jafnréttis á Alþingi og flutti t.d. umdeilda till. um sérstakar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna eða jákvæða mismunun. Hún hefur beitt sér til að bæta launakjör kvenna og hún hefur verið gagnrýnin á ráðherra vegna stöðuveitinga og annarra stjórnvaldsaðgerða sem brjóta í bága við jafnréttislög og er það vel. Ekki þarf því í löngu máli að ítreka fyrir henni eða lýsa vandkvæðum kvenna við að ná jafnrétti á við karla í launum, stöðuveitingum og starfsframa og áhrifastöðum í þjóðfélaginu almennt. Vert er þó að minna þingheim á niðurstöður úr nýútkominni skýrslu Jafnréttisráðs um framkvæmd 12. gr. jafnréttislaga, en þar kemur eftirfarandi fram:

„Árið 1985 eru karlar 90% þeirra sem sitja í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkisins sem kosin eru af Alþingi. Karlar eru 91% þeirra sem sitja í stjórnum, nefndum og ráðum sem skipuð eru og kjörin skv. lögum og ályktunum Alþingis. Karlar eru 88% þeirra sem sitja í nefndum sem Skipaðar eru af stjórnvöldum.“

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að í ljós hafi komið að konur sem eru annaðhvort starfandi innan hefðbundinna karlagreina eða standi körlum jafnt að vígi formlega séð til að gegna ábyrgðarstöðum í nefndum, ráðum og stjórnum séu síður tilnefndar til þess að gegna þeim stöðum. Enn fremur segir í könnun frá Jafnréttisráði á kynjaskiptingu í helstu stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá hinu opinbera:

„Í ábyrgðar- og stjórnunarstörfum á aðalskrifstofu ráðuneyta og Hagstofu var árið 1985 engin kona ráðuneytisstjóri. Af tólf skrifstofustjórum var ein kona, af 26 deildasérfræðingum fimm konur og engin kona var sendiherra. Í ábyrgðar- og stjórnarstörfum innan níu opinberra stofnana, hjá Vegagerð ríkisins, Alþingi, Orkustofnun, Ríkisbókhaldi, Húsameistara ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Húsnæðisstofnun ríkisins, Hafrannsóknastofnun og borgardómaraembættinu í Reykjavík, voru konur árið 1985 samtals 61 af 318. Allir forstjórar þeirra opinberu stofnana sem athugaðar voru voru karlar.“

Eitt fyrsta verk hæstv. félmrh. í ráðuneyti sínu var að senda sérstakt bréf til ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja ríkisins. Í bréfi ráðherra er vitnað í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar um markmið í jafnréttismálum. Enn fremur í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Með tilliti til þessara tilvitnana ráðherra og efnis bréfs hennar að öðru leyti ber ég fram eftirfarandi fsp., með leyfi forseta:

„Hvernig hefur tekist til um framkvæmd þeirra tilmæla sem félmrh. beindi til ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja ríkisins 22. júlí 1987 varðandi átak til að ná settum markmiðum ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum? Hefur konum fjölgað í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum opinberra aðila? Hefur þeim konum fjölgað sem ráðnar eru til „ábyrgðarstaða“ á vegum hins opinbera? Hafa ráðuneyti og opinberar stofnanir á vegum ríkisins tekið upp sveigjanlegan vinnutíma eða hafið undirbúning að slíkum vinnuháttum?"