15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

24. mál, ráðstafanir í ferðamálum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Suðurl., Óli Þ. Guðbjartsson, lét þau orð falla áðan að hér hefðu menn látið sig litlu skipta Gullfoss, perlu íslenskrar náttúru sem hann réttilega svo nefndi. Þetta er ekki með öllu rétt hjá hv. þm. Hér á Alþingi hafa menn látið sig þetta nokkru varða. Á haustþinginu 1985 flutti ég þáltill. um þjóðgarð við Gullfoss og Geysi. Sú till. var samþykkt á Alþingi, nokkuð breytt að vísu, en efnislega mjög í þá átt sem hún upphaflega stefndi að, en með leyfi forseta gerði Alþingi svohljóðandi ályktun í málinu:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta skipuleggja svæðið umhverfis Gullfoss og Geysi í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Verði Skipulagi ríkisins falin framkvæmd málsins í samvinnu við viðkomandi sveitarstjórnir, Náttúruverndarráð og Geysisnefnd. Skipulagið miðist við það að tryggja að umhverfi Gullfoss og Geysis verði ekki raskað með mannvirkjagerð, að nauðsynleg ferðamannaþjónusta verði byggð upp á einum stað á svæðinu og að byggingar og samgönguleiðir falli sem best að umhverfinu.“

Þetta er samþykkt Alþingis frá 10. apríl 1986. Því miður finnst mér varðandi hv. þm. Borgarafl. að þeir tali stundum eins og ekkert hafi gerst áður en flokkur þeirra kom til sögunnar, en það er nú einu sinni svo að áður gerðist ýmislegt og menn hafa sumir hverjir, jafnvel í Borgarafl., býsna langa fortíð í pólitík líka.