16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hafa lýst þeirri skoðun sinni í dag að þessar umræður hafi verið býsna sérkennilegar. Menn tala hér andaktugir um endurnar á Tjörninni og lýsa ástandinu þar, þó af mismikilli andagift sé eða andríki.

Ég verð að segja, þó að það sé kannski óvenjulegt að maður sé í félagsskap með hv. 2. þm. Vestf. í ýmsum málum eða hv. 3. þm. Norðurl. v., að ég tek undir það sem þeir hafa sagt. Hér er á ferðinni mál sem á fyrst og fremst heima í réttkjörinni borgarstjórn Reykjavíkur. Ég treysti réttkjörnum borgarfulltrúum mætavel til að fara í einu og öllu eftir ákvæðum laga og reglna sem snúa að þessum málum og ekkert síður þeim þáttum þessa máls sem snerta lífríki Tjarnarinnar.

Nú er búið að eyða u.þ.b. einum og hálfum tíma, dýrmætum tíma þingsins, í umræður um mál sem ætti réttilega heima í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég legg til að menn reyni að stytta þessar umræður sem þar að auki bera það með sér eins og till. sjálf að vera ætlað að koma höggi á meiri hlutann í borgarstjórn Reykjavíkur.