16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Umræðan hefur nokkuð kólnað, þessi umræða um 4. málið, enda margir farnir úr salnum sem tóku þátt í henni áðan. En þegar hún stóð sem hæst datt mér í hug að menn gerðu mikið úr því að tilfinningar kynnu að liggja að baki málflutningi þeirra sem hafa áhyggjur af lífríki Tjarnarinnar. Þó fannst mér heitastar tilfinningar ólga í máli þeirra sem mest lögðu áherslu á málefnalegan málflutning. Og síðan hvenær gera hv. þm. það hér á Alþingi að rjúfa tengsl heila og hjarta í málflutningi sínum? Ég minni hv. þm. á að það voru heitar tilfinningar sem lágu að baki þeim þáltill. sem vörðuðu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, án þess að ég ætli að jafna því máli og þessu. Þá þótti engum vansi að því að hafa heitar tilfinningar með í spilinu. Nei, við skulum ekki vanmeta hlutverk eða sess tilfinninga í máli okkar og baráttu fyrir þeim málum sem við teljum réttlætismál. Hins vegar hafa tilfinningarnar ekki borið ofurliði stuðningsmenn þessa máls né haft slæm áhrif á málefnalega umræðu þeirra að mínu mati.

Ýmsir hv. þm. hafa dregið í efa að væntanleg bygging ráðhúss við Tjörnina muni hafa áhrif á lífríki hennar. Má ég þá vitna efnislega til orða hv. borgarstjóra sjálfs í útvarpsþætti fyrir skemmstu. Þar lýsti hann yfir því að hann hefði áhyggjur af því hve lítið væri vitað um aðdraganda þeirra vatna sem renna í Tjörnina og það þyrfti sannarlega að rannsaka. Vitanlega er þetta vatn hluti að og reyndar undirstaða fyrir lífríki Tjarnarinnar. Hann fullyrti sem sagt sjálfur að ekki væri vitað um grundvallaratriði í sambandi við þessa tjörn og það sem heldur uppi lífríki hennar.

Síðan var vikið að öðru máli og það var fylling Tjarnarinnar, en fnykurinn af þeirri fyllingu fór fyrir brjóstið á hv. 3. þm. Vesturl. og væntanlega fleirum. Hvort sem það var í þágu hans eða annarra vildi hv. borgarstjóri grafa ofan í Tjörnina til þess hún fylltist ekki upp og þornaði. Náttúrufræðingar höfðu áhyggjur af því og ráðlögðu frá því vegna þess að þeir sögðu að það mundi líklega taka þrjú ár fyrir Tjörnina að fyllast á ný. Borgarstjóri vissi það ekki heldur í raun hve lengi Tjörnin yrði að jafna sig en hann tók áhættuna af því að hann er djarfur maður. Hann tók áhættuna á því að grafa ofan í Tjörnina og dýpka hana. Og viti menn: Sérfræðingarnir sem héldu að það tæki þrjú ár fyrir hana að fylla sig hljóta að hafa verið undrandi. Borgarstjóri vissi ekki heldur hvað það tæki langan tíma, en Tjörnin fylltist á þrem dögum. Þetta sýnir hve lítið er vitað um lífríki Tjarnarinnar.

Bara þetta, sem kom fram í málflutningi borgarstjóra sjálfs, eru nægilegar ástæður fyrir því að rannsaka lífríki Tjarnarinnar. Hann kemur með sterkustu rökin fyrir því sjálfur.