16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það eru ummæli hv. 2. þm. Norðurl. e. sem komu mér upp í ræðustól aftur. Hann gaf í skyn að vegna þess að ég fæ ekki lengur að vera í Sjálfstfl. sé auðséð og auðheyrt að ég hafi skipt um skoðun á því máli sem hér er til umræðu, þ.e. staðsetningu ráðhúss á svæði sem er lögverndað að mati margra sem hér hafa talað. Ég vil upplýsa hv. Alþingi og þá sérstaklega hv. 2. þm. Norðurl. e. um að það bar enginn annar borgarfulltrúi Sjálfstfl. í Reykjavík fram tillögu um ráðhúsbyggingu eftir að ráðhús hafði verið samþykkt á sínum tíma samkvæmt tillögu fyrrverandi borgarstjóra, Gunnars Thoroddsens, og staðsett í tjarnarendanum þar sem nú er talað um að setja nýtt ráðhús. Það ráðhús sem fyrrverandi borgarstjóri fékk samþykkt var samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum í borgarstjórn, en borgarbúar komu í veg fyrir staðsetninguna. Eftir það bjóst ég ekki við að ágreiningur yrði aftur meðal borgarbúa um staðsetningu á ráðhúsi á sama stað og borgarbúar höfðu þegar hafnað þrátt fyrir einróma afstöðu borgarstjórnar á sínum tíma.

Ég kom með tillögu um ráðhúsbyggingu í Reykjavík og ég vissi ekki til þess að það væri neitt við það að athuga af hendi Sjálfstfl. á sínum tíma. Við höfum verið sammála um að það þyrfti að reisa ráðhús í Reykjavík. Það datt engum í hug að staðsetja ráðhúsið á þeim stað sem Reykvíkingar höfðu þegar hafnað.

Ég get þess líka að það var enginn annar borgarfulltrúi en ég sem kom með tillögu, sem var samþykkt bæði í Sjálfstfl. og í borgarstjórn, um að laga í kringum Tjörnina. Það gekk svo langt að þegar vinstri meiri hlutinn náði völdum í borgarstjórn ætlaði hann að byrja framkvæmdir í Tjörninni, ekki við Tjörnina sjálfa, að laga kantana og umhverfið eins og ég hafði gert ráð fyrir, heldur að fylla hana af alls konar skrauti, tréplönkum og dóti sem ég vissi aldrei hvernig átti að vera, en alla vega stóð til að fylla Tjörnina slíku tréverki. Sem betur fer varð aldrei úr því.

En ég vil upplýsa hv. 2. þm. Norðurl. e. um að tillögur um ráðhúsbyggingu og tillögur um lagfæringu Tjarnarinnar komu frá mér hvað eftir annað í borgarstjórn og það var enginn ágreiningur í Sjálfstfl. þegar ég var þar.

Ég vísa því heim til föðurhúsanna að gripið sé til þannig málflutnings vegna þeirra umræðna sem hér hafa farið fram sé verið að veitast að borgarstjórn eða forustu borgarstjórnarmeirihlutans án þess að hann sé viðstaddur til að taka upp hanskann eða verja sig. Þetta er svo lágkúrulegt að það er varla svaravert. En úr því að það er komið fram er best að taka upp málið og spyrja: Hvers vegna hagar borgarstjóri málflutningi sínum eins og hann gerði í lokuðum útvarpsþætti fyrir nokkrum dögum um þetta mál? Ég hef ekki gert mér far um að kynna mér hvað hann hefur sagt í borgarstjórn, við höfum ekki sem þingmenn aðgang að þeim vettvangi til að verja okkur, en í útvarpsþættinum sagði hann: Hvað eru þingmenn Reykvíkinga að skipta sér af þessu máli? Þeir hafa aldrei komið nálægt málum Reykvíkinga og þeim kemur þetta ekkert við.

Ég verð að segja alveg eins og er að alþm. Reykvíkinga kemur við allt sem snertir Reykjavík og ekki bara Reykjavík heldur langt út fyrir það.

Ég mótmæli því að það sé hægt að kalla það, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, að setja stein í götu borgarstjórnarmeirihlutans að vera ósammála honum. Skárra væri það nú ef ætti að lögbinda það að menn mættu ekki vera ósammála borgarstjórnarmeirihlutanum. Það á kannski að lögsetja það að menn megi alls ekki vera ósammála þessum nokkru hræðum sem enn þá eru eftir í Sjálfstfl. á Alþingi!

Nei, ég fagna því og mun styðja borgarstjóra í þeim verkum sem við vorum sammála um og snerta ráðhús í Reykjavík. Ég veit að hann sem djarfur ungur maður á eftir að byggja ráðhús í Reykjavík þó svo að Reykvíkingar mótmæli þessari staðsetningu. Það ráðhús sem hann á eftir að byggja verður áreiðanlega glæsilegt ráðhús sem setur svip sinn á höfuðborgina. Ég treysti fáum betur en honum í það. Þetta er röskur maður, skemmtilegur og mjög gaman að starfa með honum. Ég lít á hann sem félaga minn í pólitík þó við séum í mismunandi sjálfstæðisflokkum, skulum við segja, í dag.

En hv. þm. talaði líka um alþingishús. Ég var með tillögu í borgarstjórn sem snertir alþingishúsið. Hún var svo kolfelld af þáverandi hæstvirtum forseta sameinaðs Alþingis sem var Eysteinn Jónsson. Hann sá ástæðu til að hlaupa til og samþykkja einmitt að alþingishús skyldi byggt hér á þessum stað strax og sú tillaga kom fram. Tillaga mín var fólgin í því að alþingishúsið yrði byggt annars staðar í Reykjavík en hér í Kvosinni. Ég var helst með í huga fallegt svæði fyrir alþingishús, ósnortið svæði sem væri hægt að byggja upp á mjög fallegan og nýtískulegan hátt. Það var Rauðavatnssvæðið. Og einmitt í framhaldi af því var ég með þá hugmynd að Alþingishúsið gæti orðið ráðhús, Reykjavíkurborg keypti Alþingishúsið og Alþingishúsið gæti orðið ráðhús Reykvíkinga. Ef ekki, þá a.m.k. safnahús. Þá yrði Reykjavík að byggja sitt ráðhús og Alþingi að byggja sitt alþingishús annars staðar þar sem pláss er fyrir starfsemina.

Sem sagt, það er ekki ágreiningur um að byggja ráðhús, ég styð borgarstjóra í því, en það er ágreiningur um staðsetninguna. Ég vil endurtaka það að tillaga um ráðhús og Tjörnina var flutt af mér hvað eftir annað í borgarstjórn og þá samþykkt án ágreinings í Sjálfstfl. og ég veit ekki til þess að við séum ósammála um það. Þegar ég segi að ég hafi flutt hvað eftir annað tillögu um ráðhús er það ekki rétt, það var einu sinni gert, en hvað eftir annað tillaga um lagfæringu á Tjörninni og Tjarnarumhverfinu.