15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

24. mál, ráðstafanir í ferðamálum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna framkominni þáltill. á þskj. 24, sem 1. flm. hefur gert grein fyrir á mjög góðan og röggsaman hátt, en vil jafnframt geta þess að ég var tíu fyrstu ár Ferðamálaráðs varaformaður þess og vil upplýsa hv. þm. um að það vantaði ekki stefnu í ferðamálum á þeim árum. Sú stefna var til og henni var framfylgt af miklum dugnaði við enga aðstoð má segja frá því opinbera aðra en að hið opinbera greiddi húsaleigu og hálfan starfskraft, starfskraft sem vann þó af þeim áhuga og þeirri hugsjón að hann gerði það í fullu starfi fyrir þau litlu laun sem hann fékk. Þessari stefnu hefur verið fylgt og henni er fylgt í dag af veikum mætti þó svo að smátt og smátt hafi starfið aukist, fyrst með framlagi frá Ferðaskrifstofu ríkisins eins og hún var rekin á þeim tíma en henni var gert að skila vissum hundraðshluta af ágóða sínum af starfsemi á Keflavíkurflugvelli sem síðan þróaðist upp í stórmarkað sem átti að skila Ferðamálaráði og Ferðamálasjóði stórum upphæðum og gerði það í upphafi þangað til ríkið ákvað að taka til sín hluta af því sem þar skapaðist í tekjum.

Ég veit af samstarfi mínu við fyrrv. samgrh. að hann hafði mikinn áhuga fyrir þessum málum og vann ötullega að því að bæta um og laga og móta nýja stefnu í ferðamálum sem bar mjög góðan árangur.

Ég vil því lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. Ég held að hún sé tímabær eins og allar aðrar tillögur sem hafa komið fram í ferðamálum. En ég vil líka segja að á sínum tíma hafði Ferðamálaráð samband við erlenda aðila, fyrst við fyrirtæki sem heitir Tourist Consult og er svissneskt. Til þess að benda á hvaða verkefni þetta svissneska fyrirtæki hefur fengið og haft með að gera, þá var t.d. framkvæmd samkvæmt tillögum þess tilfærsla á bakhliðinni á fjalli í Mónakó út í sjávarmál og þar er nú komið undirlendi og hefur verið reistur þar heill borgarhluti sem er, ef ég man rétt, 1/4 af stærð Mónakó miðað við það sem hún var áður en þær framkvæmdir hófust. Er það nú ein mesta, ef ég má segja það á útlendu máli, „tourist attraction“ á því landsvæði.

Þetta fyrirtæki var fengið til að gera bráðabirgðatillögur sem til stóð að Sameinuðu þjóðirnar kostuðu á lokastigi. Það komu frá því bráðabirgðatillögur sem voru í þykkum bókum og gerðar á eigin kostnað í von um að Sameinuðu þjóðirnar mundu endanlega standa undir framkvæmdum ef Ísland veldi það fyrirtæki til að koma hingað með nýjar hugmyndir um ferðamál. En því miður var það ekki valið.

Í þessum tillögum var uppbygging ekki bara innanlands og á suðvesturhorninu, sem talað hefur verið um, heldur tekinn fyrir heimshringurinn. Ég veit ekki hvort hv. þm. átta sig á því að ferðamannastraumnum í heiminum er stjórnað afskaplega mikið. Það er ótrúlegt hvað fólk er fært frá einum stað til annars án þess að átta sig á því. Ferðamannastraumurinn gengur þannig eftir áætlunarferðum sem ákveðnir aðilar skipuleggja. Það var ætlunin að fá minni hring út úr þessum stóra hring inn á Ísland og svo aftur enn þá minni hringi innan Íslands út úr aðalhringnum inn á hina ýmsu túristastaði á landinu. En til þess þurfti mikið fjármagn og mikla skipulagningu. Það var hringurinn í kringum landið og það var út um allt land. Það þurftu alls konar samskipti til að koma, bæði telex og allt sem heitir nýtískulegt í samskiptum, ekki bara á flutningi á fólki heldur samskiptum innanlands og við veröldina og svo hvað snertir flutninga á fólki með þyrlum til staða þar sem ekki er hægt að leggja vegi o.fl. Þetta voru stórkostlegar hugmyndir. Mikið hefur því verið unnið að ferðamálum og margar hafa hugmyndirnar komið og allt er hægt að rekja til þeirrar tillögu sem upphaflega kom fram frá Sjálfstfl. á sínum tíma og var byggð á hugmyndum Lúðvígs Hjálmtýssonar fyrrv. ferðamálastjóra. Ég held að fáir geri sér grein fyrir því hve mikinn þátt hann á í uppbyggingu á ferðamannastraum til landsins. Störf Lúðvígs Hjálmtýssonar verða seint metin. Og Ferðamálaráð hefur gert meira en að hugsa um suðvesturhornið. Þetta voru svo stórkostlegar hugmyndir allt saman.

En hvað skeði? Stjórnvöld völdu ekki Tourist Consult með þessar stóru hugmyndir heldur völdu þau annan franskan aðila sem Sameinuðu þjóðirnar bentu á og kostuðu hingað til að móta nýjar hugmyndir um ferðamenn og aðdráttarafl fyrir ferðamenn hérna. Út úr því kom hin fræga bygging sem menn muna kannske eftir og hafa séð í blöðunum að átti að reisa við Krýsuvík og vera yfirbyggt eins konar tívolí ef svo mætti segja. En engar aðrar hugmyndir en sú bygging komu fram í tillögum þaðan að ég man.

En það sem ég vil segja að lokum, hæstv. forseti, er þetta: Við erum nú að hefja störf Alþingis fyrir þetta kjörtímabli. Fjárlagafrv. er að koma fram. Við heyrum um ágreining í stjórnarliðinu á öllum stöðum. Við höfum fréttir frá nefndum, hvort sem þær heita fjvn. eða nefndir um sjávarútveg, af því að maður hefur sjútvrh. fyrir framan sig núna, eða hvort það er innan flokkanna, um fjárveitingar og um fjárlagafrv. En meðan fjárlagafrv. er að volgna, ef það er þá komið í heilu lagi til alþm., kemur tillaga fram um auknar stöðuheimildir sem eiga náttúrlega að ræðast í ríkisstjórn og eiga að ræðast með stjórnarflokkunum á þessu stigi málsins og koma fram með fjárlagafrv. Þar kemur í 2. lið sérstök áskorun til Alþingis um að tryggja að fjmrh. verði ekki heimilað að skerða framlag til ferðamála heldur skuli fjmrh. fara að lögum og breyta þeim ekki. Þannig lít ég á þetta. Stjórnarþm. eru að reyna samvinnu við Alþingi sem ekki er fyrir hendi en hefur eflaust verið reynd innan stjórnarflokkanna.

Ég lýsi því yfir að ég mun beita mér fyrir því í mínum flokki að þeim sem vilja gera einhverja bragarbót á fjárlögunum verði hjálpað, þeim stjórnarþm. sem vilja gera einhverja bragarbót á fjárlögum verði hjálpað, bæði í þessu tilfelli, sem eru ferðamál, og í öðrum tilfellum þar sem ágreiningur er um fjárlögin og mér skilst af fréttum bæði í blöðum og sögusögnum að það sé ærið verkefni fyrir stjórnarandstöðuna að taka þar til hendi með skynsömum mönnum í stjórnarliðinu.