16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég kem aðallega upp þar sem ég er einn af flm. þáltill. og til að svara því sem hér hefur komið fram varðandi stjórnskipun og annað er varðar þetta mál.

Hér hefur verið mikið rætt um hverjir eigi að taka á þessu máli, hvort það eigi að vera sveitarstjórnir og Reykjavíkurborg þá eða hvort þetta á að vera í höndum ríkisvaldsins eða ríkisstjórnarinnar. Þegar ég skrifaði undir að vera meðflm. að þessari þáltill. leit ég þannig á að hér væri verið að athuga hvort sveitarfélagið, Reykjavíkurborg, væri að fara rétt að málum með tilliti til 29. gr. laga um náttúruvernd. Og það er einmitt kjarni þessa máls. Hann er sá stjórnskipunarlega hvort Reykjavíkurborg hafi farið eftir þeim lögum sem Alþingi hefur sett sveitarstjórnum sem öðrum að fara eftir. Það er ein af grundvallarreglum Alþingis að sjá til þess að framkvæmdarvaldið fari ekki út fyrir það starfssvið sem það hefur og það bitni á borgurum þessa lands, Reykvíkingum sem öðrum landsmönnum.

Það er Tjörnin sem hér er aðallega til umræðu, en því miður hefur umræðan farið langt út fyrir það og kannski langt út fyrir velsæmismörk oft og tíðum.

Í 29. gr. laga um náttúruvernd ákvað Alþingi að setja þeim sem spilla vildi ákveðnum náttúruminjum ákveðin mörk að leita álits Náttúruverndarráðs um breytingar ef þær náttúruminjar mundu skipta um svip. Þetta er í mínum huga aðalatriði þessa máls en ekki hvort einstakir fuglar þrífist þarna eða ekki og lífríkið í Tjörninni.

Ég held að þetta sé kjarninn í till., að Alþingi feli ríkisstjórninni og þá félmrh. sem æðra stjórnvaldi yfir sveitarstjórnum að komast að samkomulagi um þessi atriði. Ég vil sem sagt taka undir það sem hér hefur komið fram í þá veru.