17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu um lánsfjáráætlun. Ég get þó ekki orða bundist undir þeim ræðum sem hv. deild hefur setið, sérstaklega hvað lýtur að því hver þáttur atvinnulífs er og þeirra sem þar starfa í sambandi við meðferð fjármuna.

Mér finnst því miður umræðan einkennast of mikið af því að menn vantreysti þeim mönnum sem bera rekstrarlega ábyrgð á fyrirtækjum úti í atvinnulífinu og einnig finnst mér umræðan þar af leiðandi einkennast of mikið af því að það beri að treysta ákveðna miðstýringu og forsjá hins opinbera. Þessu hlýt ég að mótmæla, sérstaklega í ljósi þess að ef menn skoða sögu Íslands, sögu íslensks atvinnulífs, var það ekki að frumkvæði hins opinbera, ekki að frumkvæði hv. Alþingis eða einhverra kerfismanna, sem Íslendingar byggðu upp sitt atvinnulíf með þeim hætti sem við þekkjum, heldur var það fyrir frumkvæði þess fólks sem tók þá áhættu að vera ekki verndað af ríkinu, hvorki í rekstrarlegum skilningi, þ.e. hvað eignarform áhærir, né með tilliti til þess hvar menn störfuðu sem launþegar og tóku áhættuna af því. Nægir í því sambandi að vekja athygli á því að meginþorri landsmanna í íslensku atvinnulífi býr ekki við jafnverðtryggðan og öruggan ellilífeyri og þær þúsundir sem starfa hjá hinu opinbera. Það er þetta fólk ásamt þeim sem bera rekstrarlega ábyrgð á fyrirtækjunum eignalega og annað sem við erum að tala um öðrum þræði þegar við erum að fjalla um lánsfjáráætlun. Það er þetta fólk sem á mikið undir því hvernig hv. Alþingi fjallar um þetta mál með tilliti til þess hvernig fjármunum er ráðstafað.

Ég segi þetta vegna þess að það hefur margkomið fram og kemur fram í lánsfjáráætlun að um helmingur þeirra fjármuna sem hér eru til umræðu eru peningar sem eiga að koma úr sjóðum fólksins, ég segi sjóðum alþýðunnar, og sjóðum þeirra fyrirtækja sem menn vilja helst ekki að komi til sögu þegar á að ráðstafa peningunum aftur til að undirbyggja forsenduna fyrir því að við hér, hv. alþm., erum að tala yfirleitt um lánsfjáráætlun. Helmingurinn af þeim 12 milljörðum sem við erum að tala um að eigi að ráðstafa í lánsfjáráætlun kemur úr sjóðum atvinnulífsins og sérstaklega lífeyrissjóðunum, rúmlega 6 milljarðar ef ég man það rétt, án þess að fara að tíunda það upp á einseyring.

Þess vegna finnst mér það mjög leiðinlegt, svo að ekki sé meira sagt, hvernig talað er til þeirra aðila sem bera ábyrgð á því hvernig þetta fé verður til. Ég nefni sem dæmi: Hér er talað um verðbréfasjóði og fjármálafyrirtæki alls konar eins og þau séu af hinu vonda. Það er einnig sagt að þessir sjóðir, þessi fyrirtæki, dragi fé frá þörfum hlutum og eiginlega gefið í skyn í sumum ræðum að hér sé um einhver vafasöm viðskipti að ræða. Þá er mér spurn: Hverjir eru viðskiptamenn þessara fjármálastofnana? Hverjir eru það sem eiga þessa verðbréfasjóði? Ég get svarað þeirri spurningu, virðulegi forseti. Það vill svo til að það eru til skrár yfir þetta allt saman sem eru hjá verðbréfaþingi og hjá þessum sjóðum sjálfum og þá kemur í ljós, ef maður skoðar samsetningu þessara sjóða, að meginstofninn í sjóðunum eru ríkisskuldabréf. Þetta eru ekki bara skuldabréf sem eru búin til vegna þess að einhverjir einstaklingar koma og eru að braska með peninga. Þarna er um að ræða tilfærslu á skuldabréfum, ríkisskuldabréfum, bankaábyrgðarbréfum o.s.frv. Að meginstofni eru þetta þess konar bréf. Einnig er þarna mikið um bréf sem fyrirtæki gefa út og selja. Um hvaða fyrirtæki erum við að tala? Við erum að tala um frystihús, við erum að tala um iðnfyrirtæki o.s.frv. o.s.frv. Ég held að það sé misskilningur hvernig ýmsir hv. þm. tala um þessi mál. Ég tek það skýrt fram að ég á ekki eitt einasta skuldabréf, ekki eitt einasta verðtryggt, þannig að ég get talað frjálst um þetta. Ég tek það einnig skýrt fram að mér finnst alrangt að um þetta sé fjallað eins og hér sé á ferðinni eitthvað svona vafasamt fólk í íslensku þjóðlífi. Meginstofninn í þessu er eldra fólk sem notar sína sparipeninga en það er líka rétt. Það tekur kannski út peninga af reikningum í bönkum og kaupir ríkistryggð skuldabréf, annaðhvort í gegnum þessi fjármálafyrirtæki eða í gegnum banka. Síðan er þetta fólk að „realisera“ þessi skuldabréf eða breyta til, kaupa bréf í ár með því að selja bréf sem það keypti fyrir 10 árum. Svona skilst mér að þessi viðskipti fari fram. En það er auðvitað hægt að gera ráðstafanir til þess að upplýsa hv. þm. betur um það síðar í 2. umr. til þess að allt liggi hér á borðinu.

Það er einnig rétt að verðbréfasjóðirnir eru greinilega nýtt form sem færir til sparifé, þ.e. það er bundið meira í öðrum eignum en áður. Ég geri varla ráð fyrir því að það væri neitt fagnaðarefni, hvorki fyrir hv. þm.hæstv. fjmrh., ef drægi úr kaupum á ríkisskuldabréfum. Ég minnist þess að hér fyrir nokkrum vikum var auglýst að Byggðasjóður hefði verið að bjóða lífeyrissjóðunum skuldabréf með 9,2% vöxtum ef ég man rétt. Þarna er aðili sem kemur mjög sterkt inn á markaðinn og er að ýta undir vaxtahækkanir þannig að þegar við erum að skoða þetta verðum við að gera okkur grein fyrir hverjir eru kaupendur og seljendur. Stærstu kaupendur á þessum markaði eru auðvitað að verða lífeyrissjóðirnir. Það liggur í augum uppi. Þar er raunverulega hinn eini skipulagði grundvallarnettósparnaður sem Íslendingar geta litið til. Og er þá rétt að skoða nokkuð nánar hvernig menn hyggjast nálgast það.

Hv. þm. þekkja þá umræðu sem hefur verið undanfarin ár um Húsnæðisstofnun og húsnæðismálakerfið. Það hefur verið sagt af hálfu þeirra sem bera ábyrgð á því kerfi að það vantaði alltaf fé og mun það vera rétt. Það hefur vantað mikið fé í húsnæðismálakerfið til þess að það gæti svarað þeirri eftirspurn sem þar hefur verið fyrir hendi. Við skulum einnig huga að því að ein þjóð notar ekki meginhlutann af sparifé sínu bara í það að byggja íbúðir þó að þær séu nauðsynlegar og mikið hafi verið byggt á Íslandi á undangengnum árum. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að í meðferð sparifjár verðum við að gera það upp við okkur í eitt skipti fyrir öll að ríkið eða íbúðaþáttur þjóðarinnar getur ekki sogað til sín allt sparifé landsmanna. Spariféð verður að fara einnig út til atvinnuveganna. Það hefur komið fram í ræðum hv. þm. og síðast hjá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að það væri verið að skera niður það fé sem færi í mjög þarfa og nauðsynlega sjóði vegna atvinnulífsins og voru Iðnlánasjóður og Fiskveiðasjóður sérstaklega nefndir. Ég get tekið undir þau orð.

Þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan að við verðum að taka afstöðu til þess að þetta nýmyndaða sparifé, sem er í lífeyrissjóðunum og sem mun verða mjög mikið á næstu árum, verður einnig að fara að stórum hluta út í atvinnulífið aftur. Við megum ekki einblína á það sem einhverja allsherjarlausn í sambandi við lánsfjáráætlun eða íbúðabyggingar hérlendis, enda hefur það þegar komið fram í þessari lánsfjáráætlun, sem hv. þm. hafa e.t.v. ekki tekið nægjanlega vel eftir, að á sama tíma sem fyrir Alþingi liggur frv. til laga um breytingar á núgildandi húsnæðislöggjöf, þar sem hæstv. félmrh. leggur mikla áherslu á það að hann geti ekki sinnt skyldum sínum sem ráðherra þar sem þær breytingar ná ekki fram að ganga sem hæstv. ráðherra leggur áherslu á í formi frv. og þar af leiðandi sé ekki hægt að afgreiða lán samkvæmt þeirri þörf sem fram kemur í umsóknum hjá húsnæðismálakerfinu, kemur það fram hér í lánsfjáráætlun að ríkissjóður hyggst frysta hluta af því fé sem húsnæðismálakerfið tekur að láni í lífeyrissjóðunum. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp úr þskj. 1 þar sem segir um Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna þessu tengt:

Horfur eru á að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna verði mun meira en ráð var fyrir gert í lánsfjáráætlun ársins og stefnir í að skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna af Byggingarsjóði ríkisins verði 875 millj. kr. hærri árið 1987 en ráð var fyrir gert. Af því fé er nú ákveðið að ráðstafa 150 millj. á árinu 1987 til þeirra húsbyggjenda sem eiga í sérstökum greiðsluerfiðleikum en afgangurinn, 675 millj., verður bundinn í sjóði í árslok. Þá er miðað við að 150 millj. af því fjármagni verði varið í sama skyni árið 1988. Miðað er því við að í árslok 1988 verði 500 millj. kr. í sjóði hjá Byggingarsjóði ríkisins, það má segja í vörslu ríkissjóðs. Er þetta m.a. gert vegna þess að veruleg aukning er á ráðstöfunarfé byggingarlánasjóðanna og hætta á að vaxandi þensla ýti undir hækkun íbúðaverðs. Ákvörðun þessi getur komið til endurskoðunar ef forsendur breytast verulega, t.d. ef ráðstöfunarfé lífeyrissjóða reynist vera undir áætlun eða ef verðlag rýrir framkvæmdarmátt.

Ég vek athygli á öðru í sambandi við þetta þar sem segir í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, og finnst mér það hörmuleg niðurstaða ef hægt er að draga slíka ályktun eins og ég ætla að leyfa mér að gera hér nú:

Útgjöld ríkissjóðs vegna uppbóta á lífeyri opinberra starfsmanna árið 1988 eru áætluð 861 millj. kr. eða — ég vil ekki segja svipuð upphæð en það er þó hægt að segja það vegna þess að ég geri ráð fyrir að þessar 500 millj. sem á að frysta þarna verði meira en 500 millj. — það má segja að hér sé um svipaða upphæð að ræða sem á að frysta í ríkissjóði af lántöku húsnæðissjóðs hjá almennu lífeyrissjóðunum árið 1988 og á að greiða vegna lífeyris opinberra starfsmanna. Þarna finnst mér raunverulega verið að nota óbeint lántöku í almennu lífeyrissjóðunum til þess að létta af hinu opinbera þeirri greiðslubyrði sem er í sambandi við lífeyri opinberra starfsmanna.

Auðvitað er rangt að draga ályktun svona, en þetta stingur í augað þegar maður horfir á þetta hvort tveggja í sama plaggi. Sérstaklega þykir mér það alvarlegt þegar haft er í huga að það fólk sem þessi lántaka hvílir á býr allt meira og minna við takmarkaðan verðtryggðan ellilífeyri. Og við höfum ekki enn þá, hv. þm., fundið leið til að tryggja þessu fólki sambærileg ellilífeyriskjör og þeim sem eru hjá hinu opinbera. Ég get þess vegna ekki orða bundist og vek athygli á því að mér finnst þarna verið að fara bakdyramegin að lántöku hjá almennu lífeyrissjóðunum. Það á ekki að nota peningana í það kerfi sem menn leggja áherslu á að efla, sumir hverjir, heldur finnst mér að þarna sé verið að létta á hinu opinbera.

Í lánsfjáráætlun segir m.a. að fjárfestingarlánasjóðir gegni þýðingarmiklu hlutverki í fjármögnun fjárfestingar hér á landi, ekki síst sökum þess hve almenn þátttaka áhættufjármagns í atvinnurekstri er hér óveruleg. Þetta er hárrétt og ég get tekið undir þessar röksemdir, enda styðja þær það sem hér hefur áður verið skýrt frá að þeir sem fara í áhætturekstur verða að búa við þær aðstæður að þessi skilningur ríki jafnframt því sem menn verða að viðurkenna það að áhætturekstur á Íslandi, þ.e. hið frjálsa atvinnulíf hefur orðið að treysta meir og meir á önnur form, aðra möguleika í sambandi við fjármögnun og uppbyggingu fyrirtækja en áður var, þ.e. þessi viðskipti hafa færst meira frá bönkum og yfir til þessara fjárfestingarlánasjóða og að vissu marki þeirra nýju fjárfestingarfyrirtækja sem upp hafa risið í tengslum við flestalla banka á Íslandi, hvort sem það eru einkabankar eða ríkisbankar.

Þá er það grundvallaratriði, sem segir einnig í fskj. 1 með lánsfjáráætlun og á fjárlögum, að í þessari áætlun er miðað við að atvinnuvegasjóðirnir annist eigin lántökur. Stefna ríkisstjórnarinnar er að draga úr ríkisafskiptum og auka markaðsáhrif á lánamarkaðinum. Þess vegna er ekki talið rétt að binda lántöku sjóðanna við Framkvæmdasjóð heldur heimila þeim að afla lánsfjár innan ramma lánsfjárlaga að eigin vild á hagkvæmustu kjörum sem bjóðast.

Þetta er gott svo langt sem það nær, en ég vek athygli á því að ef við viljum telja okkur frjálsa þjóð, ef við viljum vera tengd vestrænum ríkjum viðskiptalega með þeim hætti að við séum frjáls og sjálfstæð þjóð og getum átt viðskipti á þeim grundvelli sem við höfum gert hingað til, þá verðum við að viðurkenna að það gerist ekki nema að íslenskt fjármagn fái að njóta sín í íslensku atvinnulífi og að afskipti hins opinbera séu sem minnst. Þetta er grundvallaratriði sem við hljótum að viðurkenna. Svo er það annað mál hvernig við ætlum að fullnægja sameiginlegum þörfum þjóðarinnar í hinum opinbera geira. Um það er hægt að tala í löngu máli en ég læt þetta nægja, virðulegi forseti.