15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

24. mál, ráðstafanir í ferðamálum

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa stuðningi mínum við anda þeirrar till. sem hér er lögð fram til þál. af fimm hv. alþm. úr jafnmörgum kjördæmum. Ég geri það vegna þess að ég tel að hér sé hreyft mjög merku máli sem er vettvangur þar sem sannarlega þarf að taka til hendi. Það fer ekkert á milli mála að þarna, á sviði ferðamála, er vaxtarbroddur í atvinnulífi Íslendinga á næstu árum og áratugum og það fer heldur ekki á milli mála að þessi vettvangur er kjörinn vegna þess hve landið er gott að þessu leyti.

En mig langar líka til að geta þess að perlur Íslands sem ferðamannalands eru fyrst og fremst á landsbyggðinni og það eru þessar perlur sem hafa að mörgu leyti verið ónýttar. Ég minni á eitt mál sem mun koma til þings í vetur og er raunar komið til einnar nefndar. Gullfoss í Suðurlandskjördæmi er ein þessara perla sem ekki hefur verið sýndur sá sómi sem skyldi. Aðstaðan þar er gersamlega óviðunandi. Þangað fer nánast hver einasti erlendur ferðamaður sem til landsins kemur. Þarna er verkefni sem í rauninni þolir enga bið.

En mig langar líka til í leiðinni að minna þingheim allan á þann þátt í uppbyggingarmálum landsbyggðarinnar þar sem einna mest verk er óunnið. Það eru samgöngumálin, það eru vegamálin sjálf. Vitaskuld er mér ljóst að þar hefur mikið verið unnið. En til þess að árangurs sé að vænta, sem þessi till. til þál. gefur vissulega tilefni til að ætla og vona, þarf að sækja fram á mörgum vígstöðvum jafnt.