16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mér finnst hreint ekkert óeðlilegt að þetta mál sé rætt í þingsölum vegna þess að þetta varðar fleiri en Reykvíkinga og kannski varðar þetta Alþingi líka töluverðu, eins og hér hefur raunar komið fram, og ég tek undir þau tilmæli sem hér hafa komið fram um að forsetar þingsins fylgist með framvindu þessa máls vegna þess að hér er verið að byggja ofan í þingstaðinn og allt finnst mér þetta orka tvímælis svo að ég segi eins og er.

Hins vegar furðar mig svolítið á allri þeirri umræðu sem hér er um lífríki Tjarnarinnar og heyrist nú helst að þeir þm. sem mest tala um það hafi kannski mest lítið komið nálægt Reykjavíkurtjörn. Ég held ekki að það stofni lífríki Tjarnarinnar í svo stórkostlega hættu þó að hún sé skert um 1, jafnvel 2 eða 3%. Það er allt annað sem stofnar lífríki þessarar tjarnar í hættu og nú skal ég segja hv. þm. svolitla sögu.

Fyrir tveimur árum eða svo mætti ég æðarkollu á Skúlagötunni sem var að berjast undan norðanrokinu með sex unga. Með aðstoð lögreglunnar var henni og ungunum komið á þessa tjörn. Þá voru þeir sex. Morguninn eftir var einn eftir og daginn þar á eftir var enginn eftir. Við höfum nefnilega raskað jafnvægi lífríkisins með því að sjá veiðibjöllunni fyrir kræsingum með því að fjölga fýlnum t.d. en aðallega þó veiðibjöllunni sem lifir á ungunum á Tjörninni. Það eru ekki hin beinu mannanna verk eða umferðin í kringum Tjörnina sem andarungunum þar stafar háski af heldur af varginum sem étur áreiðanlega 8–90% af ungunum sem koma á Tjörnina. Þetta vita þeir sem fylgjast með.

Satt best að segja furðar mig á því að það skuli heldur ekki hafa komið fram í þessari umræðu hvað Reykjavíkurborg hefur sýnt Tjörninni lítinn sóma. Hafa menn gengið hringinn í kringum Tjörnina t.d. sl. sumar? Hvernig er vesturbakkinn? Hann er ekkert nema illgresi. Hvernig var norðurbakkinn? Hann var hruninn ofan í Tjörnina. Hvernig var suðurbakkinn, þessi perla, þetta hjarta? Þessu var svona sinnt. Menn tala ekki um þetta hér. Gengu menn fram með suðurtjörninni, Litlu Tjörninni sem kölluð er, í sumar, á sumarkvöldi? Þaðan lagði rotnunarpest svo að það var nánast ekki hægt að ganga þar um bakkana.

Ég held að þeir hafi ekki komið nálægt Reykjavíkurtjörn sem tala hér mest um lífríki Tjarnarinnar, ekki kynnt sér hvernig staðan er þar. Það hefði verið ástæða til þó fyrr hefði verið að hreyfa þessum málum vegna þess að það hefur verið til háborinnar skammar hvernig borgaryfirvöld í Reykjavík hafa hugsað um Reykjavíkurtjörn. Og það er ekki bara mál borgarbúa einna. Það er mál okkar allra eins og þessi höfuðborg er.

Og ég læt það verða mín síðustu orð hér að taka undir tilmæli til forseta Alþingis um að fylgjast gjörla með framvindu þessa máls. Það er sjálfsagt að láta rannsaka lífríki Tjarnarinnar, en við þurfum að gera ýmislegt annað meira ef við ætlum að standa að þessu eins og Tjörnin verðskuldar og það líf sem þar er.