16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég tek undir orð Kristínar Einarsdóttur, hv. 12. þm. Reykv., að Tjörnin og skipulag höfuðborgarinnar varðar okkur öll, hvort sem við eigum heima í Reykjavík eða utan höfuðborgarinnar. Höfuðborgin er okkur kær og okkur er ekki sama um hvernig skipulag hennar tekst til.

Ég kem hér upp til þess að vekja athygli á því sem ég hef ekki síður áhyggjur af, en það eru gífurleg umferðarmannvirki sem eru fyrirhuguð við hinn enda Tjarnarinnar. Þar er á teikniborðinu umferðarmaskína sem minnir helst á það sem maður sér í stórborgum erlendis. Liggur mér við að segja að það líkist mest því sem ég hef séð t.d. í borg eins og Los Angeles, eins hræðilegt og það lítur nú út. T.d. er fyrirhugað að fjórföld gata verði lögð meðfram Tjörninni, væntanlega til að koma bílunum þá í kjallarann á fyrirhuguðu ráðhúsi, þ.e. Sóleyjargata og Lækjargata. Ég hygg þá að það eigi að koma fjórföld gata inn að ráðhúsinu eftir Vonarstræti. Með þeirri umferðarmaskínu sem er fyrirhuguð við hinn enda Tjarnarinnar, þ.e. þar sem núverandi Hringbraut liggur, sé ég ekki betur en það sé endanlega búið að eyðileggja allt lífríki Tjarnarinnar, með byggingu ráðhússins og svo þeim umferðarmannvirkjum sem eru fyrirhuguð. Ég held að það sé því orðið fyllilega tímabært að huga að því að sett verði sérstök lög um Tjörnina og umhverfi hennar og hún friðlýst og sett á náttúruminjaskrá.